16.05.1929
Neðri deild: 70. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 3307 í B-deild Alþingistíðinda. (2068)

39. mál, einkasala á síld

Frsm. minni hl. (Jóhann Jósefsson):

Það er ekki svo að sjá, að hjer sje um mál að ræða, sem þingheimur láti sig miklu skifta, þar sem hv. d. er svo að kalla tæmd í hvert sinn, sem síldarmálin eru á dagskrá. Jeg leyfi mjer að segja, að það er hinum ráðandi þingflokkum til skammar, hvaða tómlæti þeir hafa sýnt þessu máli. Tveir þm. í Ed., sem á þessu sviði atvinnuveganna hafa ekki unnið sjer neitt annað til ágætis en að vera settir í framkvæmdarstjórn einkasölunnar, án þess að hafa nokkurn hæfileika til þess, flytja þetta frv. um breytingu á einkasölulögunum, sem miðar að því að kippa burt því frjálsræði, sem einstaklingarnir höfðu áður samkv. einkasölulögunum. Frv., sem auk þess hefir í sjer fólgna marga og mikla galla, sem koma í bága við hið gildandi þjóðskipulag, ætla hv. þm. að láta sjer sæma að gleypa, gersamlega athugasemdalaust og gagnrýnislaust, og sýna þeim hluta landsmanna, sem hjer á mest undir, þá óvirðing að vera ekki einu sinni viðstaddir, þegar málið er rætt.

Mjer hefir verið fundið það til foráttu, að jeg hafi einungis komið fram með smáaðfinningar, en minna farið út í hin stærri atriði málsins. Jeg hefi þó bent á ýmsa framkvæmdargalla, en mjer hefir láðst að geta um eina ómyndarráðstöfun hjá stj. einkasölunnar, sem hefir komið mjög bagalega við marga einstaklinga, nefnilega það, hvernig veiðileyfum var úthlutað í fyrra. Menn voru að síma stj. einkasölunnar, og svo var verið að skamta þeim leyfi smátt og smátt, en það var svo takmarkað, sem þeir máttu salta af síld, að það þýddi alls ekki að ætla sjer að gera út bát til slíkra veiða. Það var talað um 500–600 tunnur á bát! En á sama tíma voru spekúlantarnir, þessi voldugu óskabörn einkasölunnar, sem fengu tómar tunnur í þúsundatali til að geta grætt sem mest, að fá leyfi út á allskonar báta, jafnvel opna báta, sem svo voru alls ekki gerðir út. Þetta hefir leitt það af sjer, að búast má við, að maður, sem ætlar að gera út einn bát, neyðist til að láta í veðri vaka, að hann ætli að gera út fleiri, til þess að fá sæmilegt söltunarleyfi fyrir þennan eina bát. Mjer þykir sennilegt, að við, sem fremur öðrum erum fulltrúar útgerðarinnar, vitum ekki um öll þau herkænskubrögð, sem beitt hefir verið gagnvart útgerðinni af þessari stofnun, einkasölunni. Hv. þingmeirihluti hefir í tvö ár látið ljós sitt skína í þessu máli, og stefna hans er sú, að gera framleiðendur sem áhrifaminsta og draga einkasöluna í hendur pólitískum klíkuskap. Þetta er alvarlegt ástand. Það spor, sem stigið var með síldareinkasölunni, ætlar að verða til þess, að framkoma útlendra síldarkaupenda gagnvart Íslendingum gerbreytist.

Ein af fyrstu brtt., sem við þrír þm. fluttum. var um það, að breyta nafninu „einkasala“ og kalla það „Síldarsamlag“. Jeg leyfi mjer að hafa það eftir einum fulltrúanum erlendis, að „monopol“ okkar hafi orðið okkur til skaða í útlöndum. En brtt. okkar fjekk enga áheyrn. Síðan þetta gerðist, hafa borist hingað fregnir, sem mega teljast alvarlegar fyrir þá, sem bera útgerðina fyrir brjósti. Danska blaðið „Börsen“, sem er ákaflega merkilegt blað, segir 26. apríl frá því, að síldareinkasalan íslenska hafi komið hreyfingu á sænskan niðursuðuiðnað um aðdrætti á hráefnum, og komi það mjög í bága við íslenska hagsmuni. Einnig segir blaðið, að Svíar, sem hafi keypt þessa vöru að undanförnu, uni því illa að þurfa að eiga aðdrætti sína á hráefnum undir því, sem blaðið kallar „Statsmonopol“ í öðru landi. Hjer er það komið fram, sem ýmsir óttuðust, að sjálft nafnið fælir menn frá að skifta við einkasöluna. Í þessu blaði er líka skýrt frá því, að Svíar sjeu að hugsa um að hefjast handa um að afla nokkurs hluta þess hráefnis, sem þeir þurfi. Fundur var haldinn í Svíþjóð í miðjum mars til þess að ræða þetta mál. Fiskiveiðadirektörinn sænski, Rosen, var á fundinum. Það er búist við, að Svíar fiski á 9 skipum í sumar við Ísland. Þeir hafa hugsað sjer að hafa stór skip, af því að bæði er rýmra að vinna á þeim og hægra að eiga við kryddsíldina. Sænsku niðursuðuverksmiðjurnar nota árlega 40 þús. tunnur af kryddsíld. en til að veiða svo mikið, þarf 40 skip í meðalári. Niðursuðuverksmiðjurnar hafa lýst yfir því, að þær vilji leggja fje í fyrirtækið, og áformað er að afla á þessu ári helmingsins af því, sem verksmiðjurnar þurfa, en auka það svo, að á næsta ári verði Svíar orðnir sjálfbjarga um að afla þessarar vöru.

Jeg skal ekki þreyta þá fáu þm., sem hlusta á mál mitt, með lengri skýrslu en þetta. Hún er lengri í danska blaðinu, en þetta nægir til að sýna, að hættur þær, er af einkasölunni stafa, eru ekki einungis fólgnar í því, að fá völdin yfir þessari framleiðslugrein í hendur pólitískum flokkum landsins og stofna með því til misrjettis við framleiðendur og fiskimenn, heldur líka í hinu, að einkasalan sje að eyðileggja þann markað, sem við höfum haft. Þegar hættur steðja þannig að úr tveim áttum, bæði að innan og utan, þá virðist mjer vera allmikill ábyrgðarhluti fyrir þingmeirihlutann að haga sjer með löggjöf um einkasöluna eins og gert hefir verið bæði á þinginu í fyrra og nú, en þó einkum nú. Þingmeirihlutinn virðist hafa þá tröllatrú á þeim tveim þm. í Ed., sem fluttu þetta frv., að þeirra orð í þessu máli sje það eina, sem mark sje takandi á hjer á Alþingi. Við 2. umr. sannaði jeg, að hv. þingmeirihluti er hjer að reka erindi kommúnista, innfæra fyrirkomulag, sem álitið er af þeim stjórnanda einkasölunnar, sem er viðurkendur kommunisti, vera í samræmi við þá ríkiseinokun, sem að hans dómi er æskilegust.

Jeg gæti trúað því, að að því ræki fyrir þeim, sem tekið hafa ráðin af framleiðendum, að þeir fengju að sjá, að það er hægra í þessu efni, eins og svo mörgum öðrum, að rífa niður en að byggja upp. Jeg veit, að á síldarsölunni voru margir ágallar, áður en einkasölulögin voru samþ. En þrátt fyrir það voru þær aðgerðir ekki nauðsynlegar, sem stefna þessum atvinnuvegi í beinan voða. Eftir öllum eyktamerkjum að dæma, virðist aðferð hv. þingmeirihluta vera beint á þeirri leið, með einkasölulögunum frá í fyrra og ekki síst þessu frv. Við, sem höfum leitast við að finna sanngjarnan meðalveg og bent á rjett framleiðenda og gildandi lagafyrirmæli, sem frv. kemur í bága við, hljótum að leggja alla ábyrgð af afleiðingum frv. á herðar þingmeirihlutanum, sem með harðneskju hefir barið lögin í gegnum þingið og bannað þm. að ræða málið lengur en honum þóknaðist.