16.05.1929
Neðri deild: 70. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 3317 í B-deild Alþingistíðinda. (2070)

39. mál, einkasala á síld

Jón Auðunn Jónsson:

Það er að bera í bakkafullan lækinn að ræða lengur um þetta mál, enda býst jeg ekki við, að það hefði nein áhrif á úrslit málsins við atkvgr. Jeg get því verið stuttorður.

Jeg hygg, að ekki þurfi skarpskygni mikla til þess að sjá, hvað hjer er á ferðum. Það er sennilega öllum ljóst. Það er annar stuðningsflokkur hæstv. stj., sem er í þann veginn að kúga hana og aðalflokk hennar til þess að svíkja lit. Og það er einmitt í því máli, sem er yfirlýst stefnumál stj., samvinnumálinu. Við, sem trúum á gildi samvinnunnar innan vissra og skynsamlegra takmarka, við köfum bent á að leysa þetta mál á samvinnugrundvelli. Maður skyldi nú ætla, að slíkar till. fengju áheyrn og góðar undirtektir í flokki þeirra, sem telja sig samvinnumenn öðrum fremur. En hvað skeður? Svo harðlega herða jafnaðarmenn ólina að hálsi stj., að hún sjer sinn kost vænstan að heykjast á höfuðstefnumáli sínu frammi fyrir augliti allrar þjóðarinnar. Að vísu er þetta ekki í fyrsta sinn, sem slíkt á sjer stað með núv. stj. Hún gæti nú, eftir þetta afrek sitt, tekið sjer í munn orð skáldsins:

„Við skulum heldur en verða bit

velta röngu og svíkja lit“.