27.02.1929
Neðri deild: 9. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 3320 í B-deild Alþingistíðinda. (2077)

37. mál, verkamannabústaðir

Flm. (Hjeðinn Valdimarsson):

Jeg bar fram á þingi í fyrra frv. sama efnis. Það komst þá á dagskrá 1–2 sinnum, en var ekki rætt, enda orðið áliðið þings þegar það kom fram. Nú hefi jeg lagt það fyrir aftur með litlum breyt.

Það er óhætt að fullyrða, að það er fátt hægt að gera verkamönnum meira til hagsbóta heldur en að hjálpa þeim til að eignast gott og ódýrt húsnæði. Sú stefna er nú að hjálpa sveitabændum með að rækta jörðina og byggja bæina upp. En hliðstætt því er að hjálpa verkamönnum í kaupstöðum til að eignast hæfileg húsakynni. Og þótt húsakynnin sjeu víða ljeleg til sveita, þá eru þó ýms þau húsakynni, sjerstaklega kjallara- og þakherbergin, sem verkafólk í kaupstöðum verður að notast við, bæði fullorðnir og börn, mjög ljeleg. Og ef tryggja skal nokkurnveginn þroska og heilsu kynslóðarinnar, er nauðsynlegt, að bætt sje úr þessu.

Nú er það víst, að verkamenn eru ekki svo efnum búnir, að þeir geti bygt yfir sig af eigin ramleik. Er því með frv. þessu farið fram á, að ríkissjóður og bæjarfjelög styðji þá til þess. Ætlast er til, að bæjarfjelögin láti gera sambyggingar í þessu skyni og selji síðan verkafólki þær fyrir það verð, sem þær kosta uppkomnar, að frádregnum ríkissjóðsstyrknum, eða 10%. Gert er ráð fyrir, að verkamenn borgi út 15% af verði húsanna, en eftirstöðvarnar á 42 árum með 5% afborgun árlega, eða með svipuðum kjörum og lánað er til bygginga á gömlum sveitabýlum.

Í frv. er ætlast til, að hver fjölskylda fái 2–3 herbergi til íbúðar, auk eldhúss. En við nánari athugun tel jeg að lágmarkskröfur fjölskyldu þurfi að vera 3 herbergi, auk eldhúss. Að vísu gæti 2 herbergja íbúð dugað til að byrja með, en þegar börnum fjölgar og fjölskyldan vex, mega herbergin ekki vera færri en 3. Gætu fámennar fjölskyldur þá leigt út 1 herbergi fyrst í stað. Þessar íbúðir mættu ekki kosta meira en 50 kr. á mánuði, eftir því sem kaupgjald er nú.

Nú má vera, að einstök bæjarfjelög vilji ekki skifta sjer af þessu. Er því gert ráð fyrir því, að mynda megi byggingafjelög, sem kæmu í stað bæjarfjelaganna. Bæjarfjelögin skulu þá ábyrgjast lántökur fjelagsins, en hafa 1. veðrjett í húsunum. Gert er ráð fyrir, að fjelög þessi verði með samvinnusniði.

Þá eru og ákvæði um það, ef þeir, sem keypt hafa, selji aftur, þá sje söluverðið miðað við upprunaverðið, að viðbættu því, sem eigandi hefir gert til umbóta íbúðinni, en að frádreginni hæfilegri fyrningu. Er þetta sjálfsagt atriði, þar sem hið opinbera veitir fje til þessa með vægum kjörum og tilætlunin vitanlega ekki sú, að eigendur fái sölugróða, er þeir selja hús, er þeir hafa eignast á þennan hátt.

Hjer í Reykjavík mun nú vera mest þörf fyrir slíkar byggingar. Fyrir nokkrum árum var hjer almennur skortur á húsnæði. En nú hefir allmikið verið bygt hin síðari ár, svo nú mun svo komið, að efnamenn og millistjett hafi viðunandi húsnæði. En þessar byggingar hafa ekki verið gerðar með þörf verkafólksins fyrir augum. Jafnframt munu betri íbúðir hafa lækkað nokkuð, en aftur íbúðir þær, kjallarar og þakherbergi, sem fjöldi verkamanna verður að sætta sig við, eða aðrar ljelegri íbúðir hafa ekki lækkað — jafnvel hœkkað. Og lítil von er um, að það lagist af sjálfu sjer, því ávalt fjölgar fólki hjer, bæði af mannfjölgun bœjarins sjálfs og innflutningi.

Bæjarstj. hjer hefir hafist handa um að rannsaka íbúðir bæjarbúa. Var það gert á síðastl. ári og er nú verið að vinna úr þeim skýrslum. Enn er þó ekki lengra komið en svo, að tölur þær, sem gefnar eru upp í grg. við frv. þetta, eru einu tölurnar, sem búið er að fullgera. Sjest af þeim, að mikill fjöldi af heimilum hefir ekki eldhús eða aðgang að eldhúsi. Mætti koma með margar sannar og hryllilegar lýsingar á íbúðum, einkum þeim, sem eru í kjallara eða undir súð. Jeg mun þó ekki rekja það nánar nú, en vil nota tækifærið til þess að geta um, að tölur þær, sem eru í grg., eru ekki alveg rjettar. Stafar það af því, að ekki var búið að telja í einum bæjarhluta. Voru tölurnar í grg. áætlaðar þaðan, en reyndust aðrar. Þær eiga að vera:

í stað 843 komi: 722,

í stað 929 komi: 886, og

í stað 2.848 komi: 3.012.

Eftir er þó enn að telja íbúðir innan Hringbrautar og á Grímsstaðaholti svo sennilegt er, að fyrri tölurnar verði nálægt hinu rjetta.

Bæjarstj. hjer hefir haft þetta mál til umr. og úrlausn á því, svipuð því sem kemur fram í þessu frv., hefir vakað fyrir henni, báðum flokkum að jeg held.

Tilgangurinn með þessu frv. er sá, að verkamannafjölskyldum verði trygt bæði heilnæmara og ódýrara húsnæði en þær eiga kost á nú. Hvorttveggja er mikilsvert atriði og hið síðara þýðir í raun og veru meiri tekjur fyrir verkamennina.

Vænti jeg svo, að frv. þetta fái góðar undirtektir hjá hv. Alþingi. Legg jeg til, að því verði að lokinni umr. vísað til allshn.