20.02.1929
Neðri deild: 3. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 347 í B-deild Alþingistíðinda. (208)

17. mál, eftirlit með skipum og bátum

Pjetur Ottesen:

Jeg vil benda á, að það er ekki gengið inn á nýja braut í þessu frv., þannig, að það hafi engin gjöld í sambandi við þetta bátaeftirlit hvílt á útveginum áður. Eins og tekið hefir verið fram, hvíla þegar nokkur gjöld á útveginum í sambandi við eftirlitið samkv. núgildandi lögum. Hjer er lagður á nýr skattur, sem á að renna í ríkissjóð. Jeg skal ekkert um það segja, hvað þetta kann að nema miklu eða hversu langt það kann að hrökkva til hinna auknu útgjalda. Þó hugsa jeg, að það sje ekki ólíklega til getið, að hjer sje um að ræða aukin útgjöld úr ríkissjóði. En þegar tekið er tillit til þess, hve mikil og þung útgjöld eru lögð á útveginn í samanburði við það, sem gert er fyrir þá atvinnugrein, þá er ekki rjett eða sanngjarnt að leggja á hann nýjan skatt.