02.05.1929
Neðri deild: 59. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 3343 í B-deild Alþingistíðinda. (2085)

37. mál, verkamannabústaðir

Pjetur Ottesen:

Mjer hefir virst það koma fram hjá formælendum þessa frv., að þeir byggi kröfur sínar um það að veita fje úr ríkissjóði til húsabygginga í kaupstöðum og að ríkissjóður taki ábyrgð á lánum, sem nota á í sama skyni, á því, hve mikið sje búið að gera í þessu efni fyrir sveitirnar. Það er ekki hægt að neita því, að mikið hefir verið gert fyrir sveitirnar síðustu árin, en hingað til hafa þeim þó ekki verið rjettar neinar gjafir, nema ef menn vildu nefna þann atbeina, sem sveitirnar eiga að fá til húsabóta samkv. lögum um byggingar- og landnámssjóð, því nafni. Það er náttúrlega alveg rjett, að vaxtakjör þess sjóðs eru þannig, að það má segja, að þeir, sem lána njóta úr sjóðnum, fái ef til vill einhverjar gjafir. En þess ber þó að gæta, að sá böggull fylgir skammrifi, að umráðarjettur og ráðstöfunar manna yfir þeim eignum, sem settar eru að veði fyrir þessum lánum, er mjög skertur, og auk þess fer það mjög eftir því, hver hlunnindi hjer er um að rœða, hversu hagsýnn sá maður reynist, sem ráða á um stærð og gerð þeirra bygginga, sem lán er veitt til að koma upp, því eins og kunnugt er, eru ráðin í því efni tekin af þeim, er lánanna eiga að njóta.

Lánskjörin í rœktunarsjóðnum eru aftur á móti þannig, að lántakendur verða að greiða allan kostnað, er af þeim lánum flýtur. Hitt er og alkunnugt, að öll lán, sem hingað til hafa verið veitt til húsabóta í sveitum, hafa greiðst að fullu, en það verður ekki það sama sagt um öll samskonar lán til kaupstaðanna.

Hjer hefir verið seilst svo langt í samanburð um fjárframlög hins opinbera til sveitanna annarsvegar og kaupstaðanna hinsvegar, að taldar hafa verið upp — að jeg ekki segi eftir — þær upphœðir, sem varið hefir verið til samgangna á landi, og því haldið fram, að það sje eingöngu fyrir sveitirnar gert. Fyr má nú vera fjarstœða! Fje hefir verið veitt til samgangna bæði á sjó og landi. Og þótt um samgöngur á landi sje að ræða, hafa kaupstaðirnir sannarlega notið góðs af þeim og þær fullkomlega stutt að vexti og viðgangi kaupstaðanna engu síður en sveitanna. Jafnvel þótt samgöngubæturnar sjeu aðeins sveita á milli, eru þær gróði fyrir kaupstaðina, að því leyti sem bættar samgöngur greiða fyrir aukinni ræktun. vaxandi framleiðslu og kaupgetu bænda. Alt þetta styrkir verslun og velmegun kaupstaðanna.

Með þessu frv., sem hjer liggur fyrir, er gengið inn á nýja braut, og sama er að segja um brtt. þær, sem hæstv. atvmrh. hefir flutt við frv., að því leyti, að hjer er að ræða um beinan styrk til bygginga og ótakmarkaða ríkisábyrgð á lánum fyrir kaupstaðina í þessu skyni. Hitt er auðsætt, að að ýmsu leyti er allmikill munur á frv. og brtt. T. d. er gengið út frá því í frv., að það sjeu bœjarfjelögin, sem byggi. (HV: Nei). Það stendur í 2. gr., að bæjarfjelögin eigi að koma byggingunum upp. (HV: Og selja þær aftur). Það má vera, en í brtt. hæstv. atvmrh. er gengið út frá, að komið sje á fót samvinnufjelagsskap í þessu augnamiði. Samkv. frv. á hið opinbera að greiða 1/10 kostnaðar. en samkv. brtt. hæstv. atvmrh. skulu ríkissjóður og bœjarsjóður hvor um sig leggja í sjóðinn 2 kr. á hvern íbúa. Er ríkissjóði sýnilega allmikið íþyngt með þessu ákvœði, sem gert er ráð fyrir í frv. Líka er munur á ákvæðunum um ábyrgðarheimildina, því að í 3. lið 2. gr. stendur samkv. brtt.: „Lánin ábyrgjast ríkissjóður og bæjarsjóður í jöfnum hlutföllum“, en samkv. frv. var ætlast til, að ríkissjóður einn bæri ábyrgðina.

En það er þó sameiginlegt með frv. og brtt., að engin takmörk eru sett fyrir því, hve ábyrgð ríkissjóðs geti orðið há. Ábyrgðirnar takmarkast eingöngu af því, í hve miklar byggingar er ráðist.

Hjer er brotið í bága við þá stefnu, sem fylgt hefir verið frá öndverðu um ábyrgðir hins opinbera, því að jafnan hefir verið tiltekið í hverju einstöku tilfelli, hve upphæðin megi verða há, sem ábyrgð er tekin á. Hæstv. atvmrh. hefir talað um, að ábyrgðin gæti ekki orðið hœttuleg, vegna þess hve lánin væru vel trygð. En samkv. till. hæstv. atvmrh. er gert ráð fyrir, að lánað sje út á alt að 85% af byggingarkostnaði. Hjer held jeg, að varla geti talist varlega farið, þegar miðað er við það, hve löggjöfin hefir gengið langt í þessu efni, þegar landbúnaðurinn á í hlut. Byggingar- og landnámssjóðurinn og ræktunarsjóðurinn lána eigi út á nema 3/5 af virðingarverði, og aðrir sjóðir, eins og t. d. söfnunarsjóður, fara þó enn varlegar, því að þeir lána eigi nema út á helming, og það miðað við fasteignamat. Held jeg því, að það sje langt frá því, að ábyrgðin geti talist með öllu áhœttulaus.

Í brtt. hœstv. atvmrh. er fylgt ákvœðum frv. um vexti og lánstíma, 5% af allri lánsupphæðinni í 42 ár. Í þessari brtt. er gert ráð fyrir, að verið sje að bæta úr þörf þeirra, sem verst eru settir og brýnasta þörf hafa á því að koma sjer upp húsnæði, en í 5. brtt. er talað um, að húsin eigi að vera með venjulegum nútímaþægindum, með lóðarbletti umhverfis. Jeg veit nú raunar ekki fyllilega, hvað þeir, sem að þessu máli standa, kalla venjuleg nútímaþægindi. Hitt er alkunna, að það orð er venjulega notað um dýrar byggingar, að þær sjeu með öllum nútímaþægindum, og er mjer sagt, að ekki sje heiglum hent að standa straum af húsaleigu í slíkum byggingum. Jeg er því mjög hræddur um það, ef fylgja á þessum ákvæðum bókstaflega, að það verði með öllu ofvaxið þeim mönnum, sem hjer standa verst að vígi og fátækastir eru, með öllu ofvaxið að leggja fram þó ekki sje nema 15% af byggingarkostnaði húsa, er slíkar kröfur eru gerðar til.

Engum dettur í hug að neita því, að æskilegt væri, að hagur landsmanna stæði þannig, að þeir gætu notið góðra húsakynna, og ennfremur að sem flestir ættu kost á því að hafa hina grænu og lifandi náttúru umhverfis sig, en það verður að gæta þess að spenna ekki bogann svo hátt í þessu efni, að einmitt þeir, sem hafa þess mesta þörf, að greitt sje fyrir í þessu efni, sjeu ekki útilokaðir frá þessum atbeina, með því að gera byggingarnar svo kostnaðarsamar, að þeir fái ekki rönd við reist.

Það er talað um það í brtt. hæstv. atvmrh., 5. gr. 5. lið, „að byggingarnar sjeu reistar á lóðum, sem kaupstaðirnir eða ríkið eigi að leigja“. (Forsrh,: Eiga eða leigja, — þetta er prentvilla í gr.). Nú, svoleiðis. Er það þá meiningin, að þar sem ríkissjóður á lóðir í kaupstöðum, þá eigi hann að leigja þær í þessu skyni? Það verður þá líka gert hjer í Reykjavík. (Forsrh.: Ríkið eða kaupstaðirnir eiga að gera það, og Reykjavík gerir það nú). Jeg vil þá spyrja, hvort ríkinu eða Reykjavíkurbæ sje skylt að láta lóðirnar af hendi. (Forsrh.: Nei). Hjer stendur í 5. gr. skilyrði um, að byggingarnar sjeu reistar á þessum lóðum, sem kaupstaðirnir eða ríkið eiga. Mjer finst, að það þyrfti að taka þetta til rækilegri athugunar, og jeg hefi þess vegna vakið athygli á því. En af því að nokkur vafi er á þessu, þá ætla jeg ekki að fara lengra út í það að sinni.

Jeg hefi nú bent á nokkur atriði í þessum brtt. hæstv. atvmrh., sem mjer þykja athugaverð. Jeg geri það ekki af því, að jeg búist við að treysta mjer til að greiða atkv. með þeim og fylgja því, að kaupstaðirnir verði teknir út úr og veitt þessi fríðindi. Það er langt frá því. Eigi á annað borð að ganga inn á þessa braut, þá er vitanlega óforsvaranlegt annað en að láta hið sama ganga yfir kauptúnin, eins og brtt. hv. 1. þm. N.-M. gera ráð fyrir.

Því var haldið fram af hv. 2. þm. Reykv., að íbúar kaupstaðanna hefðu verri aðstöðu hvað íbúðir snertir heldur en þeir, sem í kauptúnunum búa. Jeg verð nú að segja, að ef þetta er bygt á samskonar grundvelli eins og hitt, sem hann hjelt fram, að íbúðirnar væru yfirleitt verri í kaupstöðunum en í sveitunum, þá byggi jeg ekki mikið á þeirri speki hans. En það má nú ef til vill vorkenna hv. þm., sem alinn er upp í kaupstað, þó að hann þekki ekki mikið til slíkra ástæðna í sveitunum. (HV: Jeg þekki eins mikið til í sveitum landsins eins og hv. þm. Borgf. utan Akraness). Það ætti að mega gera þá kröfu til hv. þm., að hann hefði meira vald á skapsmunum sínum en svo, að hann kastaði fram þessum fullyrðingum, sem enginn fótur er fyrir, og um efni, sem hann veit ekkert um.

Jeg hefi lýst því yfir, að jeg get ekki fylgt þessu frv. og að jeg get heldur ekki greitt atkv. með brtt. hæstv. atvmrh. En ef ganga skal inn á þessa braut á annað borð, þá verður, eins og jeg hefi áður tekið fram, að gera það á þeim grundvelli, sem hv. 1. þm. N.-M. leggur til.

En það dylst mjer ekki, að þeim till. er að formi og frágangi, eins og þær eru nú, mjög ábótavant og þurfa því mjög rækilegrar athugunar við, ef þær yrðu lagðar til grundvallar fyrir afgreiðslu málsins.

Það er því nauðsynlegt, að þær komi nú til atkv., því þá fæst strax úr því skorið, hvað leggja skuli til grundvallar fyrir afgreiðslu þessa máls, ef þá nokkuð af því nær samþykki deildarinnar. Og verði það ofan á að samþ. eitthvað í þessu efni, þá er hægt að nota tímann, sem líður milli 2. og 3. umr., til frekari athugunar á málinu eins og nú yrði frá því gengið.