04.05.1929
Neðri deild: 61. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 3360 í B-deild Alþingistíðinda. (2089)

37. mál, verkamannabústaðir

Frsm. meiri hl. (Hjeðinn Valdimarsson):

Það er oft skemtilegt að hlusta á röksemdarfærslu hv. 2. þm. G.-K. fyrir andstæðinga hans. Sjerstaklega er það gaman fyrir þá áheyrendur, sem voru hjer í gærkvöldi, þegar verið var að ræða um ellistyrkinn. Þá talaði hann um, að slíkt frv. væri spor í áttina, þótt lítið væri, en svo notar hann þau rök gagnvart verkamannabústöðunum, að hjer sje verið að stíga of smátt spor. Þetta virðist hálfeinkennilegur hugsanagangur, og hann er þó alveg í fullu samræmi við hegðun hv. þm. Það frv., sem jeg flutti, er að mestu sniðið eftir samskonar löggjöf í nágrannalöndunum og gengur í þá átt, að ríkið og bæirnir leggi fram fje til þess að styrkja fátæka verkamenn til að koma upp bústöðum handa sjer. Sá annmarki er á frv. þessu, að ef til vill mætti búast við, að byggingar stöðvuðust of fljótt, en þó er ómögulegt að segja, að þetta sje smávægilegt spor, enda ávalt hægt við að bæta, ef byggingar stöðvast af fjeleysi, en kjör sjóðsins eru hagkvæm fyrir verkamenn. Hv. þm. gat þess, að bygt hefði verið fyrir 5 milj. kr. hjer í Rvík síðastl. ár, en fæst þeirra húsa eru smáhýsi, eins og menn geta sjeð t. d. ef þeir ganga inn eftir Laugaveginum, því að þar eru 3 hús, sem áreiðanlega hafa farið yfir 1 milj. kr. Þá eru tvö stórhýsi í Austurstræti, sem munu hafa kostað hálfa milj., og svo er víðar. Jeg hefi verið því hlyntur, að ríkið hlaupi undir bagga við þessar byggingar, en það er alger misskilningur, að það eigi að styrkja efnaða menn, heldur er tilætlunin einungis sú, að koma á einskonar veðdeild, sem styrki hina fátækustu að hjálpa sjer sjálfir og eignast íbúðir sínar. Með hverju ári verður hægra fyrir millistjettina, sem getur borgað 150–200 kr. mánaðarleigu, að fá sjer íbúðir, en íbúðir handa öreigunum, sem ekki geta borgað meira en 50–60 kr. á mánuði, fjölgar ekki. Það er líka svo hjer í Reykjavík, eftir húsnæðisskýrslunum að dæma, að fjöldi fjölskyldna býr í þvílíkum íbúðum, að þær eru ekki einu sinni nothæfar fyrir harðgerða karlmenn á besta skeiði, hvað þá heldur fyrir konur og börn. Hvað sem hv. þm. vill segja um kjör verkamanna, þá hygg jeg, að það byggist ekki á nánum kynnum, sem hann hefir af þeim, enda mun hann ekki þekkja frekar til þeirra en það, að hann mætir þeim á götu og kann að hafa lánað einhverjum fáum útvöldum peninga í bili. Hv. þm. Borgf. talaði mjög skynsamlega um málið, og vil jeg þakka honum það. Það var aðeins í fáum atriðum, sem jeg var honum ekki samdóma. Hann sagði, að byggingar- og landnámssjóður væri ekki sambærilegur við þetta, því að þar væru lagðar hömlur á umráðarjett manna. Þessi styrkur á ekki að verða mönnum til hagnaðar, þannig að þeir geti okrað á húsum sínum, heldur mega þeir ekki selja þau nema fyrir sama verð og þeir fengu þau, að viðbættum umbótum og frádreginni fyrningu, þ. e. a. s. sannvirði, rjettara verð en það, sem til er tekið í byggingar- og landnámssjóði, sem er þar fasteignamatsverð. Þannig verður það að vera, úr því að þeir fá styrk af opinberu fje. Þá sagði hv. þm., að byggingar- og landnámssjóður væri ekki tekinn til starfa, og það er að vísu rjett, en hann mun fá það fje, sem við þarf, árið 1930. Þegar hv. 2. þm. G.-K. talaði um það, að þetta væri ekki fyrir nema sæmilega efnað fólk, þá sýndi það sig, að hann hefir ekki lesið frv. því að þá hefði hann sjeð, að hinum fátækustu er ætlaður styrkurinn.

Tekjur, er nema 4.000–5.000 kr. á ári, eru ekki háar í kaupstöðum, þar sem menn þurfa að kaupa alt í sig og á, húsnæði o. s. frv. Eignir, er nema 1.500 kr., er heldur ekki mikið, og þó þarf maðurinn ekki að eiga þá upphæð, heldur leggja fram sem því nemur af öðru fje en því, er sjóðurinn nær yfir.

Jeg mun ekki fara að karpa um það, hvort íbúðir sjeu betri til sveita eða í kaupstöðum. Þær eru sumstaðar mjög góðar til sveita, en víða mjög illar. Þeir, sem til þekkja, vita, að verkamannaíbúðir í kaupstöðum eru alveg óviðunandi, og það er nægilegt að vita það. Þótt hv. þm. Borgf. hafi kannske komið inn á marga bæi í Borgarfirðinum og Mýrunum í pólitískum leiðangri, hygg jeg, að mjer sje óhætt að fullyrða, að jeg hafi víðar komið en hann, og hefi jeg því fengið allgóða hugmynd um, hvernig aðbúð fólks er yfirleitt í sveitum, og engin ástæða fyrir hann að reisa sig svo mjög út af því efni, eins og sveitamaður, er oftast situr heima að búi sínu, hljóti að vita betur til um húsakynni í ýmsum sveitum landsins heldur en bæjarmaður, er víða ferðast.

Jeg hygg, að það hafi verið hv. 1. þm. Skagf., sem mintist á það, hvernig stj. sjóðsins ætti að launa. Það á að ákveðast af atvmrh., og hygg jeg, að kostnaðurinn við það verði aldrei tilfinnanlegur. (MG: Hvað gerir hv. þm., að mikið fje renni til hvers?). Jeg geri ráð fyrir, að 500 kr. verði greiddar hverjum stjórnanda, en eins og gefur að skilja, get jeg ekki sagt neitt ákveðið um það, því að það hlýtur að fara eftir erfiðinu. Svo vil jeg að endingu benda á það, að þetta er töluvert ólíkt og um byggingar- og landnámssjóð, því að þar eiga sveitirnar og bæirnir ekki að leggja fram neitt af mörkum. Ef sveitirnar vildu fá samskonar kjör til húsbygginga sinna, þá yrðu þær að taka fullan þátt í kostnaði, en tillagið yrði þó minna úr ríkissjóði. Jeg mun ekki víkja að brtt. hv. 1. þm. N.-M. í þetta sinn, en mun geyma það til 3. umr.