04.05.1929
Neðri deild: 61. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 3363 í B-deild Alþingistíðinda. (2090)

37. mál, verkamannabústaðir

Ólafur Thors:

Jeg kvaddi mjer hljóðs er jeg heyrði þjóstinn í hv. 2. þm. Reykv., sem þó hjaðnaði er á leið. Jeg hafði hugsað mjer að láta illmæli hans ekki verða ellidauð, og mun jeg því svara honum nokkru. Hv. þm. hneykslaðist á því, að jeg stuðlaði að því, að samþ. var hjer í d. frv. til að bæta úr kjörum fátækra gamalmenna. Jeg sýndi fram á, að það væri ekki endanleg lausn, en að það væri þó spor í áttina. Jeg spurði að því, hvað tapað væri með því að samþ. það frv. Hann hefir ekki svarað því ennþá, en það er vani jafnaðarmanna að vera andstæðir öllu því, sem er til bóta fyrir alþýðu, ef þeir koma ekki fram með það sjálfir, og svo var því einnig farið í gær. Munurinn á ellistyrktarfrv. og þessu frv., er hjer liggur fyrir, er sá, að ellistyrkinn fá aðeins gamlir menn og fátækir, en aðrir ekki, en samkv. þessu frv. verða hinir fátækustu útundan, en hinir efnaðri fá þar góðan bita. Það fór eins og vant er, að þegar jafnaðarmönnum er bent á, að till. þeirra sjeu götóttar, þá segjast þeir altaf hafa tekið það eftir útlendum fyrirmyndum. En það er harla einkennilegt, að þetta skuli ekki hafa runnið upp fyrir hv. þm. fyr en við bentum honum á, hversu einskisnýtt frv. hans er. Hv. þm. fullyrði, að meiri hl. þeirra 5 milj., sem bygt var hjer fyrir síðasta ár, hefði farið í stórhýsi. en hver einasti maður, sem gengur um bæinn, sjer, að alstaðar er verið að byggja stór hús og smá. En gerum nú ráð fyrir, að um eintóm stórhýsi sje að ræða. Þá losna þó altaf íbúðir þeirra manna, sem flytja í þau, og einhverjir njóta góðs af því.

Það er sama, hvort það eru ríkir eða fátækir, sem byggja, aðeins að það sje gert, því þá njóta allir góðs af. Hv. 2. þm. Reykv. þóttist geta vísað til erlendra fyrirmynda um þetta og sagði, að einstaklingsframtakið hefði reynst vanmáttugt þar til að leysa þetta vandamál. En jeg get frætt hv. þm. um það, sem hann virðist ekki hafa vitað áður, að á síðari árum hafa Englendingar haft mikil opinber afskifti af húsbyggingarmálum, en árangurinn af þeim afskiftum hefir orðið alveg öfugur við það, sem til var stofnað. Það hefir sem sje orðið til þess að draga stórkostlega úr byggingum. Jeg er þess fullviss, að eins mundi fara hjer, þótt stofnað yrði til gjafa handa einstaklingum. Húsaleiga mundi ekki lækka, vegna þess að byggingum mundi fækka.

Hv. þm. segir, að húsnæði sje vont hjer í bæ. Þetta er alveg rjett, en jeg held hið sama verði áfram, þótt frv. þetta verði gert að lögum. En annars má hv. þm. ómögulega rugla saman þörfinni á bættum húsakynnum og hinu, að þetta frv. bæti úr þeirri þörf. Jeg játa, að hjer sje þörf mikilla umbóta, en jeg tel þó, að hv. 2. þm. Reykv. hafi tekið of djúpt í árinni, er hann sagði, að húsnæði fátækara fólksins hjer væri almennt heilsuspillandi. Manndauði er minni hjer í Rvík en úti um land. Og hjer á landi er hann ekki meiri, heldur frekar minni en hjá þeim nágrannaþjóðum okkar, þar sem hann er minstur. En samt má slá því föstu, að hjer þurfi að bæta úr, og það þarf engra sannana við. Það er tvímælalaust, að dimmar kjallaraholur eru óhæfar til íbúðar. En þó þessu sje slegið föstu, þá er hreint ekki þar með sagt, að þetta frv. sje til nokkurra bóta. Niðurstaðan verður sú, að nokkrir menn, þó ekki þeir fátækustu, þiggja gjafir. En aðrir gjalda þess aftur á þann hátt, að þeir verða að greiða hærri húsaleigu.

Jeg vil benda á það, að ef framtak einstaklingsins minkar vegna þessara aðgerða um 1/5 hluta í aðeins eitt ár, þá þarf 20 ára starfsemi þessa sjóðs til að bæta það upp. Þetta sýnir best, hvert kríli þetta frv. er, þótt það hinsvegar leggi talsverðan bagga á herðar ríkissjóðsins, sjerstaklega eftir till. hæstv. atvmrh.

Jeg skal ekki fara að deila um það, hvor okkar hv. 2. þm. Reykv. veit meira um íbúðir fátæklinga hjer í bæ. En það er undarlegt, að ef jeg þykist vita eitthvað um íbúðir Reykvíkinga og ef hv. þm. Borgf. telur sig kunnugan íbúðum manna í sveitum, þá ávítar hv. 2. þm. Reykv. okkur og segir að hvorugur okkar viti neitt um þetta. Það er hann einn, þessi miskunnsami Samverji, sem skoðað hefir í hverja músarholu í þessum bæ og um land alt og hefir nú skyndilega, knúður af sínu hjarta, fundið hvöt hjá sjer til að bæta úr vandræðum fátæklinganna. En þessi maður er í mínum augum ekkert annað en hræsnari. Hann getur máske með einhverjum rjetti sagt, að hann þekki nokkuð til í Reykjavík. En að hann þekki betur til í sveitum en hv. þm. Borgf., það er brosleg vitleysa. Það má vera, að þm. hafi ferðast eitthvað um sveitir landsins sem drengur. En jeg hygg, að í síðari ferðalögum sínum hafi hann frekar átt erindi við þá, sem hann nefnir stundum burgeisa. Hann hefir þá verið að semja við þá um sölu á olíu og tóbaki. Við fátæklinga hugsa jeg, að hann hafi minni erindi átt.

Jeg get að vísu skilið það, að hv. þm. renni í skap, þegar honum er sýnt það með rökum talnanna, hvílíkt kríli þetta frv. hans er og að afleiðingar þess verða alveg gagnstæðar því, sem hann ætlaðist til. Það er því von, að honum sárni. En hann má þó ómögulega láta reiði sína bitna á okkur, sem í allri vinsemd erum með rökum að benda honum á, hve frv. þetta sje afarlítils virði. Og ef hans góða hjarta heldur áfram að slá fyrir fátæklingana, þá verður þessi leiðbeining okkar til þess, að hann finnur bráðum upp eitthvað annað betra og gagnlegra en þetta frv.