04.05.1929
Neðri deild: 61. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 3394 í B-deild Alþingistíðinda. (2096)

37. mál, verkamannabústaðir

Magnús Guðmundsson:

Hœstv. forsrh. svaraði nokkrum fyrirspurnum, sem jeg hafði talað um áður, og upplýsti, að þessi 16% eigi að leggja fram af bæjarmönnum, þannig að ef bygt er fyrir til dœmis eina miljón kr., eiga þeir að leggja fram 160 þús. kr. Hversu margir geta verið saman um byggingar, er kosta 1 milj. kr., veit jeg ekki, en áreiðanlega mun verða erfitt um þessi framlög.

Að því er snertir þóknun til sjóðstjórnanna, fjelst hæstv. ráðh. á, að sanngjarnt væri að skifta því t. d. á milli ríkis og bœjar. Mjer finst, að ekki geti komið til mála að láta ríkið bera þetta eingöngu. Það mœtti t. d. láta bæina bera helming. En þó finst mjer, að ekki ætti að fara lengra en svo, að þóknunin verði greidd í svipuðu hlutfalli og framlögum til bygginganna. Það virðist vera eðlilegasti grundvöllurinn.

Hœstv. ráðh. sagði, að þessar lóðir ættu að vera ódýrar, og um það er jeg honum alveg sammála, en þess ber að gæta, að þær hljóta að vera mjög stórar, hvort sem um sambyggingar eða sjerstakar byggingar er að ræða, af því að í frv. er svo ráð fyrir gert, að sjerstakur lóðarblettur fylgi hverri íbúð. Lóðirnar er því ekki hægt að hafa nema utan við bœina.

Jeg verð að taka undir með þeim, sem hafa látið í ljós undrun sína yfir því, hve mikið á að lána út á fyrsta veðrjett, alt að 86%. Það hefir ekki þótt fœrt í nemum öðrum fjelagsskap. Jeg skal ekki fullyrða, hvort þessu er samfara nokkur bætta, en það er ekki ólíklegt, að svo sje, og þá er það vitanlegt, að sú áhætta kemur á ríkissjóð.

Um veðin í einstökum íbúðum skal jeg taka það fram, að það er áreiðanlegt, að ákvæðin í frv. eru ekki nægileg. Það verður að búa til heilmikinn lagabálk um þetta, ef það á að hepnast, og snúa upp og niður á gildandi lögum um veð.

En hæstv. ráðh. sagði ekkert um að alatriðið í minni ræðu, sem sje um hlutfallið á milli sveita og kaupstaða. Jeg sagði, að kaupstaðirnir hefðu sogið merg og blóð úr sveitunum, með því að toga til sín vinnukraftinn svo gífurlega, að víða eru ekki á heimilunum nema húsbændur og börn þeirra og verða að vinna alla vinnu. Af þessu hlýtur að leiða, að sveitirnar verða aflvana gagnvart kaupstöðunum, og þess vegna hefir þingið einmitt á undanförnum árum hlaupið undir bagga með sveitunum. Það er viðurkent, að sveitirnar og kaupstaðirnir eru eins og hendurnar á mannlegum líkama. Það dugir ekki, að önnur sje máttlaus, enda hefir það eftir mínum skilningi verið tilgangur undanfarinna þinga að styrkja veikari höndina til þess að geta unnið sitt hlutverk. En sá styrkur er ekki búinn að standa nema svo skamman tíma, að ekki er við því að búast, að sá árangur hafi náðst, sem við getum vonast eftir. Hitt dylst engum, að ef farið er að styrkja betur hinn arminn, um leið og jöfn vinna er heimtuð af báðum, þá hlýtur sá veikari að gefast upp. Jeg lít því svo á, að þetta frv. sje öfugt spor við það, sem stigið hefir verið á undanförnum þingum, auk þess sem jeg sje ekki fram á, að ríkissjóður geti tekið á sig þá þungu byrði, að byggja upp kaupstaði og kauptún landsins.

Á núv. kynslóð hvílir geysiþungi. Í 1.000 ár hefir ekki mikið verið gert í þessu landi, svo að það kemur á núv. kynslóð að bæta úr svo mörgu, og það hlýtur að vera aðalatriðið að taka það fyrst, sem mest er þörf á. Hæstv. ráðh. kvaðst hafa sannfærst um ágæti sinna tillagna, þegar hann sá þúsund Reykjavíkurbörn á sumardaginn fyrsta. En það eru líka til þúsund börn í sveitunum og um þau þarf ekki síður að hugsa. Jeg sá sömu börnin og hæstv. ráðh., og jeg gat ekki sjeð, að þau bæru á sjer nein merki þreytu eða úrkynjunar. Og jeg er viss um, að ef safnað væri saman þúsund börnum úr sveitunum, væru þau engu óþreyttari nje minna hjálparþurfa en kaupstaðarbörnin. Í sveitinni verða börnin að byrja að vinna snemma, og sum baki brotnu, til þess að ljetta undir með foreldrum sínum, því að oft er vinnukrafturinn enginn annar.

Mjer finst hæstv. ráðh. beygja af á sinni stefnu undanfarið með till. sínum í þessu máli.

Hv. þm. Ísaf. talaði um, af hverju hv. þm. Barð. og jeg vildum ekki fylgja frv., og sagði, að við óttuðumst það, að fólkið mundi dragast úr sveitunum til kaupstaðanna. Það er alveg rjett. Þetta er aðalástæðan.

En önnur veigamikil ástæða gegn frv. er sú, að jeg get ekki sjeð, að ríkissjóður geti bætt á sig þessum útgjöldum í viðbót við aðrar byrðar, og auk þess liggur miklu nær að gera eitthvað annað, þar sem upplýst er, að bygt hefir verið fyrir um 5 milj. króna hjer í bænum síðasta ár, eða m. ö. o. fyrir eins mikið fje og gert er ráð fyrir, að lánað verði handa byggingar- og landnámssjóðnum fyrir allar sveitir landsins. Jeg get ekki skilið í öðru en að með þessu móti fáist nægilegt húsnæði í bænum innan skamms, ef svo verður haldið áfram, og eins og stendur er engin ástæða til að ætla, að dragi úr nýbyggingum hjer í bænum.

Jeg er alveg sammála hv. þm. Ísaf. um það, að óhentugt sje að taka mörg smálán, en miklu heppilegra að taka lánin í einu lagi. En eins og frv. er nú, er vafasamt, að slíkt sje hægt, en þó ætti að vera hægt að bæta úr því með brtt.

Jeg mun þá ekki lengja umr. meira. Jeg mun greiða atkv. mitt með því, að málið gangi til 3. umr. og geng þá út frá, að málið fái rækilega athugun í nefnd. En hjer eru nú svo mörg mál skamt á veg komin, að mjer finst vafasamt, að málið nái fram að ganga á þessu þingi, þótt fylgi hefði til þess. Jeg get gengið inn á að fá upplýsingar um afstöðu manna til málsins með atkvgr., eins og hæstv. forsrh. sagði. En jeg get ekki greitt málinu atkv. mitt út úr deildinni.