05.04.1929
Neðri deild: 37. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 81 í B-deild Alþingistíðinda. (21)

14. mál, Búnaðarbanki Íslands

Fors.- og atvmrh. (Tryggvi Þórhallsson):

Jeg hefi litlu við að bæta út af því, er hv. þm. Borgf. sagði. Bæði er það, að það, sem hann sagði nú, er að mestu leyti það sama og í gær, aðeins nánar útfært, og hinsvegar er hann nú miklu hóflegri í orðum sínum. Jeg sje því ekki ástæðu til þess að fara út í neinar deilur núna, en vil vona, að andi sá, er var ríkjandi í ræðu hv. þm., bendi til þess, að við getum skilið vandræðalaust í þessu máli, hver svo sem úrslit þess verða.

Það, sem jeg nú vil sjerstaklega taka fram, er viðvíkjandi því, að hv. þm. Borgf. gaf það ótvírætt í skyn, að hann tortrygði þau ummæli mín, að jeg mundi á annan hátt beita mjer fyrir því, að gerðar yrðu ráðstafanir, smábátaútveginum til hjálpar, sem mundu verða honum ekki síður gagnlegar en þó starfssvið Landbúnaðarbankans væri látið ná út yfir hann (smábátaútveginn). Þessa tortrygni sína rökstuddi hann með því, að jeg hefði ekki borið fram tillögur í þessa átt nú, heldur aðeins frv. um Landbúnaðarbankann. Þetta er að vísu rjett. En ef hann ætlar að tortryggja mig um þetta, þá verður og tortrygni hans að ná til fyrirrennara minna í þessu sæti. Jeg hygg, að þar hafi setið ýmsir þeir, er hv. þm. vill ógjarnan tortryggja. En þeir hafa ekki heldur borið fram slíkar tillögur. En jeg get gjarnan endurtekið það, að jeg mun beita mjer fyrir því, að undirbúin verði fyrir næsta þing löggjöf, er leysi úr þessu vandamáli smábátaútvegsins, og það á þann hátt, að sem best gagn geti orðið að því. Vitanlega get jeg þrátt fyrir það engu um það ráðið, hvort hv. þm. heldur áfram að tortryggja mig; úr því verður framtíðin að skera, hvort ástæða hafi verið til þess. En jeg vil þó biðja hv. þm. að benda á eitthvað það, er jeg hafi lofað og ekki staðið við, að svo miklu leyti sem mjer var mögulegt.

Jeg skal ekki fara frekar út í það, hvers vegna jeg legg sjerstaka áherslu á það, að bændur hafi þessa lánsstofnun algerlega út af fyrir sig. Það hefir áður verið tekið skýrt fram í grg. frv. Svo hefir það og komið skýrt fram í nál. landbn., og auk þess hefir hv. þm. Borgf. sjálfur sagt, að það væri nauðsynlegt fyrir bændur að hafa þessa stofnun einungis fyrir sig.

Í þessu sambandi vil jeg minnast á eitt atriði, en það eru takmarkanir þær. er áttu að felast í till. landbn. um lán til smábátaútgerðarinnar. Jeg veit nú, þó jeg vissi það ekki í gær, hverjar þær eru. Þá var nefnilega ekki búið að útbýta neinni till. um þetta. Að vísu er rjett aðeins minst á þetta í nál. landbn., en þar var engin till. um þetta. Þetta mun þó ekki vera nefndinni að kenna, heldur stafar það af mistökum í prentsmiðjunni. Hv. þm. Borgf. og hv. 2. þm. Skagf. mega því ekki undrast, þó jeg spyrði. hvar þessi takmörkunartill. væri. Henni var fyrst útbýtt núna meðan hv. þm. Borgf. var að tala.

Þá vil jeg geta þess í sambandi við það, er hv. þm. Borgf. sagði, að jeg hefði tekið upp í frv. rekstrarlánahugmynd íhaldsmanna frá í fyrra, að það er langt frá því, að svo sje. Það getur vel verið, að hv. þm. sje þeirrar skoðunar. En jeg veit miklu betur um það en hann og get fullvissað hann um það, að jeg þarf ekki að leita til íhaldsins um hugmyndir, er jeg þarf og vil gera till. til eflingar og endurreisnar landbúnaðinum. Og það er mesti misskilningur hjá háttv. þm. Borgf., ef hann heldur, að íhaldið eigi hugmyndina um sveitabankana. Jeg get frætt hann á því, að hún er til orðin í Þýskalandi fyrir mörgum árum og hefir lengi verið „praktiseruð“ þar. Og það er langt síðan jeg kynti mjer hana fyrst. Það var löngu áður en flokksbræður hans báru fram frv. sitt í fyrra. Það væri freistandi að fara nokkrum orðum um það, er hv. þm. Borgf. sagði, að landbúnaðurinn bygðist á sjávarútveginum. Jeg vil þó ekki verða til þess að vekja deilur um þetta, en læt mjer nægja að mótmæla því algerlega, að landbúnaðurinn sje eða eigi að vera aftaníhnýtingur sjávarútvegsins.

Þá voru það nokkur orð, sem jeg vildi segja viðvíkjandi orðum hv. 2. þm. Reykv. (HV). Hann sagði, að nauðsynlegt væri að breyta frv. svo, að það tæki líka til bænda í kaupstöðum. Jeg skal játa, að þetta væri mjög æskilegt. En eins og nú er eiga lögin eingöngu að ná til þeirra, er hafa búskap að aðalatvinnuvegi. Það skal og viðurkent, að rjettmætara væri, að þetta fje, sem bændum er ætlað, rynni að einhverju leyti til þeirra manna í kaupstöðunum, sem búskap stunda að einhverju leyti, heldur en til þeirra, er bátaútveg stunda eingöngu.

Annars er í 22. gr. fjárlaganna heimild til þess að veita lán til jarðræktar og húsabóta. Hafa í minni ráðherratíð komið nokkrar slíkar umsóknir og allar fengið áheyrn. Og ef viðlagasjóður gengur yfir í Búnaðarbankann, þá er sjálfsagt að sjá um, að þessar lánveitingar falli ekki niður, heldur ættu þær miklu fremur að aukast.