10.05.1929
Neðri deild: 65. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 3416 í B-deild Alþingistíðinda. (2142)

37. mál, verkamannabústaðir

Magnús Guðmundsson:

Það rignir nú svo niður brtt. við þetta frv., að það er erfitt að átta sig á þeim í svipinn, en þó hefir mjer virst, að þær sjeu yfirleitt til bóta. Brtt. hv. 3. þm. Reykv. eru áreiðanlega sanngjarnar, ekki síst með þeirri brtt., sem hv. 1. þm. Árn. hygst að koma með. Hv. 8. þm. Reykv. gerir ráð fyrir, að bygt verði yfir alla, sem hafa undir 3.500 kr. tekjur, en undir það fellur fjöldi manna, eins og t. d. verslunarmenn og jafnvel mikill hluti bæjarbúa. Þetta má reyndar telja sanngjarnt, ef á annað borð er farið inn á þessa braut, en jeg álít, að ríkissjóður reisi sjer hjer hurðarás um öxi með þessu. Við höfum tekið við landinu í niðurníðslu og höfum altaf verið að leitast við að rjetta það við, og við verðum að varast að leggja á svo tœpt vað sem þetta, að ætla okkur að fara að byggja yfir kaupstaðabúa yfirleitt. Þetta virðist því minni þörf, þar sem svo mikið hefir verið gert að byggingum eins og raun ber vitni um síðastliðin ár. Þetta getur líka verið stórhœttulegt, ef fólk streymir til bæjanna í þeirri tálvon, að það fái þar ágætt húsrúm fyrir lítið verð. Jeg álít sjálfsagt að samþ. till. hv. 1. þm. N.-M., ekki síst þar sem sum kauptún eru nú orðin stærri en sumir kaupstaðir. Jeg get ekki heldur álitið, að neitt sje á móti því að lækka hið opinbera framlag, því að við verðum að athuga, hvernig ríkissjóður er staddur. Nú eru ýms frv. á döfinni, sem gera það að verkum, að ríkið verður að taka stœrra lán heldur en nokkru sinni áður, en það sýnir, í hvaða stórræðum við stöndum nú. Það var um það rætt við 2. umr., að þetta mál yrði tekið til ítarlegrar athugunar fyrir 8. umr., en jeg held, að ekki hafi mikið orðið úr því; í það minsta ekki í nefnd, því að árangurinn af störfum meiri hl. eru brtt. á þskj. 658, sem mönnum má standa alveg á sama um. Þetta sýnir, hversu mikil ljettúð er sýnd við afgreiðslu málsins gagnvart ríkinu. Ríkissjóði er m. a. ætlað að launa stj. sjóðanna, í stað þess að bæjar- eða sveitarsjóðir ættu í það minsta að greiða helming launa fyrir þessi störf. Það var tekið vel í það við 2. umr., en meiri hl. n. hefir ekki þóknast að taka það til greina. Framsóknarflokkurinn hefir á undanförnum þingum haldið fram hlut sveitanna, og jeg verð að segja, að jeg álft það hrein svik við þá stefnu, ef frv. þetta verður samþ. og þess vegna ekki hægt að efla hag sveitarna eins og tilætlunin hefir verið. Þetta er heldur ekki til verulegra gæða fyrir kaupstaðina sjálfa, því að það er bert, að kaupstaðirnir geta ekki lifað og blómgast, nema sveitirnar dafni að sama skapi. Jeg vil að endingu geta þess, að jeg mun greiða atkv. með öllum brtt., en á móti frv.