10.05.1929
Neðri deild: 65. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 3418 í B-deild Alþingistíðinda. (2143)

37. mál, verkamannabústaðir

Halldór Stefánsson:

Hv. frsm. og flm. mælti eindregið á móti tveimur brtt. mínum, nefnil. um lækkun á framlagi hins opinbera og hœkkun afborgana. Jeg hefi áður lýst sambandinu á milli þessa, að þrátt fyrir lækkun hins opinbera styrks eru möguleikar til framkvæmda að engu leyti rýrðir. Það, sem mjer virðist alt velta á, er það, hvort kjörin sjeu of erfið fyrir þá, sem eiga að njóta þeirra. Hjer er um stórkostlegar bætur að ræða frá því sem áður var, því að nú geta menn fengið 85% af húsverðinu. Í stað 35%, sem fjekst í veðdeildinni. Ennfremur ber að gæta þess, að bæði í vexti og afföll þarf ekki að greiða nema 6%. og svo fá húseigendur ódýrari lóð en þeir hafa fengið til þessa.

Þá er ætlast til, að sjeð verði fyrir, að byggingarfjelögin eigi kost á ódýrari lóðum en alment gerist, eða svo ódýrum sem völ er á. Og að síðustu þarf að vera ljóst fyrir byggingarfjelögunum, að leitað sje allra ráða til þess að byggingarkostnaður verði sem minstur, og þeim árangri ætti best að verða náð með sameiginlegum framkvæmdum og hagsýnilegri vinnuháttum en gerast hjá einstaklingum. Jeg vil í þessu sambandi skjóta því fram, hvort hinn hái byggingarkostnaður, sem nú er, liggi ekki að miklu leyti í því, að þeir, sem framkvæma verkið, ætli sjer mikinn hagnað af því. Jeg get því ekki betur sjeð en að sjóðurinn bjóði miklum mun betri kjör en mönnum er nú kleift að fá, þótt till. mínar verði samþ. Og ef verkamenn geta ekki hagnýtt sjer þessi kjör, hvernig fara þeir þá að standa straum af því að búa í húsum, sem reist eru með langtum verri skilyrðum, og gjalda þar dýra húsaleigu? Jeg get því ekki sjeð, að brtt. mínar ættu að draga hið minsta úr framkvæmdum byggingarfjelaganna, enda þótt þær skapi þeim ekki eins góð kjör og til var ætlast í frv., því að þau eru þó altaf stórum betri en kostur er á ella.

Hv. 1. þm. Skagf. virtist vera á móti málinu í hvaða mynd sem væri, vegna kostnaðar hins opinbera. Jeg vil benda á það, að ef gengið er að till. mínum, verður þessi kostnaður hóflegur og þarf ekki að valda miklu í svo stórum sjóði sem ríkissjóður er, en getur þó orðið til hagsbóta á ýmsan hátt. Jeg álít, að ekki megi setja þetta tiltölulega litla framlag ríkissjóðs fyrir sig, úr því að það bætir að nokkru leyti úr þessu mikla vandræðamáli, húsnæðismálinu.