10.05.1929
Neðri deild: 65. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 3439 í B-deild Alþingistíðinda. (2152)

37. mál, verkamannabústaðir

Sveinn Ólafsson:

Það eru aðeins örfá orð til hv. þm. Ísaf. og hv. 4. þm. Reykv., enda er ástæðulaust að svara þeim mörgu, þar sem hv. 1. þm. Skagf. hefir tekið ómakið af mjer að mestu leyti. Jeg verð að segja um ræður beggja þessara hv. þm., er jeg nefndi, að mjer finst þess gæta of mikið, að þeir eigni mótstöðumönnum sínum slæmar hvatir. Það kom berlega í ljós hjá báðum, að þeir túlkuðu orð mín á þann veg, að jeg vildi svæla íbúana burt úr bæjunum með því að hola þeim í aumustu hreysi óbyggileg. En hvað kom fram í orðum mínum, sem ástæðu gæfi til að skilja þau þannig?

Að vísu skil jeg, hvað hjer liggur að baki. Þessir tveir hv. þm. eru, eins og oft áður. að tala fyrir tilheyrendur á pöllunum, og þá þarf að nota alt, sem hægt er og ætla má, að sje kjósendunum að skapi, einnig að snúa út úr og rangfæra orð andstæðinganna. Jeg ætla þó ekki að fara langt út í að leiðrjetta þennan misskilning eða útúrsnúning hjá hv. þm. Ísaf., er hann nefndi mátt sveitanna og taldi eftir þeim.

Um sveitirnar verður fyrst og fremst að hugsa, því að þær geyma kjarna þjóðarinnar og þær verða að ganga á undan, hvað sem öðru líður. Án sveitanna geta bæirnir ekki þrifist, þótt sveitirnar geti blómgast án bæja. Samkv. sögunnar dómi hafa sveitirnar alið önn fyrir þjóðinni í 1.000 ár og það eru þeirra börn, sem bygt hafa bæina, því að engir bæir voru til fyrir okkar tíma. Enginn skilji þó orð mín þann veg, að jeg vilji eyða bæjunum eða skapa þeim þá kosti, að þeir geti ekki dafnað. Hitt er aðalatriðið, að efla þá ekki á kostnað sveitanna.

Annars sje jeg ekki ástæðu til að elta ólar við einstök atriði í ræðu hv. þm. Ísaf. Hann spurði, hvar ætti að taka þessar 12 milj. kr. handa ríkissjóði, ef bæirnir væru ekki til að greiða. Jeg held, að ef fólkið hefði haldið áfram að dvelja í sveitunum, þá hefði gjaldgeta þess eigi minni verið en hún er. Í sveitunum vinna allir og afla fjár með einhverjum hætti, en mikill hluti fólks í bæjunum er iðjulaus tímunum saman og eykur að engu þjóðarauðinn. Þess vegna má ætla, að þjóðarauður yrði engu minni, þótt landsmenn allir byggju í sveitum, og gjaldgetan til ríkissjóðs mundi varla minka þeirra hluta vegna.

En hjer kemur það ennfremur til álita, að ef atvinna allra landsmanna væri við sveitirnar bundin, þá mundi þörfin hjá ríkissjóði á þessum 12 milj. kr. ekki eins mikil og nú; þarfirnar mundu þá færri og ástæður allar einfaldari.

Jeg hefi haldið því fram, að úr þörf bæjanna á bættum húsakynnum eigi að bæta með öðrum hætti en frv. þetta ráðgerir. Jeg stend við það, sem jeg sagði áður, að með frv. þessu — verði það að lögum — er verið að vinna hreint á móti tilgangi laganna um byggingar- og landnámssjóð. Með þessu frv. er ýtt undir fólkið um að flytja til bæjanna. Það er augljóst, að þar sem rík hvöt býr hjá fjölda manna um að flytjast á bæjarmölina, þá verður sú hvöt enn ríkari, ef boðin eru sjerstök vildarkjör um opinber fjárframlög til þess að greiða fyrir nýbyggingum í bænum handa þeim, sem inn flytja, jafnvel vildari kjör en kostur er á úr byggingar- og landnámssjóði. Aðdráttarafl bæjanna er nógu mikið, þótt ekki sje á það aukið með þessum hætti, beint til hnekkis fyrir sveitirnar, sem vegna strjálbýlis eiga erfitt með að hæna fólkið að sjer.