10.05.1929
Neðri deild: 65. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 3450 í B-deild Alþingistíðinda. (2155)

37. mál, verkamannabústaðir

Haraldur Guðmundsson:

Þeir hv. 1. þm. Skagf. og hv. 1. þm. S.-M. voru í sínum síðari rœðum að reyna að klóra nokkuð yfir ummæli sín í fyrri ræðum. En þótt þeir reyndu það, varð árangurinn enginn, því andinn í ræðum þeirra var sá sami í bæði skiftin, þótt orðin væru mýkri hið síðara. Hv. 1. þm. Skagf. hjelt því enn fram sem höfuðmótbáru gegn þessu frv., að það mundi verða til þess að draga fólkið úr sveitunum. Með öðrum orðum á þá hin háa húsaleiga í kaupstöðunum og hin ljelegu húsakynni að vera helsta ráðið til þess að halda fólkinu kyrru í sveitunum. Hann vill viðhalda hinu ömurlega húsnæðisástandi, sem fátæka fólkið á við að búa, Hann segist vilja hjálpa þeim veikari, en segir þó, að það sjeu bara sveitirnar, sem eigi að hjálpa. En fátæklingamir í kaupstöðunum eiga að hjálpa sjer sjálfir eða deyja drotni sínum. Hv. þm. sýnir tilgang sinn, hvernig sem hann reynir að klóra yfir hann, og tilgangurinn er að bæta í engu kjör fátækari bæjarbúa. Hv. þm. segir, að fyrst og fremst þurfi að hjálpa sveitunum. En hefir ekkert verið gert til þess? Jeg vil spyrja hv. þm., hvort hann hafi ekki litið í fjárlagafrv. nú og fyrri. Þau bera það með sjer, að til jarðræktar er varið um 1 milj. kr. Og annað eins fer í samgöngur á landi. Og byggingar- og landnámssjóðurinn er eingöngu ætlaður til þess að bæta húsakynni í sveitum. Það eru 200 þús. kr. á ári, auk 5 milj. kr. ábyrgðar. Það er því alveg furðulegt, að hv. þm. skuli mœla í gegn þeirri lítilfjörlegu hjálp, sem hjer er farið fram á til bygginga í kaupstöðum og kauptúnum. Þessir aðilar eiga þó að leggja jafnt á móti því, sem ríkissjóður lætur, en einskis slíks er krafist af sveitahjeruðunum.

Þá getur hv. 1. þm. S.-M. heldur ekki gengið frá því, sem hann sagði í sinni fyrri ræðu. Hann sagði, að þótt kauptúnin öll færu í auðn, þá gætu sveitirnar blómgast eigi að síður, og var helst á honum að heyra, að hann teldi æskilegt, að svo yrði. Nú getur hv. þm. varla dottið í hug, að svo muni fara, og hann mun heldur varla óska þess í raun og veru. Hann sagði að vísu, að meiri hluti kaupstaðafólksins væri gagnslaust fólk, sem enga framleiðsluvinnu ynni. Það kann að vera, að eittthvað af slíku fólki sje til í kaupstöðunum, en það fólk, sem hjer um ræðir, ei áreiðanlega ekki í þeim flokki manna. Það fólk, sem góðs nyti af þessu frv., ef það verður gert að lögum, er alt vinnandi fólk, sem starfar að framleiðslu. — Þá sagði sami hv. þm. ennfremur, að þótt fólkið í kaupstöðunum flyttist alt í sveitirnar, þá mundi ekki gjaldgetan minka fyrir því. Það er nú þarflaust að deila um þetta. Saga undanfarinna ára mótmælir því greinilega. Slíkt gæti ekki komið til mála, fyr en þá að margar kynslóðir hefðu lagt starf sitt í það að endurbæta jarðimar frá því, sem nú er, og eignarumráðum einstaklinganna væri af þeim ljett. Fullyrðing hv. þm. um, að frv. þetta mundi vinna á móti þeim árangri, sem vænst er af byggingar- og landnámssjóði, er algerlega út í loftið. Það eru engin rök til, sem geri þá fullyrðing sennilega. Byggingar- og landnámssjóður hefir sitt ákveðna hlutverk að vinna, sem á engan hátt raskast, þótt frv. þetta verði samþ. Ástœðan fyrir því, að fólkið leitar til kauptúnanna, er ekki sú, að það sje að leita að betri íbúðum. Ástæðan er auðvitað sú, að þar veitist því auðveldara að koma upp eigin heimili, þótt efnalaust sje. Því er nú gert nær ómögulegt að koma sjer upp heimili í sveitunum. Til þess þarf jörð og búslóð, og slíkt er efnalausu fólki um megn. Og von er, að fjölskyldufólk sætti sig ekki við að skifta sjer í vistir á marga bæi. Í kaupstöðunum þarf það bara að leita uppi einhverja herbergiskytru og fá vinnu. Þá getur það komið upp heimili, þótt fátæklegt sje. Það eru ekki bíóin, böllin og þessháttar, sem dregur fólkið úr sveitunum, heldur það, sem jeg nú hefi nefnt. Það þarf að bæta húsakynni sveitanna, koma þar upp smábýlum og hlynna að ræktun. Með því er hægt að stöðva fólksstrauminn þaðan. En það á ekki að gerast með því að gera óbúandi í kaupstöðunum. Þjóðinni ríður engu minna á því, að dugandi, hraust og tápmikið fólk vaxi upp í kaupstöðum en í sveitum.

Byggingar- og landnámssjóð til að bæta húsakynni alþýðu í sveitum. Byggingarsjóði og fjelög í kaupstöðum og kauptúnum, til að bæta húsakynni alþýðu þar, — þá er rjett stefnt. Blómgun og framfarir bæja og sveita á að haldast í hendur. Þannig er báðum best borgið.