10.05.1929
Neðri deild: 65. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 3455 í B-deild Alþingistíðinda. (2157)

37. mál, verkamannabústaðir

Magnús Jónsson:

* Jeg get alls ekki fallist á, að það sje í sjálfu sjer neitt víxlspor að hjálpa fátæklingum í kaupstöðum landsins til að koma sjer upp bústöðum. Það væri eitt hið mesta þarfaverk, ef hægt væri að bæta eitthvað úr í þessu efni. En mjer finst þetta frv. liggja þannig fyrir, þrátt fyrir allar tilraunir, sem gerðar hafa verið til að bæta það, að jeg sje mjer ekki fært að greiða atkvæði með því. Þetta frv. hefir heldur enga meðferð fengið fyr en nú á þingi, og því naumast hægt að vænta þess, að allir gallar sjeu nú sniðnir af því og það besta fundið.

Jeg hefi enn ekki orðið var við brtt. í þá átt, að fyrirbygð verði sú hætta, að þetta dragi úr framtaki einstaklinga til að koma sjer upp húsum, og meðan það er ekki, eru menn hjer að vinna á móti sjálfum sjer. Það má vitanlega segja, að till. hv. 3. þm. Reykv. miði nokkuð í þá átt. En það er annað atriði í þessu máli, og það er það, að það eru alls ekki efnamennirnir einir, sem byggja. Það er alveg víst, að sumir geta alls ekki bygt nema af því að þeir hafa trygt sjer að geta leigt eitthvað frá sjer, t. d. kjallara eða þakherbergi, sem hvorttveggja geta verið mjög sómasamlegir verustaðir, ef vel er gengið frá þeim.

Það hefir verið deilt um, hvort menn byggju yfirleitt í lakari íbúðum í kaupstöðum en í sveitum. Um það sýnist mjer óþarfi að deila. Samanburður á því fæst aldrei, svo ábyggilegur sje.

Það eru vissulega til mjög ljelegar íbúðir hjer í Reykjavík, ef tekið er það allra lakasta, en jeg held þó, að það megi finna þær ennþá aumari í sveitum. Jeg hygg, að þetta hafi ekki breytst svo mjög síðan jeg var í sveit. — Það er þó eitt, sem skilur á milli í þessu efni, og það eru þrengslin hjer, sem eru miklu meiri en í sveitunum. Þar er venjulega ekki svo þröngt, að það þurfi að vinna, matreiða, borða, sofa og þvo þvott alt í sama herbergi. En um þetta er óþarfi að deila. Það er til fjöldi af óhæfum íbúðum bæði í kaupstöðum og sveitum, og þeim þarf að eyða yfirleitt. Það hefir nú verið byrjað á að vinna að því, að þetta geti lagast í sveitunum með byggingar- og landnámssjóði, og jeg sje þá ekki, að um neina óhæfu sje að ræða, þó að talað sje um að bæta eitthvað úr í kaupstöðunum líka. — Þetta frv., sem hjer liggur fyrir, er alls ekki sambærilegt við lögin um byggingar- og landnámssjóð. Sú hjálp, sem hann veitir, nær til flestallra, en þetta nær eingöngu til fátæklinga.

Mjer finst, að menn ættu að geta komið sjer saman um að vinna að umbótum á báðum þessum sviðum, bæði í kaupstöðum og í sveitum. En það, sem gerir, að jeg mun líklega greiða atkvæði með till. háttv. 1. þm. Skagf. um að vísa málinu til stj., er bæði af því, að með frv. er alls ekki útilokað, að það vinni gegn sjálfu sjer, með því að draga úr framtaki einstaklinganna til að koma sjer upp húsum, og svo alveg óhæfileg meðferð málsins hjer á Alþingi.

Hv. 2. þm. Reykv. flytur frv. fram hjer í þinginu, en svo kemur hæstv. atvmrh. með svo róttœkar brtt., að úr því verður alveg nýtt frv., sem þingið hefir ekki tíma til að athuga nógu gaumgæfilega. Enda rignir nú niður brtt. við það, og jafnvel brtt. við brtt.

Jeg vildi óska, að hv. flm. vildi athuga það, að það er hinn mesti óleikur, sem hægt er að gera málinu, að afgreiða það í flaustri á óheppilegan hátt. Þá er betra að bíða eitt ár og undirbúa málið betur.

Þá er enn eitt atriði. Jeg sje enga ástæðu til að ganga framhjá veðlánastofnununum í þessu máli. Hjer er um að ræða að brúa bilið á milli þess, sem fæst út á fyrsta veðrjett í veðdeild, og þess, sem menn geta lagt fram sjálfir. Það virðist miklu nær að hjálpa fleiri mönnum til að fá viðunanleg lán en að styrkja mjög fáa. Veðdeildin er að vísu dýr, en það munar þó tæplega meiru en 2–3 kr. á mánaðarleigu á íbúð, hvort peningarnir eru fengnir úr veðdeildinni eða eftir þessu frv. Þetta vil jeg, að verði rannsakað betur.

Jeg tek það fram, að þó að jeg greiði atkv. með till. hv. 1. þm. Skagf. um að vísa málinu til stj., þá vil jeg alls ekki þar með bregða fæti fyrir það. Heldur vil jeg, að stj. rannsaki málið og undirbúi það betur fyrir þingið.

Jeg skal svo ekki eyða meiri tíma fyrir öðrum, enda hefi jeg nú gert grein fyrir mínu atkvæði um þetta mál.

*Ræðuhandr. óyfirlesið.