10.05.1929
Neðri deild: 65. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 3458 í B-deild Alþingistíðinda. (2158)

37. mál, verkamannabústaðir

Bjarni Ásgeirsson:

Háttv. 1. þm. Skagf. andmælti að nokkru því, sem jeg sagði í fyrri rœðu minni, og skal jeg nú svara honum með nokkrum orðum.

Það er að vísu satt, að nokkur hluti þeirra orsaka, sem valda því, að fólk sækir úr sveitunum til kaupstaðanna, er það, að það heldur, að það sje betra að lifa í kaupstöðunum. En það er ekki aðallega það, að það haldi, að þar sje auðveldara að koma sjer upp húsi. Þar kemur annað til greina. Enda er það svo, að þrátt fyrir slæm húsakynni hjer í Reykjavík hefir fólk streymt hingað ár eftir ár. Til samanburðar má benda á það, að á Eyrarbakka er mjög auðvelt að fá hús og lág húsaleiga, en fólk flytur ekki þangað. Það er ekki húsnæðismálið, sem hjer hefir valdið mestu um. Jafnvel þó húsnæðisvandræðin hafi dregið kjark úr sumum, sem í bæjunum búa, þá hefir fólkið haldið áfram að flytja til kaupstaðanna, og mundi halda því áfram, þó að ekkert yrði bygt eftir þessu frv. Aðalatriðið er, að ekki hafa verið nógu lífvænleg skilyrði fyrir fólk að stofna heimili í sveitunum, og með aðgerðum síðasta þings, þar á meðal lögunum um byggingar- og landnámssjóð, hefir verið reynt að bæta úr þessu.

Jeg vil nú leiðrjetta það, sem hv. 1. þm. Skagf. sagði, að byggingar- og landnámssjóður hefði aðeins vakið mörgum tálvonir, því að hann gæti ekki fullnægt nema litlu af þeim lánbeiðnum, sem fram hafi komið. Þetta er alrangt. Jeg hefi það eftir forstjóra sjóðsins, og það er ekki lengra síðan en í morgun, að jeg talaði við hann, að engum þeirra, sem sótt hafa um lán úr sjóðnum í vor, verði synjað um það.

En það þarf meira að gera en eingöngu að bæta aðstöðu sveitanna, sem hv. 1. þm. Skagf. ekki þarf að hvetja mig til. Og það er alveg rangt, að eina ráðið sje að halda hjer við þrengslum, til þess að fólk ekki komi hingað. Ef ekki er hægt að lifa í sveitunum og ef það sannast, að sama verður uppi á teningnum í kaupstöðunum, þá verður afleiðingin sú, að fólkið fer af landi burt. Mjer er þó gleðiefni, að fólk, sem ekki hefir getað verið í sveitunum, hefir staðnæmst í kaupstöðunum, en ekki horfið til annara landa. Menn þurfa ekki að láta sjer detta í hug, að þeir slái slagbrandi fyrir flóttann úr sveitunum með því að skapa eða viðhalda neyðarástandi á einhverju sviði í bæjunum. Viðreisn beggja krefst annara og viturlegri úrræða.

Hv. 1. þm. Skagf. sagði, að jeg hefði talað um að byggja yfir skrílinn hjer í Reykjavík. Þetta er alrangt og mínum orðum snúið öfugt. Jeg sagði eitthvað á þá leið, að þetta ástand, sem nú stefndi að í húsnæðismáli bæjanna, gerði fólkið að skríl. Af þeim ástæðum og öðrum, sem jeg hefi lýst, mun jeg fylgja þessu frv., sem miðar að því að bæta úr því ástandi, Annars er mótstaða hv. íhaldsmanna gegn þessu máli sprottin af hinni alkunnu eðliseinkunn alls íhalds, að hirða ekki um að byrgja brunninn fyr en barnið er dottið ofan í hann.

Við erum sammála um, að mikil nauðsyn sje að byggja upp sveitirnar, en það má ekki loka augunum fyrir öðrum þörfum á ýmsum öðrum sviðum, sem of seint er að fullnægja, þegar búið er að fullrækta sveitirnar. Það má ganga að því með atorku, þótt litið sje í fleiri áttir, eins og verður að gera. Hv. þm. vildi ekki fallast á það, að rök þeirra, sem mæla á móti þessu frv., stönguðust, þótt sumir þeirra segi, að hjer sje aðeins um kák að ræða, en aðrir, að þetta verði til þess að draga fólkið að kaupstöðunum. Jeg fæ nú samt ekki betur sjeð en að þessi rök stangist, eins og þegar hrútar eru verstir. Hv. þm. sagði, að þetta gæti verið rjett, vegna þess að það skapaði vonir, sem reyndust tálvonir. Ef svo er, mun fólk fljótt komast að raun um það, og er því engin ástæða til að óttast, að þessar ráðstafanir verði til þess að lokka fólkið til kaupstaðanna, enda þótt húsavonin væri eina taugin, sem drægi það þangað.

Hv. 1. þm. Reykv. talaði um það, hve hættulegt væri að draga úr framtaki einstaklingsins til þess að koma sjer upp húsakynnum. Mjer finst þetta nokkuð mikil einsýni. Hjer er þvert á móti verið að ýta undir framtak fátækra manna til þess að eignast eigið hús og heimili — ýta undir einstaklingsframtakið hjá þeim mönnum, sem erfiðast eiga með að láta það njóta sín.