21.03.1929
Neðri deild: 28. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 353 í B-deild Alþingistíðinda. (216)

17. mál, eftirlit með skipum og bátum

Fors.- og atvmrh. (Tryggvi Þórhallsson):

Jeg hefi, því miður, verið bundinn við umr. í Ed. og gat því eigi hlýtt á ræðu hv. frsm., og aðeins að litlu leyti á ræðu hv. 4. þm. Reykv. En af áliti n. sje jeg, að hún hefir fallist á frv. í aðalatriðum. Hún hefir raunar gert brtt. við 5. gr., og kemur mjer slík breyt. ekki á óvart frá þeirri hv. n. í fyrra var einmitt reynt að ná samkomulagi við hv. sjútvn. um að flytja frv. svipað þessu, en samkomulagið strandaði aðallega á því, að hún vildi ekki fallast á ákvæði 5. gr. Það er ekkert óeðlilegt, þó að n. leggist á móti því, að þau gjöld, sem hið aukna eftirlit hefir í för með sjer, sjeu lögð á sjávarútveginn. En um það hefir Alþ. úrskurðarvald. Jeg verð sem fulltrúi ríkissjóðs í þessu máli að halda því fram, að ákvæðið sje rjettmætt til að mæta nýjum útgjöldum, sem lögin hafa í för með sjer, enda er það sett með vitund og ráði þess manns, sem mesta hefir sjerþekkingu á efni frv., en það er skipaskoðunarmaður ríkisins. En jeg býst vart við, að unt verði að standa gegn till. nefndarinnar.