16.05.1929
Efri deild: 71. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 3473 í B-deild Alþingistíðinda. (2167)

37. mál, verkamannabústaðir

Frsm. (Jón Baldvinsson):

Allshn. hefir haft þetta mál til meðferðar og hefir athugað það eins og hún hefir getað á þeim stutta tíma, sem það var hjá henni. N. þykir málið það mikilsvert, að það ætti að koma til atkv. hjer í hv. deild. En einstakir nm. eru að vísu ekki bundnir því að fylgja frv. áfram. Mun það vera sá hv. þm., sem skrifaði undir með fyrirvara, sem ljet þá aths. fylgja undirskrift sinni.

Þetta frv. hefir legið fyrir tveimur þingum, svo að segja má, að það sje nokkuð orðið athugað. Það hefir að vísu verið flutt inn í þingið í nokkuð annari mynd bæði síðast og nú á þessu þingi. En í meðferð Nd. hefir það tekið nokkrum stakkaskiftum, þannig að í stað þess að lána mátti einstökum verkamönnum fje til bygginga, er nú œtlast til, að það sje lánað til byggingarfjelaga.

Það er ekki nokkur vafi á því, að eitt mesta nauðsynjamálið í þessu landi er það, að byggja betri íbúðir handa hinni uppvaxandi kynslóð. Þetta er viðurkent fyrir sveitirnar með frv. um byggingar- og landnámssjóð, sem samþ. var í fyrra eftir margra þinga baráttu. Þetta er nokkurskonar byggingarfrv. fyrir kaupstaðina, eða hinar fátœkustu stjettir þar.

Nú hefir þetta frv. að vísu frá mínu sjónarmiði breytst til hins verra frá því upphaflega. En samt tel jeg frv. þann grundvöll til áframhaldandi löggjafar, að sjálfsagt sje að samþ. það. Þess má geta, að frv. eins og það nú lítur út er að mestu verk hæstv. forsrh., sem ekki getur nú verið hjer, sakir veikinda sinna. Það er að formi til lítið breytt frá till. þeim, er hœstv. ráðh. flutti við frv. í Nd., en nokkrar till. frá einstökum þm. hafa verið samþyktar, er þrengja verksvið þess. Samkv. 1. gr. frv. á að stofna byggingarsjóði í kaupstöðum og kauptúnum, er láni til íbúðarhúsabygginga eins og nánar er til tekið í 5. gr. frv. En til þess að hægt sje að lána úr þessum sjóðum, þarf að mynda byggingarfjelög. Og það er að vísu takmarkað nokkuð, hverjir geta fengið þar þátttöku, því að í 3. lið 5. gr. er tekið fram, að árstekjur þeirra fjelagsmanna, sem taki þátt í stofnun byggingarfjelags og geta fengið íbúð, megi ekki fara yfir 4 þús. kr. Nú geta einstakar iðnstjettir farið yfir þetta lágmark í einstökum árum. Getur verið, að sjómenn á aflaskipum fari upp fyrir þetta í góðæri, svo að þeir geta þá ekki notið þeirra styrktar, sem þetta á að veita. Það er ætlast til, að eigendur borgi út 15 af hundraði. Kosti húsið 10 þús. kr., verða þeir eigendur, ef þeir borga út 1.500 kr. Það er og talað um í frv. stj. að gera fyrirmyndaruppdrætti að húsum þeim, sem byggja á samkv. þessum l., bœði sjerbyggingum og sambyggingum. Jeg vil út af því fara nokkrum orðum um, hvaða leið jeg tel heppilega fyrir almenning. Er jeg ekki í neinum vafa, að sjerbyggingar eru miklu hentugri, og vœri œskilegt, að hver fjölskylda hefði hús út af fyrir sig. Jeg held ekki, að þau þurfi að verða svo miklu dýrari en sambyggingar. Bæði getur allur útbúnaður hússins verið grennri og efnisminni, þegar ekki á að byggja ofan á það margar hæðir. Það hefir að mínu áliti mikla menningarlega þýðingu, að hver fjölskylda gæti fengið íbúð út af fyrir sig og haft dálítið landrými, svo að unga kynslóðin geti hreyft sig ofurlítið kringum húsið, en þurfi ekki að vera í samsulli við margar fjölskyldur, eins og er í mörgum stórbyggingum. Jeg er viss um, að margur unglingurinn hefir fengið ljelegt veganesti úr portunum við „Bjarnaborg“, „Pólana“ og „Grimsbybyggingarnar“, þar sem hrúgað er saman stórum fjölskyldum. Jeg er því í engum efa um, að sjerbyggingar eru haganlegri en sambyggingar. En ekki þar fyrir, ef þær eru hæfilega stórar, geta þar verið góðar íbúðir. Og það er náttúrlega betra en ekkert, að þær sjeu bygðar.

Gjald ríkissj. er það, að leggja eina krónu á hvern íbúa kaupstaðarins eða kauptúnsins, í fyrsta skifti 1930. Jeg álít vel forsvaranlegt, að þetta gjald hefði verið tvær krónur. Aftur á móti eiga bæir og sveitarsjóðir að leggja sömu fjárhæð á móti í byggingasjóð. Einnig hefði sú fjárhæð mátt verða svolítið stærri, til þess að stórfeldar og fljótvirkar breyt. til batnaðar á íbúðum manna í kaupstöðum og kauptúnum hefðu komist á. Annars geri jeg ráð fyrir, að háttv. þdm. hafi kynt sjer þetta mál, þar sem það hefir legið svo lengi fyrir þinginu. Jeg vil því ekki orðlengja um það, þar sem engin brtt. liggur fyrir.