16.05.1929
Efri deild: 71. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 3478 í B-deild Alþingistíðinda. (2169)

37. mál, verkamannabústaðir

Frsm. (Jón Baldvinsson):

Það er raunar ekki miklu að svara hv. 3. landsk. Hann talaði vingjarnlega um málið. Þau atriði, sem hann fann að, voru sjerstaklega ákvæði í 3. gr., að byggingarsjóður eigi að lána alt verð hússins, sem lánað er, en ekki neytt hinna algengustu lánsstofnana, eins og veðdeildar Landsbankans. Því er til að svara, að veðdeildin er ofurlítið dýrari, og þá munar alt, sem eiga að fá þessar íbúðir. Sjerstaklega er munur að taka afföllum af lánunum í upphafi.

Þó nú að kunni að vera einhverjir agnúar á þessu frv., sem jeg ber ekki á móti, þá verður ekki þegar byrjað það mikið á næsta ári á framkvæmdum samkv. þessum 1., að ekki megi laga þetta þá. En hinsvegar var nokkuð mikið hróflað við þessu máli nú í Nd. og deilur talsverðar um það. svo að jeg álít ekki rjett að hleypa því þangað. Því að þetta mál verður varla borið saman nema við fá mál í þinginu um það, hve mikils virði það er.

Þá eru það leigulóðirnar, sem hv. þm. fettir fingur út í. Það er miklu ódýrara að byggja á leigulóðum heldur en leggja út í upphafi peninga í kaup á lóð. Jeg vil segja hv. þm., að það var mikill áhugi fyrir bæjarstjórnarkosningarnar síðustu hjá þeim, sem hafa leigulóðir, að fá frambjóðendur til að lofa því að selja þeim lóðirnar. Og Íhaldsflokkurinn lofaði auðvitað að verða við þessu. En menn hafa alls ekki notað sjer af þessu, þótt nú geti þeir fengið keyptar lóðirnar, og það er af því, að allflestir vilja heldur greiða vægt eftirgjald á ári heldur en leggja á sig stórar útborganir til að eignast lóðirnar

Nei, þetta er auðsjáanlega kostur fyrir fátæka fólkið. En það er kannske hœgra að selja húsin til „spekulanta“, ef þau eru ekki á leigulóðum. En þetta er gert í því skyni að koma upp hollu húsnæði fyrir þann hluta fólksins, sem á erfiðast að koma sjer upp húsakynnum, en þau eiga ekki að vera verslunarvara.