21.03.1929
Neðri deild: 28. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 354 í B-deild Alþingistíðinda. (217)

17. mál, eftirlit með skipum og bátum

Frsm. (Sveinn Ólafsson):

Mjer hefir nú gefist kostur á að hlýða á fyrirvara hv. 4. þm. Reykv. Jeg er honum þakklátur fyrir það, að hann ætlar, þrátt fyrir alt, að greiða atkv. með till. n. En mjer virðist hann ekki taka fult tillit til þess, að brtt. kemur meira samræmi á stimpilgjaldið en í frv. felst. Eftir frv. mundi þetta gjald verða miklu hærra af smáskipum en sanngjarnlegt er, að tiltölu við hin stærri.

Jeg tók eftir því, að hæstv. forsrh. taldi sig hafa orðið fyrir vonbrigðum, er n. vildi ekki fallast á 5. gr. Og jeg þykist sjá, að það hafi verið tilgangur hans og skipaskoðunarmannsins, að þau gjöld, sem frv. ákveður, ættu að nægja til að greiða þann kostnað, sem eftirlitið hefir í för með sjer. Hingað til hefir kostnaðurinn við eftirlitið verið greiddur úr ríkissjóði án nokkurs tekjuauka og mjer virðist, að svo drjúgt hafi dropið frá sjávarútveginum í ríkissjóð á undanförnum árum, að ekki sjeu teljandi eftir þessi útgjöld hans vegna eftirlitsins. Nefndin telur þau gjöld, sem hvíla á smæstu fleytunum hjer við land, nú þegar svo þung, að ekki sje við þau bætandi. Til er reglugerð um skipaskoðun frá árinu 1923. Þar er 30 kr. skoðunargjald lagt á hverja smáfleytu upp að 30 rúml., hversu lítil sem er, ef hún er þiljuð. Þar við bætist svo slysatryggingin o. fl. o. fl. Að öllu samanlögðu telur n. eigi fært að leggja frekari kvaðir á smábátaútveginn en komnar eru. Hagur hans er ekki svo glæsilegur, að það sje fært.

Tilgátu hv. 4. þm. Reykv. um það, hversu miklu gjaldið muni nema eftir till. n., er jeg ekki sammála. Jeg hygg, að gjaldið muni verða 3–4 þús. kr., og það er óneitanlega talsverður hluti kostnaðarins. Og það er beinn tekjuauki við það, sem nú er.

Þar sem ekki hafa komið fram neinar brtt. frá einstökum þm., á hv. deild nú aðeins um tvent að velja, að ganga að brtt. n. eða samþ. frv. óbreytt.