18.05.1929
Efri deild: 74. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 3483 í B-deild Alþingistíðinda. (2173)

37. mál, verkamannabústaðir

Dómsmrh. (Jónas Jónsson):

Jeg vildi segja nokkur orð um málið við þessa umr., af því að jeg álít þetta eitt af þeim merkari málum, sem fyrir þinginu liggja. Þetta er byrjunartilraun til umbóta og opinberra afskifta af húsabyggingum í kaupstöðum og þorpum. Jeg geri ráð fyrir, að hjer fari líkt og um önnur ný vandamál, að menn sjái ekki út yfir allar hliðar þess í upphafi, en verði að bæta þar um síðar. Mál eins og þetta á að taka sífeldum endurbótum og vexti, eftir því sem reynslan bendir til. Við getum ýmislegt lært af nágrannaþjóðunum í þessum efnum; sjerstaklega gætu garðaborgir, sem flestar mentaþjóðir hafa komið upp, orðið hjer til fyrirmyndar, og er margt viðkomandi þeim, sem gæti komið inn í löggjöf eins og þessa.

Þeir tveir hv. þm., sem síðast töluðu, töldu heppilegast, að reist yrðu smáhýsi, en ekki stórar kassabyggingar. Jeg álít það sje betra að byggja í smáum stíl, meðan verið er að afla innlendrar reynslu. Sjerstaklega verður með einhverjum hætti að tryggja það, t. d. hjer í Reykjavík, að byggingarkostnaður húsanna geti orðið sem allra minstur. Við horfum hjer á það ár eftir ár, hvað flutningur á möl og sandi í byggingarnar er seintekinn og dýr; stundum er það flutt á kerrum langar leiðir. Og að því er steypumótin snertir, þá eru þau búin til fyrir hvert hús, í stað þess að útbúa varanleg steypumót, sem mætti nota hvað eftir annað við byggingar húsa. Ef bygðar væru garðaborgir, þá geri jeg ráð fyrir, að bygt yrði við eina götu í senn, samanhangandi hverfi; ætti helst að setja það skilyrði, til þess að draga sem mest úr byggingarkostnaðinum. Landsspítalinn hefir reynst tiltölulega mjög ódýr bygging eftir stærð, enda var mölin og sandurinn flutt að honum í járnbrautarvögnum.

Þetta eru nú fyrirkomulagsatriði, eins og það, sem brtt. hv. 3. landsk. fjalla um. Þegar stofnað er til svona hreyfingar, þá verður eigi aðeins að hugsa fyrir lánskjörunum, heldur og annari aðstöðu til framkvæmda við byggingarnar. Það er svo margt, sem snertir skipulagið, er þarf að taka tillit til.

Einn af bestu læknum landsins, sem mest hefir unnið að því að kynna sjer byggingar, fær tækifæri til næsta sumar að skoða „garðaborgir“ erlendis, til undirbúnings því, að slíkar byggingar geti orðið hjer sem fullkomnastar. Af því að jeg starfa í nánu sambandi við þennan mann, hefi jeg hugsað mjer, að hann miðaði athuganir sínar við stefnu þessa frv. Og jeg álít, að það eigi að ganga fram eins og Nd. skildi við það, þó að gert sje ráð fyrir umbótum og viðaukum í þessu efni á næstu árum. En jeg hefi hugsað mjer að koma með viðaukatill. við þessi lög á næsta þingi, þegar sjerfræðingar og læknar hafa gert sínar athuganir, til þess að tryggja það, að málið verði sem best undirbúið frá praktísku sjónarmiði og samkv. heilbrigðiskröfum.

Jeg ætla ekki að stofna til neinnar deilu um þetta mál nú. En ef hv. 3. landsk. ætlast til þess, að íbúðarhús verkamanna standi hvert út af fyrir sig, sem jeg skal ekki fullyrða um og álít ekki víst, að sje heppilegt, þá vil jeg geta þess, að í Port Sunlight, við Liverpool á Englandi, þar sem eru sólskinssápuverksmiðjurnar heimsfrægu, er hver sambygging eins og „villa“ með tilheyrandi garði fyrir framan, og líka á bak við húsið, en þó eru mörg hús samföst. Á þann hátt er hægt að tryggja það, að húsin líti vel út, og það ekkert síður en þó að þau stæðu hvert út af fyrir sig; þá yrðu göturnar líka alt of langar, ef húsin væru öll sjerstæð. Það fyrirkomulag hefir líka sína galla.