18.05.1929
Efri deild: 74. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 3486 í B-deild Alþingistíðinda. (2174)

37. mál, verkamannabústaðir

Jón Þorláksson:

Jeg gæti haldið ákaflega langa ræðu og farið út í ýmsar bollaleggingar eins og hæstv. dómsmrh., ef jeg vildi fara út í að lýsa byggingum; en jeg ætla að hlífa hv. þdm. við því. Jeg hefði viljað hafa ákvæði í frv. um það, hvernig húsunum skyldi fyrir komið, en treysti mjer þó ekki til að útbúa brtt. um það nú við síðustu umr. málsins. Mjer er það vel ljóst, að það er hægt að byggja lögulega, þó að nokkur hús sjeu bygð saman, en best væri, að ekki þyrfti að láta nema tvö hús standa saman.