21.03.1929
Neðri deild: 28. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 355 í B-deild Alþingistíðinda. (218)

17. mál, eftirlit með skipum og bátum

Pjetur Ottesen:

Eins og jeg gat um við 1. umr. þessa máls, fer frv. fram á að auka nokkru við þann kostnað, sem nú er við yfirstjórn skipaskoðunarinnar, auk þess sem nú á að skipa stjórn þeirra mála með lögum. Frv. gerði ráð fyrir, að yfirskoðunarmaður hefði 5 þús. kr. byrjunarlaun, er færu hækkandi upp í 6 þús. Auk þess átti hann að mega ráða sjer aðstoðarmann eða aðstoðarmenn eftir þörfum. í brtt. sínum lætur hv. sjútvn. lágmark og hámark launanna haldast, en bætir við dýrtíðaruppbót. Ennfremur ákveður hún skoðunarmanni skrifstofukostnað og ferðafje. En það er bert, að kostnaðurinn eykst allmikið frá því, sem nú er, því að í fjárlögum eru aðeins veittar 8 þús. kr. til þessa starfa. Hinsvegar var svo ráð fyrir gert í frv., að kostnaðaraukinn kæmi ekki niður nema þá að nokkru leyti á ríkissjóði, heldur yrði lögfestur sjerstakur skattur á útgerðinni í þessu skyni. En jeg benti á, að ekki væri sanngjarnt að leggja þennan aukaskatt á útgerðina, því að hún ber og hefir borið talsverðan kostnað vegna skipaskoðunarinnar. Samkv. reglugerðinni verður að greiða 30 kr. af hverjum þiljubát undir 50 smál. En nú hefir hv. sjútvn. orðið við tilmælum mínum um að draga úr þessum nýja skatti á bátana, og eins og hún hefir gengið frá till. sínum, verður hann ekki tilfinnanlegur. Mjer telst svo til, að tekjuauki ríkissjóðs muni eftir till. n. lækka um 6500 kr., miðað við þann skipastól, sem nú er í landinu. — Annars verð jeg að segja það, að mjer þótti það undarlegt, að hv. 4. þm. Reykv. skyldi hafa það eitt út á till. meiri hl. sjútvn. að setja, að þessi skattur á smábátaútveginum var lækkaður. Það er ekki í góðu samræmi við það, sem hann lætur í veðri vaka, þegar hann er að geipa af umhyggjusemi fyrir sjómönnum.

Hæstv. forsrh. sagði, að aðalbreyt. n. væri við 5. gr. frv. Þetta er ekki rjett. N. hefir og gert, eins og jeg hefi þegar bent á, allmiklar breyt. á 3. gr., þar sem hún ákveður, að yfirskoðunarmaður skuli fá greidda dýrtíðaruppbót og skrifstofukostnað og auk þess kostnað við eftirlitsferðir. Ekkert af þessu var nefnt í frv. Og þessar breyt. skifta allmiklu máli fjárhagslega sjeð.

Skal jeg svo ljúka máli mínu, en vil tjá hv. sjútvn. þakkir fyrir það, að hún hefir orðið við tilmælum mínum um það að draga úr þeim skatti, sem eftir frv. átti að leggja á smábátaútveginn.