21.03.1929
Neðri deild: 28. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 357 í B-deild Alþingistíðinda. (219)

17. mál, eftirlit með skipum og bátum

Sigurjón Á. Ólafsson:

Jeg skal vera stuttorður. Hv. frsm. þakkaði mjer fyrir það, að jeg lofaði að greiða atkv. með frv. Eins og jeg hefi tekið fram, tel jeg frv. til mikilla bóta, þó að jeg sje ekki ánægður með brtt. n. við 5. gr., og get jeg þrátt fyrir alt greitt atkv. með því. Jeg skal ekki mæla móti því, að skoðunargjaldið hafi verið heldur hátt af smábátum eftir skipaskoðunarreglugerðinni. Um það erum við sammála, að það þurfi að lækka. En jeg verð að álíta, að hv. frsm. hafi ekki áætlað tekjulækkun þá, sem till. n. hafa í för með sjer, nógu hátt. Jeg þykist sjá, að hann hafi í útreikningi sínum miðað eingöngu við smálestatal, en hann verður líka að leggja tölu skipanna til grundvallar, ef áætlunin á að verða rjett. Jeg hefi fengið upplýsingar mínar frá skipaskoðunarmanni ríkisins, og eftir þeim verða tekjurnar ekki nema 2000–2500 kr. Það, sem fyrir mjer vakti með því að fylgja þeirri gjaldaukningu, er í frv. fólst, var einmitt það, sem fram kom hjá hv. þm. Borgf., að ákvæðin um að herða eftirlitið myndu hafa aukinn kostnað í för með sjer. Mjer er ekki kunnugt um, að eftirlitsmaðurinn hafi haft dýrtíðaruppbót áður. Skrifstofukostnað mun hann hafa haft, því að hann er innifalinn í þeim 8 þús. kr., sem veittar eru í fjárlögum. En nú bætist við annar kostnaður, þar sem eru laun aðstoðarmanns, sem frv. gerir ráð fyrir. Má og gera ráð fyrir, að starfsliði verði að fjölga, eftir því sem eftirlitið verður umfangsmeira. Og þá hljóta útgjöld ríkissjóðs óhjákvæmilega að hækka. Mjer skilst, að tilgangur frv. hafi verið sá, að íþyngja ekki ríkissjóði með auknum útgjöldum, sem betra eftirlit hefði í för með sjer, og því gerð tilraun með ákvæðum 5. gr. til að finna nýjar tekjur til að vega móti þessum kostnaði. En verði áætlað nægilegt fje í fjárlögum til að standa straum af þessum kostnaði við eftirlitið, skal jeg ekki deila við meðnm. mína um þetta atriði.

Það er auðvitað rjett, að talsverðar byrðar hvíla nú á smábátaútveginum. En jeg hygg, að þær sjeu aðallega á hvílandi þeim aflafeng, sem á skip og báta fæst, og sá greiðir mest, er mest aflar, og er því óskylt þeirri kvöð, sem hjer er gert ráð fyrir.

Skal jeg svo eigi fjölyrða um þetta mál, en vænti þess, að sú breyting, sem n. hefir gert á frv. og jeg eftir atvikum get sætt mig við, verði ekki á neinn hátt til þess að draga úr öryggi eftirlitsins og þeim umbótum, sem í frv. felast.