21.03.1929
Neðri deild: 28. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 358 í B-deild Alþingistíðinda. (220)

17. mál, eftirlit með skipum og bátum

Frsm. (Sveinn Ólafsson):

Jeg vil fyrst víkja örfáum orðum að ræðu hv. þm. Borgf. Hann taldi, að n. hefði gert miklar breyt. á 3. gr. frv. Þetta getur tæplega talist rjett. N. gerði eiginlega ekki annað en taka fram það, sem ósagt var í frvgr., en lá þar þó á milli línanna. í nál. stendur: „Breyting 3. gr. lýtur að því að endimarka skýrar verksvið og launakjör skipaskoðunarstjóra“. Hjer er því í raun og veru ekki um breyt. að ræða, heldur ákveðnara orðalag.

Hv. 4. þm. Reykv. heldur, að stimpilgjaldið muni ekki verða nema 2000 –2500 kr. eftir till. n. og byggir þá áætlun á upplýsingum frá skipaskoðunarmanni ríkisins. En jeg hygg, að mjer sje óhætt að fullyrða, að í skýrslum skoðunarmannsins sjeu opnu bátarnir ekki taldir. Og það mun vera ástæðan til skekkjunnar, sem jeg tel, að sje í áætlun hv. 4. þm. Reykv., og hefir hann ekki varast það.

Að lokum vil jeg endurtaka þá áskorun til hv. þdm., að þeir ljetti fremur gjöldum af smábátaútveginum en þyngi þau. Að láta þá bera neinn verulegan hluta af skoðunargjöldum er órjettlátt, því að eftirlit með þeim er hverfandi í samanburði við stærri skipin. En atkv. skera úr um þetta efni, og sje jeg ekki ástæðu til að lengja mál mitt meir en orðið er.