18.05.1929
Neðri deild: 73. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 3501 í B-deild Alþingistíðinda. (2239)

Starfslok deilda

Sigurður Eggerz:

Þó að sá flokkur sje lítill, sem jeg mæli fyrir hjer innan þingsins, þá þykist jeg mega fullyrða, að hann geti metið, hver sje fœrastur til þess að vera forseti hjer í hv. deild. Jeg verð að leggja áherslu á það, að það skiftir afarmiklu, hver situr í þessu virðulega sæti á Alþingi, en einkenni forseta vors nú er það, sem tekið hefir verið fram áður, að hann er maður rjettlátur, frjálslyndur, og þá má ekki einu gleyma, að hann er maður skarpskygn, úrskurðafljótur og úrskurðaglöggur. En frá mínu sjónarmiði þykir mjer það ekki litlu skifta að sjá eina af hinum gömlu sjálfstœðishetjum sitja í þessu sæti. Það mun gleðja flesta, þegar hann mælir okkar fögru tungu, því sjaldan hefi jeg heyrt hana hljóma svo vel sem í munni hæstv. forseta (BSv).