18.05.1929
Sameinað þing: 7. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 3501 í B-deild Alþingistíðinda. (2241)

Þinglausnir

forseti (MT):

Kœrir þingbræður! Af málaskrá þessari, sem nú var lesin, má sjá, að þau málin, sem fram hafa gengið, eru ekki ýkjamörg talsins, enda varðar jafnan mestu, að þau sjeu til góðra nytja og sannra þjóðþrifa. Til slíkra nytjamála má telja lög um Búnaðarbanka, lög um verksmiðju til bræðslu síldar og lög um verkamannabústaði, er öll horfa til mikilla hagsbóta. Þá hafa verið sett og samin lög um hjeraðaskóla, er marka mun nýtt spor í menningarsögu sveitanna, og loks hafa verið samþykt lög um gjaldþrotaskifti, sem hin mesta nauðsyn var á til tryggingar viðskiftalífinu.

Þá er og vert að minnast þess, að á þinginu hafa verið borin fram ýms merk frumvörp, er benda til, að sami vorhugur markar löggjafarstarf þingsins og atvinnulíf þjóðarinnar, og má þar sjerstaklega geta hins stórmerka frumvarps til ábúðarlaga, sem sett hefir verið á dagskrá þjóðarinnar.

Með þakklæti til háttvirtra þingmanna fyrir það, hve vel þeir hafa vikist við tilmælum mínum í þingbyrjun um prúðmannleg rœðuhöld og fyrir góða samvinnu hver með öðrum um þau málin, er mestu skifta, óska jeg þeim góðrar heimkomu og alls farnaðar.

Guð blessi oss starfið.