18.03.1929
Neðri deild: 25. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 3 í C-deild Alþingistíðinda. (2247)

62. mál, stækkun lögsagnarumdæmis Reykjavíkur

Ólafur Thors:

Eins og háttv. flm. skýrði frá, er þetta frv. borið fram að tilhlutun bæjarstjórnar Reykjavíkur. En tillögumaður þess mun vera hv. þm. Ísaf. (HG), enda ber frv. merki þess. Menn hafa lengi vitað, að Reykvíkingum leikur hugur á að innlima Seltjarnarnes, sem er eigulegasti bletturinn í allri Kjósarsýslu, í lögsagnarumdæmi Reykjavíkur. íbúar á Seltjarnarnesi eru vel stæðir og atvinnurekstur er þar í miklum blóma. Seltjarnarnesi hefir því lengi stafað sama hættan af nábýlinu við Reykjavík eins og smáþjóð stafar af nábýlinu við stórveldi. Og eins og önnur stórveldi reyna að vernda rjett smáþjóðanna í slíkum tilfellum, þannig er vörn Seltirninga nú á valdi þingsins.

Tilefnið til innlimunar hreppsins er það, að nokkrir menn á Skildinganesi fóru fram á að mega fá vatn frá Reykjavík. En tilmælum þeirra var svarað á þann hátt, að úr því að þeir vildu njóta hlunnindanna, sem fylgdu því að búa í nánd við Reykjavík, þá yrðu þeir líka að taka þátt í sköttum og skyldum til bæjarins. Jeg skal játa, að þetta mætti til sanns vegar færa, að óathuguðu máli. En þess ber að gæta, að Seltirningar eiga þennan rjett samkvæmt vatnalögunum frá 1923, og hafa auk þess fengið hann samkvæmt sjerlögum frá sama ári, og það meira að segja fyrir ærið gjald. Fyrir þinginu 1923 lá lagafrv. þess efnis, að innlima í lögsagnarumdæmi Reykjavíkur meðal annars tvær jarðir í Seltjarnarneshreppi. Við 3. umr. þess máls í Nd. var bætt við ákvæði, sem jeg með leyfi hæstv. forseta skal lesa upp úr. þingtíðindunum:

„Íbúum Seltjarnarneshrepps skal heimilt vatn og rafmagn frá vatnsveitu og rafmagnsveitu Reykjavíkurkaupstaðar, til heimilis- og búþarfa, enda hlíti þeir þeim ákvæðum“ o. s. frv.

Í umr. segir frsm. allshn. svo:

„Síðan nefndin skilaði málinu, hafa komið tvö erindi til þingsins því viðvíkjandi, annað frá Seltjarnarneshreppi, um að sveitin verði aðnjótandi þeirra náttúrugæða, vatns og raforku, sem Elliðaárnar láta Reykjavíkurbæ í tje. Nefndinni fanst þetta sanngjarnt, þar sem árnar eru teknar úr sveitarfjelagi þeirra og lagðar undir Reykjavík, aðallega vegna þessara náttúrugæða, að þeir yrðu ekki útilokaðir frá hlutdeild í þeim, einkum þar sem þeir hafa verið sanngjarnir í fjárkröfum.“

Hjer hafa Seltirningar trygt sjer tvöfaldan lagalegan rjett til afnota vatns frá Reykjavík, og að því er snertir 1. nr. 46, 16. júní 1923, hafa þeir meira að segja keypt þau fríðindi. Þegar svo Seltirningar ætla að nota sjer þennan rjett, þá er ekki einungis gengið á gerða samninga, heldur er líka haft í hótunum við þá og sagt: Ef þið eruð að nöldra þetta, þá bara gleypum við ykkur.

Það hefir farið fyrir hv. flm. eins og venjulega fer fyrir þeim, sem nota orðin til þess að leyna hugsununum, að rök þeirra eru gersamlega óframbærileg. Bæjarstjórnin hefir ekki athugað þetta mál. Hún hefir gleymt öllu velsæmi og einblínt á bráðina. Hin raunverulega ástæða fyrir þessu frv. er sú, að Reykvíkingar hafa talið sjer trú um, að Seltjarnarneshreppur væri hæli þeirra manna, sem vildu losna við að greiða skatt til Reykjavíkur, en stunda þó atvinnu þar. En jeg vil segja hv. flm., að 1928 þágu Reykvíkingar, sem stunduðu atvinnu í Seltjarnarneshreppi, 346 þús. krónur þaðan, en Seltirningar, sem stunduðu atvinnu í Reykjavík, þágu fyrir það 111 þús. krónur. Svo að hlutfallið er alveg öfugt við það, sem hv. flm. vilja vera láta. En þó að hitt væri nú, þá er það enginn höfuðglæpur, því að jeg veit ekki betur en að lögin tryggi atvinnusveitinni útsvar. Enda væri með þessu frv. alls ekki girt fyrir slíkan flutning. Þessir ríku farfuglar mundu búa alveg eins vel uppi í Mosfellssveit. Hv. flm. vilja innlima Seltjarnarnes í lögsagnarumdæmi Reykjavíkur, af því að „ef stigið er út fyrir Reykjavík, er maður kominn á Seltjarnarnes“! En ef Seltjarnarneshreppur tilheyrði Reykjavík, væri maður kominn upp í Mosfellssveit, ef stigið vœri út fyrir Reykjavík. Altaf er einhver sveit næst Reykjavík. Ef maður getur búið á Seltjarnarnesi og stundað atvinnu í Reykjavík, getur maður alveg eins búið í Mosfellssveit og stundað atvinnu í Reykjavík.

Nei, höfuðástæðan fyrir þessu frv. er sú, að Reykvíkingum finst þetta girnilegur biti og vita, að þessi sveit er einhver mesta framfarasveit landsins. Ef hjer væri um eitthvert nauðsynlegt grundvallarskilyrði fyrir Reykjavíkurbæ að ræða, þá væri þessi ásælni skiljanleg og afsakanleg. En það er engu slíku til að dreifa. Löngun Reykvíkinga í Seltjarnarnes er ekkert annað en löngun úlfsins í lambið.

Hvað hefir nú þingið sagt áður um þetta? Það nýjasta, sem sagt hefir verið um þetta, sjest í sveitarstjórnarlögunum frá 1927. 19. gr. þeirra laga segir: „Eigi skal neinu máli, er varðar einhverja sjerstaka sveit, til lykta ráðið fyr en álits hreppsnefndar þar hefir verið leitað um það.... Og 42. gr. segir: „Eigi skal neinu máli, er varðar einhverja sýslu sjerstaklega, til lykta ráðið fyr en álits sýslunefndar þar hefir verið leitað um það ...

Með þessum tveim greinum er trygður rjettur hreppsfjelaganna annarsvegar og sýsluljelaganna hinsvegar. Og lögin ganga enn lengra, því að í 3. gr. segir: „.... Eigi má neina slíka breyting gera, nema eftir beiðni hreppsnefnda þeirra, er hlut eiga að máli, og meðmælum sýslunefndar ... ‘

Jeg vil spyrja hv. flm., hvort þeir hafi lagt fram umsagnir hreppsnefndar og sýslunefndar í þessu máli. Jeg get svarað spurningu minni sjálfur. Hv. flm. hafa ekki einu sinni spurst fyrir um álit hreppsnefndar og sýslunefndar. Og þó að ekkert annað mælti með því, að frv. yrði kveðið niður strax í byrjun, en sú vanvirða, sem hv. flm. sýna Alþingi með því að leggja fyrir það svona illa undirbúið mál og mælast til, að það brjóti lög, sem það er nýbúið að gefa, þá er það eitt nóg til þess að taka ákveðna aðstöðu til málsins. Hjer er mælst til, að Alþingi rjúki til og brjóti lög, sem það hefir sjálft sett. Það er ekki bara löngun og rjettur úlfsins. Það er líka aðferð úlfsins.

En þó að hv. flm. hafi ekki sýni Seltirningum þann sóma, að leita álits þeirra um þetta mál, þá hefi jeg gert það. Og oddvitinn hefir tjáð mjer eindregin mótmæli allra hreppsbúa. Mótmæli þeirra eru bygð á ýmsum rökum. Fjárhagshlið málsins er sú, að allir hagsmunir eru ólíkir á Seltjarnarnesi og í Reykjavík. Seltirningar yrðu gersamlega áhrifalausir á stjórn sinna eigin mála, og þeir mundu heldur engin áhrif hafa á stjórn Reykjavíkurbæjar. Seltirningar kæra sig ekki um að flækja sjer inn í skuldir Reykvíkinga. Þeir fá ekkert nema vatn og rafmagn frá Reykjavík, og það eiga þeir hvorttveggja að tvennum lögum. Auk þess er þetta Seltirningum sjálfstæðismál. Óðalsbændur í Seltjarnarneshreppi eru kunnir fyrir sjálfstæði. Þeir eiga kröfu á að mega fara með sjálfstjórn sinna mála, ekki síst þegar á það er litið, að allur andi sveitarstjórnarlaganna frá 1927 fer í þá átt, að gera sjálfstjórn hreppa sem mesta. Hreppsskifti verða æ tíðari og tíðari, en sameining hreppa hefir aldrei þekst, nema sem kúgun.

Jeg leyfi mjer að bera fram hjer á Alþingi þá ósk Seltirninga, að þingið ljái ekki lið sitt þessari ásælni Reykvíkinga. Jeg vil einkum beina máli mínu til háttvirtra þingbænda. Jeg vil bera fram þá ósk, að Alþingi láti aldrei viðgangast, að þessi elsti hreppur Íslands verði með kúgun lagður undir Reykjavík.