18.03.1929
Neðri deild: 25. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 8 í C-deild Alþingistíðinda. (2248)

62. mál, stækkun lögsagnarumdæmis Reykjavíkur

Magnús Jónsson:

Það er sagt í greinargerð þessa frv., að það sje flutt samkvæmt ósk bæjarstjórnar Reykjavíkur, en að sumir flm. hafi nokkra sjerstöðu í málinu. Jeg er einn af þeim, sem hafa sjerstöðu um þetta frv. Jeg get sagt það, að jeg hefi haft þá reglu, að flytja inn á þingið það, sem bæjarstjórnin hjer óskar, að þar sje flutt. Og mjer finst satt að segja nokkuð hart, ef þm. bæjarins neituðu að koma þeim málum inn á þingið, sem eru áhugamál bæjarstjórnarinnar. — Að þessu frv. hefi jeg því gerst meðflutningsmaður, enda þótt jeg telji það að sumu leyti athugavert, eins og bent er til í grg. fyrir frv. — Skal jeg nú gera nánari grein fyrir sjerstöðu minni til frv.

Eins og kunnugt er, þá er lögsagnarumdæmi Reykjavíkur ærið einkennilegt í laginu. Að vestan er dálítil spilda, sem liggur að sjó beggja megin og sker Seltjarnarnesið frá uppveitinni. 1923 voru nokkrar jarðir austan við Reykjavík lagðar undir lögsagnarumdæmi Reykjavíkur. Við þá ráðstöfun myndaðist lítil eyja að vestanverðu við þær jarðir, sem er utan lögsagnarumdæmis Reykjavíkur, aðallega Skildinganesið. Þar hefir Shellfjelagið stöðvar sínar, og er þar nú að rísa upp ekki allfáment þorp. Var það upphaflega tilgangur bæjarstjórnarinnar að fá þennan blett. Og svo stóð, er jeg lofaði flutningi á þessu frv. Svo þegar frv. var gert víðtækara, þar sem nú er farið fram á, að allur Seltjarnarneshreppur verði lagður við lögsagnarumdæmi Reykjavíkur, þá vildi jeg ekki draga mig til baka með flutning frv., en ljet grg. frv. bera með sjer sjerstöðu mína.

Jeg tel mikinn mun á því, hvort farið er fram á að fá allan hreppinn eða aðeins þessa litlu spildu, sem reynst hefir skattskjól fyrir Reykvíkinga. — Hv. 1. flm. þessa frv. (HV) var að tala um það, að ekki væri gustuk að skilja eftir bæina hjer fyrir ofan Reykjavík. Það er nú að vísu satt, að ekki væri fallegt að skilja eftir fáa illa setta bæi. En þegar þess er gætt, að auk þessara bæja verða eftir í hreppnum allir bæirnir úti á Seltjarnarnesinu, þá sje jeg ekki, að hjer sje um neina gustukamenn að ræða, þar sem eftir er einhver stæltasti hreppurinn á landinu. Og það er skiljanlega geysimunur á því fyrir sýsluna, hvort tekinn er heill hreppur eða aðeins lítil spilda vegna nauðsynjar bæjarins. Það er mjög óþægilegt, að lögsagnarumdæmin sjeu mjög þröng. Og það er eðlilegt, að bæirnir óski eftir aðstöðu til þess að geta lagt gjöld til sinna þarfa á menn, sem fá atvinnu sína og uppeldi í bæjunum.

Jeg skal ekki blanda mjer inn í deilur þeirra hv. flm. og hv. 2. þm. G.-K. um Seltjarnarneshrepp alment. En því er ekki hægt að neita, að velmegun Seltjarnarneshrepps stafar að mjög miklu leyti frá Reykjavík. Þótt þessi hreppur væri góður áður, meðan útræði var stundað þaðan, þá hefir hann þó eflst við að njóta hins besta markaðar og þeirrar aðstöðu annarar, sem Reykjavík veitir honum. En jeg tel þó rjett, að hann sje sjálfstæður hreppur áfram, meðan hann kemur eigi meira í bága við hagsmuni Reykjavíkur en enn er.

— Þetta er ástæðan til ágreinings míns. Jeg vil ekki láta taka meira en þörfin heimtar. En það er þó engin ástæða til að bægja málinu frá n., því þar er hægt að breyta þessu. Vil jeg óska þess, að frv. verði að umr. lokinni látið ganga til hv. allshn.

En svo átti jeg annan fyrirvara, um þetta, sem hv. 2. þm. G.-K. benti á, að ekki hefir verið leitað samninga við aðila. Jeg hefi jafnan haldið því fram, að ekki væri rjett að samþykkja slík frv., nema slíkra samninga sje áður leitað. Mál, svipað þessu, kom fram frá Ísafirði á þinginu í fyrra. Var jeg eindregið á móti því, vegna þess að ekki hafði verið leitað samninga við viðkomandi hrepp. Og jeg vil ekki heimta það fyrir Reykjavík, sem jeg tel rjett að neita öðrum um. Máske fæst ekki samkomulag. En jeg tel rjett að leita þess, og ef þörfin er stór, að gera þá sæmileg boð til hrepps og sýslu. En þetta má laga, meðan málið er í n.

— Þegar lögsagnarumdæmi Reykjavíkur var síðast stækkað, 1923, var ramma-rígur um þá stækkun. En þá var málið sett í allshn. og hún náði samkomulagi. Jeg vona, að eins fari hjer, að málið verði sett í n. og hún leiti samkomulags við aðila. Geri jeg það að skilyrði fyrir mínu atkv. við frv. þetta, að n. breyti frv. svo sem jeg hefi lýst og leiti samkomulags við aðila.