18.03.1929
Neðri deild: 25. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 19 í C-deild Alþingistíðinda. (2251)

62. mál, stækkun lögsagnarumdæmis Reykjavíkur

Ólafur Thors:

Jeg þarf ekki miklu að svara, vegna þess að hv. þm. Mýr. (BÁ) hefir tekið svo rækilega fram flest af því, sem jeg vildi sagt hafa. Jeg get líka unað sæmilega vel við umsögn hv. 1. þm. Reykv.; hann aðhyltist flest af mínum rökum. Þó vill hann draga undir Reykjavík dálítinn landskika, sjerstaklega Skildinganesið, og segist gera það af landfræðilegum ástæðum. Það eru einmitt þessar landfræðilegu ástæður, sem altaf eru notaðar, þegar sá, sem er meiri máttar, ætlar að sölsa undir sig eign þess, sem minni máttar er.

Jeg vil nú benda hv. flm. þessa máls á það, að í sveitarstjórnarlögunum frá 1927 er gert ráð fyrir, að þorp með 300 mönnum geti krafist þess að vera sjerstakur hreppur. Rök flm. eru meðal annars þau, að Skildinganesið sje að verða sjálfstætt þorp; en ef svo er, notar það að sjálfsögðu rjett sinn til þess að verða sjerstakur hreppur. Hv. flm. ættu því að sjá, að slík ástæða er engin rök í þessu máli. Landfræðilegar ástæður hafa þeir ekki heldur. Nei, það er ágirndin ein, sem er rök þeirra í þessu máli. (BÁ: Og ágirndin er rót alls ills). Já, það er rjett, — ágirndin er rót alls ills.

Hv. 2. þm. Reykv. talaði um, að jeg hefði mælt af reiði í ræðu minni áðan. Það er ekki rjett, að jeg hafi verið reiður; jeg sagði aðeins það, sem jeg meinti um úlfslöngun Reykjavíkurbæjar eftir löndum og eignum Seltjarnarneshrepps.

Hv. þm. lætur sjer sæma að gera mjer illar hvatir og segir, að jeg sje að berjast fyrir eigin hagsmunum í þessu máli. (HV: Jeg þekki þingmanninn). Hv. þm. kom til sjálfs sín og gerði mjer hinar verstu getsakir. Þessi hv. þm. hefir óvenjulega tilhneigingu til að sverta andstæðinga sína. Og þó að mjer sje engin þörf á að hreinsa mig af slíkum illmælum, skal jeg þó gera það í þetta skifti.

Það er rjett, að fjelag það, sem jeg er við riðinn, rekur atvinnu á Seltjarnarnesi. En með tilliti til útsvarsálagningar hefir fjelagið aðeins skaða af því, að Seltjarnarnes sje sjerstakur hreppur, því að eins og háttv. þm. er kunnugt, leggur Reykjavíkurbær á alla umsetningu fjelagsins. Á síðastliðnu ári greiddi það 60 þús. kr. í útsvar hjer í bænum, og 20–30 þús. kr. úti um land. (HV: Hvaða tekjur hafði fjelagið það ár?) Tekjur fjel. voru tæp ¼ milj. kr. (HV: Já, einmitt það!). Háttv. þm. er sjálfur í yfirskattanefnd, og leyfi jeg honum hjer með sem skattanefndarmanni að skýra frá tekjum fjelagsins. Þessar aðdróttanir háttv. þm. í minn garð hljóta að vera bornar fram af illum hug. En jeg hefi ekki haft þann sið að ganga um klagandi, emjandi og æpandi út af útsvari Kveldúlfs, — svo að jeg noti orðaval háttv. þm. Ísaf. — eins og háttv. 2. þm. Reykv., sem er þjónn erlends auðfjelags, er rekur hjer atvinnu með 70 milj. króna höfuðstól. Háttv. þm. hefir gert alt sitt til þess að koma því fjelagi, British Petroleum Co., undan rjettmætum útsvarsgreiðslum, og veit jeg ekki betur en að hann eigi nú í máli út af einu slíku útsvari. Það situr því síst á háttv. þm. að gera öðrum illar hvatir og saka þá um fjárgræðgi.

Háttv. þm. sagði, að flm. frv. hefðu gengið út frá því, að vegna nálægðar gæti þingið sjálft aflað sjer upplýsinga um aðstöðu hlutaðeigandi hreppsnefndar og sýslufjelags til þessa máls. En þessi ástæða er alls ekki frambærileg. Það var skylda háttv. flm. sjálfra að leggja fram skilríki fyrir slíku samþykki, ef á annað borð hefði verið unt að fá þau. En hvers vegna gerðu þeir það ekki? Vegna þess að þeir vissu, að viðkomandi aðilar voru þessari ráðstöfun andvígir, og það af þeim ástæðum, sem háttv. þm. Mýr. hefir þegar nefnt. Íbúum Seltjarnarneshrepps getur ekki dulist það, að sameining þeirra við Reykjavíkurbæ mundi leiða til þess eins, að Reykjavík hirti útsvör þeirra, en ljeti málefni hreppsins sitja á hakanum. Og hvaða líkur eru til annars? Það er hægt að slá því fram, að 500 manns mundu hafa áhrif á framkvæmdir í bæjarfjelagi, sem telur 24 þús. íbúa. og jeg vil ekki alveg þvertaka fyrir, að þeir kynnu að hafa einhver áhrif; en vitanlega yrðu þau áhrif alveg hverfandi. Það er alveg rjett, sem háttv. þm. Mýr. sagði, að Seltirningar vita, að þeir mundu verða skattpíndir af bæjarstjórn Reykjavíkur, en ekkert fá í aðra hönd. Þess vegna rísa þeir einhuga gegn þessari ráðstöfun, beinlínis af fjárhagslegum ástæðum.

Það eru býsna skemtileg rök, sem koma fram frá háttv. flm., þegar þeir halda því fram, að Seltirningar standi í þakklætisskuld við Reykjavík, af því að einstakir menn, sem eru búsettir í bænum, reki þar atvinnu. Af því að Seltirningar hafa atvinnu við þessi fyrirtæki, eiga þeir að vera Reykvíkingum þakklátir! Þessi staðhæfing er í nokkuð kátlegu ósamræmi við rök háttv. jafnaðarmanna í öðrum málum, þegar þeir eru að halda fram rjetti vinnunnar gegn fjármununum. En hv. jafnaðarmenn eru nú ekki fastari í rásinni en svo, að þeir gleyma sínum grundvallar-„principum“, þegar þeir þurfa á rökum að halda, sem koma í bága við þau.

Háttv. 2. þm. Reykv. sagði, að það væri hlægilegt að tala um hættu á því, að Mosfellssveit yrði innlimuð í Reykjavík, þó að þetta frv. næði fram að ganga. Háttv. þm. talaði þó sjálfur um, að Reykjavík þyrfti að eignast

jörðina Hólm, af því að í landi þeirrar jarðar eru Gvendarbrunnarnir, sem bærinn fær neysluvatn sitt úr. En ef á að innlima í Reykjavík allar þær jarðir, sem bærinn þarf eitthvað til að sækja, þá má lengi halda áfram á þeirri leið. Jeg sje jafnvel ekki betur en að hreppurinn umhverfis Sogið gæti verið í hættu fyrir slíkri innlimun, ef Reykjavíkurbær ræðst í að virkja Sogsfossana og fá rafmagn þaðan.

Það var líka alveg óviðeigandi illkvittni hjá háttv. 2. þm. Reykv. að bera það á formann Íhaldsflokksins, Jón Þorláksson, að hann hafi á þingi 1923, eftir að sættir voru komnar á milli Reykjavíkurbæjar og Seltjarnarneshrepps, haldið því fram í eiginhagsmunaskyni, að Seltirningar ættu kröfu á vatnsleiðslu og rafmagni frá Reykjavíkurbæ. Háttv. þm. sagði, að formaður Íhaldsflokksins hefði gert þetta af því, að hann ætti sjálfur land í Skildinganesi, sem hann hefði keypt í því skyni að selja byggingarlóðir í hagsmunaskyni. Saga þessa máls er 5 fáum orðum sú, að árin 1922–23 óskaði Reykjavík eftir að innlima nokkrar jarðir úr Seltjarnarnes- og Mosfellshreppum. Samkomulag fjekst ekki um það fyrst í stað, en náðist þó meðan á þingi stóð 1923. Þá var ekki um það talað að innlima allan hreppinn, heldur aðeins það, sem Reykjavíkurbæ var nauðsynlegt og hreppsnefndirnar gátu sætt sig við að láta af hendi. Eitt af skilyrðunum frá hálfu Seltirninga í þeim sáttmála var að öðlast rjett til rafmagns og vatns frá bænum. (HV: En þeir fjellu frá því). Þingmaðurinn segir þetta ósatt. Eins og glögglega kemur fram í ræðu frsm. allshn. þegar þetta mál var til umræðu í þinginu, hjeldu Seltirningar fast á þessu. Þar kemst hann svo að orði:

„Síðan nefndin skilaði málinu hafa komið tvö erindi til þingsins því viðvíkjandi, annað frá Seltjarnarneshreppi, um að sveitin verði aðnjótandi þeirra náttúrugæða, vatns og raforku, sem Elliðaárnar láta Reykjavíkurbæ í tje. Nefndinni fanst þetta sanngjarnt, þar sem árnar eru teknar úr sveitarfjelagi þeirra og lagðar undir Reykjavík aðallega vegna þessara náttúrugæða, að þeir yrðu ekki útilokaðir frá hlutdeild í þeim, einkum þar sem þeir hafa verið sanngjarnir í fjárkröfum.“

Þetta var því beint skilyrði í samningunum, og það er alveg óviðeigandi að saka formann Íhaldsflokksins um, að hann hafi komið því inn í eiginhagsmunaskyni. Það er raunar rjett, að hann á lítinn landskika við Skerjafjörð. En sá landskiki var alls ekki keyptur til þess að hagnast þar á lóðasölu, heldur í alt öðrum tilgangi. Þegar Jón Þorláksson keypti þennan blett, ætlaði hann ásamt nokkrum öðrum mönnum að koma þar upp skipasmíðastöð. Sú stöð mundi hafa kostað 2–3 milj. kr., en svo mikils fjár tókst þessum mönnum ekki að afla sjer til þess. Og þess vegna varð ekkert úr því, að þeir reistu stöðina. En bletturinn var eigi að síður keyptur í þeim tilgangi. (HV: En þeir hafa selt lóðirnar). Ástæðan til þeirrar sölu er sú, að nýtt fjelag var stofnað, sem ætlaði að reisa stöðina hjer í Reykjavíkurhöfn, en til þess að komast að samningum við eldra fjelagið keypti nýja fjelagið þessar lóðir. En í upphafi voru þær ekki keyptar til þess að seljast aftur, og þegar lögin gengu í gildi 1923, voru þær ætlaðar undir skipasmiðastöð.

Það er alveg ástæðulaust að margendurtaka þau ósannindi, að ýmsir Reykvíkingar skjóti sjer undan gjöldum í bænum, með því að búsetja sig í Seltjarnarneshreppi. Þess munu vera mjög fá dæmi. En ætli menn sjer á annað borð að komast undan gjöldum á þann hátt, eru engin ráð til að afstýra því. Þeir geta alveg eins tekið sjer aðsetur uppi í Mosfellssveit eða uppi undir Esju.

En þó ekki væri annað en það, að hv. flm. þessa frv. hafa vanrækt að leita um það umsagnar og álits viðkomandi hreppsnefndar og sýslunefndar, er það eitt nægileg ástæða til að fella frv. frá nefnd.

Í 3. gr. sveitarstjórnarlaganna frá 1927, þar sem talað er um skiftingu og sameiningu hreppa, stendur svo: „Atvinnumálaráðherra hefir heimild til að skifta hreppi, sameina hreppa og breyta hreppamörkum. Eigi má neina slíka breyting gera, nema eftir beiðni hreppsnefnda þeirra, er hlut eiga að máli, og meðmælum sýslunefndar, nema þegar svo stendur á, sem í 4. gr. segir.“

Nú veit hv. 2. þm. Reykv., að þessi hreppur vill alls ekki sameinast Reykjavíkurbæ.

Hv. þm. átti sjálfur sæti í þeirri nefnd, sem fjallaði um sveitarstjórnarlögin. Þessi nefnd fann ekki ástæðu til að gera nema eina aths. við frv., og sú aths. er einmitt um ágæti 3. gr. Þetta nefndarálit er ekki nema 7–8 línur, og þar er ekki lögð áhersla á nokkurn skapaðan hlut annan en þessa grein frv. Þar stendur: „Um ákvæði 3. gr. um að skifta hreppi, sameina hreppa og breyta hreppamörkum vill nefndin taka það fram, að hún telur, að enga slíka breytingu megi gera, nema allar hreppsnefndir þær, er hlut eiga að máli, sjeu breytingunni samþykkar.“

Hvernig ætlar nú hv. þm. (HV), sem skrifaði undir þetta nefndarálit án fyrirvara, að verja framkomu sína, þegar hann nú heimtar, að hrifsaður sje heill hreppur af Gullbringu- og Kjósarsýslu, án þess að leitað sje samþykkis sýslunefndar, án þess að leitað sje samþykkis viðkomandi hrepps og þó að vitað sje, að báðir þeir aðilar eru þessu mótfallnir?

Þetta er satt að segja ákaflega óskiljanlegt. En ef jeg væri nógu illgjarn, þá gæti jeg farið að líkt og hv. þm. sjálfur og leitað að illum hvötum hjá honum til þessara sinnaskifta. Og mjer kemur skýringin í hug. Til er fjelag, sem heitir „British Petroleum Co.“ og hefir aðsetur í Reykjavík; til er annað fjelag, sem heitir „Shell“ og hefir aðsetur í Seltjarnarneshreppi. Það er ekki alveg óhugsandi, að skattanefndarmaður í Reykjavík, sem jafnframt er þjónustumaður B. P. Co., þykist ekki geta náð nógu vel í hnakkadrambið á keppinaut sínum meðan hann rekur atvinnu utan endimarka Reykjavíkurbæjar. Jeg segi ekki, að þetta sje svo, en jeg mundi gera það, ef jeg væri nógu illgjarn, og þó jeg væri ekki eins illgjarn og hv. þm. er.