26.03.1929
Neðri deild: 32. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 38 í C-deild Alþingistíðinda. (2258)

62. mál, stækkun lögsagnarumdæmis Reykjavíkur

Ólafur Thors:

Jeg tók eftir því, að hæstv. forseti ljet þess ekki getið, að um stutta athugasemd væri að ræða, svo að jeg vona, að hann líti á mig sem einskonar frsm. minni hl., enda þótt málið hafi ekki ennþá farið til nefndar.

Mjer þótti leitt að geta ekki heyrt alla ræðu hv. 3. þm. Reykv. (JÓl), því að jeg veit, að hann muni hafa fært fram skynsamlegri rök máli sínu til stuðnings en hv. 2. þm. Reykv. (HV).

Jeg heyrði þó dálítið brot af ræðu hv. þm., og vil jeg víkja nokkrum orðum að þeim rökum, er hann þar færði fram.

Hv. þm. gat þess, að sú leið, sem flm. hafi valið, væri kannske óheppileg, sú, að allur hreppurinn yrði lagður undir lögsagnarumdæmi Reykjavíkur í einu. Menn hefðu síður veigrað sjer við að láta af hendi nokkurn hluta hreppsins, en því hefðu þeir borið till. sína þannig fram, að síðar myndi koma að því, að allur hreppurinn yrði innlimaður í Reykjavík. Jeg vil biðja alla hv. þdm. að athuga vel þessa umsögn.

Það, sem fyrir Reykjavík vakir, er það, að bærinn vill fá allan þennan hrepp, og flm. hafa verið svo „óhyggnir“ að segja nú þegar hreinskilnislega frá þessu. En nú heyrist mjer þeir hálfsjá eftir hreinskilninni. Það er þess vegna full þörf á því, að þeir, sem vilja vernda hag hreppsins, sjeu nú þegar á varðbergi á þessu stigi málsins. Þá sagði hv. þm. það einnig, að það gæti orkað nokkurs tvímælis, hvort Reykjavík bæri skylda til þess að láta Seltirningum í tje vatn og rafmagn, því að það væri bundið við getu Reykjavíkur. En svo bætti hv. þm. því við, að ef Seltirningar seldu frelsi sitt í hendur Reykvíkingum, fengju þeir þessi rjettindi.

Ef Reykjavík er aflögufær um vatn og rafmagn, vænti jeg, að það verði afhent Seltjarnarneshreppi refjalaust, og víst er um það, að ekki eykst vatn nje rafmagn við innlimun hreppsins. En annars hika jeg ekki við að fullyrða, að Seltirningar vilja heldur vera án þessara rjettinda, sem þeir þó hafa keypt eftir lögunum frá 1923, en að kaupa þau á ný með frelsi sínu.

Jeg skil það vel, að Reykjavík vilji reyna að ná undir sig þeim stað, sem kept getur við hina dýru höfn Reykjavíkur, en jeg skil það líka, að þeir, sem eiga slíkan hafnarstað, vilji ekki láta hann af hendi. Jeg hefi aldrei neitað því, að það sje hagsmunamál Reykjavíkur að innlima þennan hrepp, en það er hagsmunamál Seltirninga að vera óháðir Reykjavík.

Hitt er ekki rjett, að Reykjavík veiti Seltirningum alt viðurværi, annað en landbúnaðurinn lætur þeim í tje. Eitt útgerðarfjelag, „Kári“, hefir bækistöð sína í hreppnum og gerir út 3 togara. En það fjelag á ekki fremur skylt við Reykjavík en aðra landshluta. Jeg geri heldur ekki ráð fyrir því, að atvinna frá öðrum fjelögum, sem annars hafa aðsetur sitt í Reykjavík, sje frá Reykjavík tekin.

Þá gat hv. þm. (JÓl) þess, af meðfæddri sanngirni sinni, að Reykjavík yrði að sjálfsögðu að borga sýslunni ríflega upphæð, — og fer sú upphæð vaxandi, eftir því sem skiftin dragast, bætti hann við. Þetta er rjett, og það er því út af fyrir sig hagsmunamál sýslunnar, að skiftin fari sem seinast fram, en mín krafa er sú, að þau fari aldrei fram.

Hv. þm. lauk máli sínu þannig, að allir væru sammála um það, að nauðsynlegt væri, að þessi skifti fari fram fyr eða síðar.

Nei, svo er ekki; það er hagsmunamál Reykjavíkur, en það er gegn hagsmunum Seltirninga, að þessi innlimun fari fram.

Jeg hefi verið nokkuð fjölorður um ræðu hv. 3. þm. Reykv. og rök hans, en jeg get orðið fáorður um ræðu hv. 2. þm. Reykv. (HV), því að þar var fátt um rök, eins og jeg hafði líka væntst.

Hv. þm. sagði, að læðst hefði verið aftan að Reykvíkingum og kröfunni um vatn og rafmagn hafi verið „lætt“ inn í lögin frá 1923. — Seltirningar settu þetta sem skilyrði, og gekk Reykjavík að því. Reykvíkingum var í sjálfsvald sett að hafna kostunum, ef þeim þóttu þeir óaðgengilegir.

Þá sagði hv. þm. í síðustu ræðu sinni, að sjer hafi ekki verið kunnugt um, að formaður Íhaldsflokksins hafi átt land í Skildinganesi, en áður hafði hann sagt, að formaðurinn hafi lætt ákvæðinu um vatn og rafmagn inn í lögin í eiginhagsmunaskyni. — Það er ekki nýtt, að þessi hv. þm. beri slíkar sakir á andstæðingana, gersamlega út í bláinn.

Jeg get verið fáorður um það, sem hv. þm. sagði um útsvör Kveldúlfsfjelagsins. Aðeins vil jeg geta þess, að það væri gróði fyrir það fjelag, að innlimun færi fram, því að jeg veit, að í Reykjavík eru lögð útsvör á fjelagið í einu lagi, líka á starfsemi þess í Seltjarnarneshreppi. Hitt skal jeg játa, að jeg hefi ekki kynt mjer lagafyrirmæli í þessum efnum, enda hefi jeg ekki sömu ríku löngun til þess að koma mjer undan útsvörum og umboðsmaður British Petroleum, hv. 2. þm. Reykv. Hann, sem var að nauða og nauða á því við hlutaðeigandi yfirvöld að fá útsvarið minkað, þangað til hann fjekk það lækkað ofan í 1/3. (HV: Hjá hvaða yfirvöldum?). Jeg veit ekki, hvort það var hjá bæjarstjórn eða niðurjöfnunarnefnd, en hitt er víst, að hann var þangað til að nauða á þessu, að hann gat haft 7–8 þús. kr. af íslenskum hagsmunum til handa erlendu fyrirtæki, sem hann er ætíð reiðubúinn að þjóna eftir bestu getu.

Hv. 1. þm. Reykv. (MJ) studdi hv. 2. þm. Reykv. (HV) og hjelt því fram, að ósæmilegt væri að vísa málinu eigi til nefndar.

Í 42. gr. núgildandi sveitarstjórnarlaga er sýslum og hreppum trygður umsagnarrjettur, áður en löggjafinn kveður upp úrskurð um slík skifti. Ennfremur eru í 3. gr. sömu laga ströng ákvæði um, að skiftin megi ekki fara fram nema hlutaðeigandi hreppsnefndir sjeu breytingunum samþykkar. Og í nál. á þingskj. 155 frá í fyrra segir svo, með leyfi hæstv. forseta: „Um ákvæði 3. gr. um að skifta hreppi, sameina hreppa og breyta hreppamörkum, vill nefndin taka það fram, að hún telur, að enga slíka breytingu megi gera, nema allar hreppsnefndir þær, er hlut eiga að máli, sjeu breytingunni samþykkar.“ Þetta var álit hv. 2. þm. Reykv. í fyrra, áður en hann fór að hlaupa erinda Reykjavíkurbæjar. Og þegar ákvæði laganna eru svo ströng, er þá ekki ósæmilegt að flytja slíkt frv. sem þetta inn í þingið, án þess að hafa svo mikið sem leitað umsagnar hlutaðeigandi sýslu og hrepps?

Annars eru öll rök gegn þessu máli, og þau hafa nú verið borin fram af hv. þm. Mýr. (BÁ) og mjer, skýr og tvímælalaus, og sje jeg ekki ástæðu til þess að endurtaka þau.