26.03.1929
Neðri deild: 32. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 50 í C-deild Alþingistíðinda. (2261)

62. mál, stækkun lögsagnarumdæmis Reykjavíkur

Flm. (Hjeðinn Valdimarsson):

Það er ekki margt, sem jeg þarf að svara hv. 2. þm. G.-K. Hann sagði fyrst, að Seltirningar hefðu sett skilyrði um það, að þeir fengju rafmagn og vatn, og Reykvíkingar gengið að þeim áður en lögin voru samþ. Jeg hrakti það fyrir honum með því að vísa í orð borgarstjórans í Reykjavík, sem jeg veit, að hann muni standa við og hv. þm. hlýtur að trúa, þó að hann rengi orð mín, sem þó var í bæjarstjórnarnefndinni, sem um þetta fjallaði, og fylgdist altaf með málinu.

Í öðru lagi vísaði jeg í nál. í þessari deild, sem sýnir glögt, að þessi ákvæði voru sett eftir á, án samþykkis Reykvíkinga hjer á þingi, og raunar, að fullkomið samþykki Seltirninga fjekst fyrst á þinginu, — þó að það væri á undan vatns- og rafmagnsgjöfinni. Svo að það mætti svara hv. þm. Mýr. því, að það er ekki fremur komið með þetta mál óundirbúið nú heldur en það var þá, og þótti þó gott þá. En þá var þetta eina veika hálmstrá hjá hv. þm., sem hann hjekk í, — að Reykvíkingar hefðu gengið að þessum skilyrðum með lögum. Ætlar hv. þm. að fara að prjedika, að menn eigi ekki að hlýða lögum landsins? Jeg hugði annars, að hann mundi einmitt vera vanastur því að hrópa: „lögin í gildi“, hvað sem hann svo gerir í kyrþey. Lögin nr. 46 frá 20. júní 1923 eru alls ekki heimildarlög. Þau fyrirskipa, að þessar jarðir sjeu lagðar undir Reykjavíkurumdæmi, fyrirskipa að greiða ákveðna upphæð fyrir þær, fyrirskipa um vatn og rafmagn. Svo að eina ráðið, sem hv. þm. hefir til að svara þessu, er að segja, að Reykvíkingar hefðu átt að gera upreist móti lögunum og neita að hlýða þeim. Þetta er eins og hver önnur vitleysa hjá hv. þm., sem að vísu sýnir vilja hans til að vinna þessu mikilsverða máli Reykvíkinga ógagn, en ber hinsvegar ekki sömu merki um vitsmuni hans.

Þá kvað hv. þm. mig hafa sagt, að það væri skiljanlegt, að formaður Íhaldsflokksins hefði komið með þessi skilyrði, vegna þess að hann hefði átt land í Skildinganesi þá. Þetta sagði jeg aldrei, heldur hitt, að það væri einkennilegt, að hann væri einn af þeim mönnum, sem stofnuðu fjelag til þess að selja lóðir í Skildinganesi og græða á sölu þeirra, í ljósi þess, að hann hefði borið þessa undanþágu fram, beint á móti vilja kjósenda sinna, Reykvíkinga. En það upplýsti hv. þm., að hann hefði átt landið fyrir þann tíma, og þetta gerir alt málið eðlilegt og skiljanlegt.

Hv. þm. blandaði mjer nokkuð persónulega í þetta og fór á sama hundavaði þar eins og í öðru. Fyrst, að jeg hefði kært fyrir „British Petroleum“. Jeg hygg, að hann verði að taka það aftur, eins og fleira fleipur, sem hann hefir eftir blaðasnápum íhaldsblaðanna. Útsvarið var borgað, og hefir aldrei heyrst, að það hafi verið kært á neinn hátt. Ef hann hefði kynt sjer málið, — en það vil jeg ráðleggja honum yfirleitt framvegis að gera um mál, sem hann vill ræða, — þá hefði hann átt að vita, að það fjelag, sem jeg mundi kæra fyrir, væri fjelagið, sem jeg veitti forstöðu, sem er algerlega íslenskt fjelag. Á „British Petroleum Co.“ var lagt 3 þús. kr. útsvar, en á það fjelag, sem jeg veiti forstöðu, 10 þús. kr. Hinsvegar var lagt 1 þús. kr. útsvar á umboðssölufjelag „Shell- fjelagsins“ hjer í bænum, Olíusöluna, og þótti engum mikið, að 10 þús. kr. væru bornar saman við það útsvar. Það útsvar var eftir kæru lækkað niður í eitt þús., en hitt niður í 4 þús. — Jeg tek þetta fram aðeins til að sýna, hvað þessi hv. þm. veit lítið um það, sem hann er að fara með hjer í hv. deild, og hvernig hann blandar öllu saman og gerir úr einn graut í hv. þingmannsheila sínum.

Hann gat þess af miklum þjósti, að ekki kærði hann útsvar fyrir „Kveldúlf“. Ekki er að undra það. Á síðustu árum er það ávalt svo, að fjöldi borgara hjer í bæ bera sig saman við „Kveldúlf” og vilja fá hækkað á fjelaginu í samanburði við sig. Enda vita allir, að hv. þm. hefir komið þannig fyrir sínum fjelagsskap, — jeg segi ekki á ólöglegan hátt — að „Kveldúlfur“ hefir ekki í fleiri ár borgað tekjuskatt, þó að hann hafi grætt. Að koma fjelaginu þannig fyrir, er hyggilegt af hv. þm. og þeim, sem með honum eru, en það sýnir ekki sjerstaklega mikla löngun til að greiða í ríkissjóð meira heldur en vera ber, nje jafnvel það, sem eðlilegt væri.

Þá fór hv. þm. (ÓTh) að tala um fulltrúa erlends auðvalds. Hv. þm. má athuga það, hvort hann er ekki sjálfur fulltrúi erlends auðvalds. Hann er umboðsmaður fyrir stórt erlent auðvaldsfjelag, Hellyers-bræðra í Hafnarfirði, og hefir alloft komið fram fyrir þeirra hönd hjer á landi, og þeir fyrir hann erlendis. Og ef slíkt er skömm, þá hygg jeg, að hún sitji helst á honum sjálfum.