26.03.1929
Neðri deild: 32. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 53 í C-deild Alþingistíðinda. (2262)

62. mál, stækkun lögsagnarumdæmis Reykjavíkur

2262Ólafur Thors:

Það er ekki að mínum vilja, að persónulegar umræður hafa dregist inn í málið. Hv. 2. þm. Reykv. (HV) hefir á mjög óviðeigandi hátt byrjað á þeim, og vil jeg sýna honum aðeins lítinn lit á að svara.

Það er ekki rjett, að jeg hafi umboð fyrir neitt auðfjelag, hvorki Hellyers- bræður nje aðra.

Það er heldur ekki rjett, að „Kveldúlfur“ hafi ekki borgað tekjuskatt á undanförnum árum. Í fyrra voru það 10 þús. Upp í 100 þús. hafa það orðið í einstökum árum.

Jeg sagði, að hv. þm. hefði kært útsvar „British Petroleum“. Ef til vill hefir hann ekki beint kært útsvar B. P., en hann hafði í hótunum á fundi niðurjöfnunarnefndar. En það er rjett, að hann kærði útsvar fyrir olíuverslunina, sem hann veitir forstöðu. Á hana voru lagðar 10 þús. kr. í útsvar, en niðurjöfnunarnefnd færði það niður í 8 þús. kr. Hann ljet sjer það ekki lynda og kærði enn, svo að það var fært niður í 4 þús. Syndin, sem jeg drýgði, er að rugla saman hv. þm. og fjelaginu, sem hann er umboðsmaður fyrir. Þetta er nú engin höfuðsynd, því að jeg rengi ekki, að hann eigi „Olíusöluna“. Og það getur verið, að hann eigi líka eitthvað í „British Petroleum“. Jeg er nefnilega ekki sammála manninum, sem þótti svo undarlegt, hvernig þessi hv. þm. hefði eignast peninga. Hann sagði frá því í opinberum fyrirlestri nýlega, að ef einhver spyrði sig um fjárhag þessa þm., þá væri hann vanur að svara eins og strákurinn, sem presturinn spurði að því, hvað hann vissi og hvað hann vissi ekki: „Jeg veit, að svínin malarans eru feit, en á hvaða korni þau fitna, það veit jeg ekki.“ En jeg veit, hvaðan hv. 2. þm. Reykv. kemur fje. Hann er mjög harðdrægur fjármálamaður, — og er jeg þó ekki að efast um, að hann auðgist á heiðarlegan hátt.

Syndin, sem jeg hefi þá drýgt, er sú, að blanda saman að ofurlitlu leyti honum sjálfum og fjelögunum, sem hann ýmist á eða er umboðsmaður fyrir. Jeg veit, að honum er illa við, að þetta sje gert að umræðuefni; en eftir atvikum er hann þó vel að því kominn.