15.03.1929
Neðri deild: 23. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 59 í C-deild Alþingistíðinda. (2274)

46. mál, fyrning skulda

Halldór Stefánsson:

Þetta frv. hefir ekki átt því láni að fagna að fá stuðning nefndar. Hv. allshn. legst enn, eins og fyr, þegar málið hefir verið fyrir henni, einróma á móti því.

Mjer þykir þetta mjög leitt, ekki sjálfs mín vegna, heldur vegna málsins, því jeg álít, að það eigi skilið miklu meiri athygli og betri skilning heldur en hv. n. hefir veitt því. Vil jeg benda á það, að þótt hv. n. kunni að vera óánægð með einhver atriði í frv., þá hefði hún, ef hún hefði viljað sinna málinu frekar, átt að bera fram brtt. eða nýjar till., þar sem hún bæði í nál. sínu og sömuleiðis hv. frsm. hennar nú hefir viðurkent, að tilgangur frv. myndi vera góður og að með samþykt frv. myndi verða nokkur árangur í þá átt, að þessi góði tilgangur náist.

Í ræðu hv. frsm. komu ekki fram neinar aðrar ástæður gegn frv. en þær, sem færðar hafa verið áður í nál., svo að jeg get í því, sem jeg segi, í einu svarað því, sem stendur í nál., og ræðu hv. frsm. n. Jeg ætla þá að víkja að andmælum hv. n. og hv. frsm. til samans.

Það er þá fyrsta ástæðan, að þeir aðilar, sem þetta frv. tekur til, hafi ógreiðan aðgang að lánum. Jeg neita þessu eindregið. Hjer ræðir aðeins um viðskiftalán til eigi lengri tíma en eins árs, og það er alkunnugt, að verslanir eru mjög fúsar á að veita þau lán. Reynslan mótmælir algerlega þessari ástæðu hv. nefndar, því að það mætti frekar segja, að menn hefðu of greiðan aðgang að lánum. Jeg tel ekki holt eða hentugt, að menn hafi greiðari aðgang að slíkum lánum en svo, að þeir sjeu færir um að greiða þau aftur.

Hv. frsm. vjek að sjerstöku atriði í þessu sambandi og sagði, að margir hefðu ógreiðan aðgang að lánsstofnunum þessa lands. Það er svo, að menn hafa það sumir, en með tveimur frv., sem nú liggja fyrir þessu þingi og öll von er um að gangi fram, er ráðin bót á því. Hv. n. hefir tekið þessa ástæðu óbreytta upp frá í fyrra og tekur ekki tillit til breyttra ástæðna, og jeg get bætt því við, að þegar aðeins er um viðskiftalán að ræða fyrir ársþarfir, þá er það engin brýn nauðsyn að hafa aðgang að sjerstökum lánsstofnunum. Hafi aðilar fengið slík lán hjá viðskiftaverslun sinni, sem ekki er ætlast til að þeir greiði á einu og sama ári, hefðu þeir vitanlega átt að fá þau lán hjá öðrum lánveitendum, og eftir þeim frv., sem nú liggja fyrir þessu þingi, ef þau ná fram að ganga, þá hafa menn rjett og möguleika, svo sem hægt er að veita, til allra tegunda slíkra lána.

Þá segir hv. n., að þetta mundi verða skaðlegur hemill á lánstraust. En hv. frsm. mótmælti þessu í raun og veru sjálfur í ræðu sinni, og jeg neita því einnig, því að hjer er um að ræða aðeins viðskiftalán, sem engin tregða hefir verið á að fá. Höfuðskilyrði allrar efnalegrar afkomu er að eyða ekki meira en aflað er. Það skiftir ekki mestu máli, hvort menn hafa miklar eða litlar tekjur, heldur hitt, að menn láti tekjur sínar hrökkva. Það getur náttúrlega verið vandi að láta litlar tekjur hrökkva fyrir öllum útgjöldum sínum, og jeg játa, að það getur verið mörgum fullörðugt, þó góður vilji sje til að leitast við að gera svo. Gamalt mál segir, að það sje jafnan erfiðara að borga gamla skuld, þegar hún er krafin, en að forðast að mynda hana. Og Ríkarður snauði (þ. e. Benjamín Franklín) segir, að betra sje að ganga svangur en skuldugur til sængur. Jeg álít, að ekki þurfi að taka þessi orð alveg bókstaflega, þó að jeg vitni til þeirra, því að það er vitanlegt, að löngunin, ef eftir henni er látið og tískan krefur meira en þess, sem hægt er að undirskilja, til þess að hægt sje að segja, að menn gangi ekki svangir til sængur, hún krefur meira en brýnustu lífsnauðsynja. — Þessi ástæða hv. n. er því eins og þær tvær aðrar, sem hún hefir borið fram, öfugmæli; það væri alveg rjett að snúa henni við.

Þá kemur sú ástæða hv. n., að óeðlilegt sje, að frábrugðnar reglur gildi um þetta hjer við það, sem er í nálægum viðskiftalöndum. Hv. frsm. dvaldi nokkuð við þetta atriði; veit jeg ekki, hvort heldur á að telja slíkan hugsunarhátt undirlægjuskap eða tylliástæðu. Jeg veit ekki, segi jeg, hvort það þykir ennþá ástæða til að „dependera“ í öllu eftir útlendum fyrirmyndum, eins og okkur hefir verið brugðið um á stunduin, en ef þetta er ekki ástæðan, þá er þetta tylliástæða, því að viðskiftum í milli landa er alt öðruvísi háttað heldur en þeim viðskiftum við smásöluverslanir, sem ákvæði frumvarpsins myndu helst ná til. Vöruviðskiftum við útlönd er alt öðruvísi varið; annaðhvort greiddar við móttöku varanna, eða vörurnar sendar gegn bankaábyrgð, samþyktum víxli eða með sjerstökum, stuttum gjaldfresti, og þegar lán eru fallin í gjalddaga eftir þessum aðalreglum, þá er strax tækifæri til að krefja þau inn. En ef væri um aðrar viðskiftavenjur milli landa að ræða en þessar, ef um ótímabundin lán væri að ræða, þá tel jeg það óeðlilegt og óholt, og teldi jeg ekki vera nema sjálfsagt og gagnlegt að takmarka þau.

Jeg kannast við, að það hefir verið sagt, að Íslendingar reyndust ekki skilamenn í viðskiftum, en það hlýtur þá að vera með lán, sem veitt eru á þennan óeðlilega hátt; jeg held því — eins og fyr var sagt —, að gagnvart útlöndum geti einmitt verið gagnlegt að hafa þessi ákvæði.

Þá segir hv. n., að það sje óviðurkvæmilegt, að viðurkenning skuldar slíti ekki fyrningu hennar. Þetta getur vel verið. Reyndar játa jeg það ekki, en það kemur alls ekki þessu frv. við, því að hjer er ekki um neinn algeran mun að ræða á þessu og því, sem nú gildir; munurinn aðeins sá, að eftir frv. mínu þarf styttri tími að líða, þar til viðurkenning slítur fyrningu. Jeg verð því að snúa þessum ummælum hv. n. upp á gildandi lög, ef þau eiga að gilda um frv. mitt. Þau eru því markleysa tóm.

Loks segir hv. nefnd, að það sje ósamrýmanlegt grundvallarreglum laga. Jeg skal nú játa það, að jeg veit ekki vel, hvað nefndin á við með þessu, og gat heldur ekki skilið það af því, sem hv. frsm. sagði, en jeg skal geta þess, að jeg hefi notið hjálpar lögfræðings við samningu þessa frv., og leit hann ekki svo á, að það kæmi neitt í bág við gildandi reglur, og í raun og veru skilst mjer, að hjer sje um hið sama að ræða og í næsta atriði á undan. Hjer er enginn „princip“- munur, heldur aðeins stigsmunur á því, sem gildir, svo að þessi ummæli n. eiga þá ekki heldur við.

Frv. mitt er, eins og jeg hefi getið um áður, bygt á þeirri sannfæringu, að þær fyrningarreglur, sem gilda um þessa tegund lána, eigi mikla sök á þeirri skuldasöfnun, sem er svo illa ræmd. Hv. n. er mjer sammála um þetta, og vil jeg þá víkja nokkru nánar að því. Fyrningarákvæðin eru sem sje þannig, að þau ginna báða aðilja, bæði kaupanda og seljanda. Vegna fyrningarákvæðanna má vera, að kaupandi láti til leiðast að treysta á fremsta hlunn um gjaldgetu sína, en afleiðingin verður sú, að hann getur ekki staðið í fullum skilum, ef þá er vonir bregðast. Sama má segja um seljanda. Vegna þessara löngu fyrningarákvæða má vera, að hann hyllist til að láta meira af hendi við kaupanda en hann er fær um að borga á sama ári. Og þar sem verslanir hafa í mörgum tilfellum fleiri vörutegundir en nauðsynjavörur, og um slíkar vörur mun það yfirleitt vera svo, að lagt sje heldur ríflegar á þær heldur en nauðsynjavörur, þá er skiljanlegt, að seljandi hafi meiri áhuga á að koma þeim út en hinum, í von um, þar sem fyrningarfresturinn er svo langur, að það kunni að greiðast síðar, þótt það verði ekki greitt á gjalddaga. Vegna fyrningarákvæðanna láta báðir það gott heita, þótt greiðsla farist fyrir á gjalddaga, og vilja bíða betra færis, sem kemur svo ef til vill aldrei.

Með ákvæðum laganna um, að skuld fyrnist ekki meðan viðskifti aðilja halda áfram, þá getur skuld orðið 20 ára gömul, eða enn eldri, án þess að fyrnast. Þess þekkjast dæmi víða um land, að gengið er að mönnum, svo þeir verða að taka brauðið frá munni sínum og barna sinna, til að standa við 20 ára gamlar skuldbindingar, sem ef til vill var stofnað til í upphafi fyrir óþarfavarning. Það er einkennilegt við þessi ákvæði laganna, um að framhaldandi viðskifti slíti fyrningu, að fyrningarfrestur slíkra skulda verður í raun og veru miklu lengri en ýmsra annara, sem þó er ætlaður lengri fyrningarfrestur í lögunum. Jeg legg meira upp úr þessu atriði frv., að framhald viðskifta verði ekki látið slíta fyrningu, en hinu, að fá fyrningarfrestinn styttan. Það er ekki fyrir það, að jeg viðurkenni ekki, að rjett myndaðar skuldir eigi rjett á sjer. En þessum skuldum er veittur of mikill rjettur með ákvæðum fyrningarlaganna. Þeim er gefinn meiri rjettur en lífsframfærslunni á líðandi tíma. Og það tel jeg að gefa þeim of mikinn rjett.