15.03.1929
Neðri deild: 23. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 67 í C-deild Alþingistíðinda. (2276)

46. mál, fyrning skulda

Halldór Stefánsson:

Það hefir ekki mikla þýðingu að vera að karpa um þetta við hv. frsm. Jeg býst ekki við, að við getum orðið sammála.

Það er satt, að jeg gleymdi að minnast á þá röksemd hv. frsm., að stytting fyrningarfrestsins myndi verða vatn á myllu lögfræðinganna, í fyrri ræðu minni. Þetta kann að verða vatn á þeirra myllu rjett í bili. En í framtíðinni yrði það áreiðanlega til þess, að þeir hefðu minna að gera, vegna þess að skuldasöfnun yrði minni. Breytingin myndi valda því, að báðir aðilar verða að viðhafa meiri gætni í skiftum sínum, og að þeim skuldum, sem mynduðust, yrðu þeir að koma undir önnur fyrningarákvæði. Það gætu þeir gert t. d. með víxli eða samningi, og ætti 1 ár að vera nægur tími til þess. — Það er alveg rjett, að ríkið á að vernda lánstraustið manna á milli, en innan skynsamlegra takmarka þó. Spurningin er um það, hvort t. d. 20 ára gamlar skuldir eigi meiri rjett á sjer en nauðsynlegt framfæri lífsins. Jeg vil ekki, að menn sjeu að stofna til skulda og leggja það í skaut framtíðarinnar, hvort þeir geta goldið þær eða ekki. Þennan vatnsgrautarhugsunarhátt hafa fyrningarlögin alið upp í mönnum, og sá sami hugsunarháttur ríkir í nefndinni. Get jeg því ekki vænst þess, að hún líti öðruvísi á málið.