20.03.1929
Efri deild: 27. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 75 í C-deild Alþingistíðinda. (2281)

78. mál, einkasala á nauðsynjavörum

Jón Þorláksson:

Jeg þykist vita, að bræður hv. flm. í bandalaginu sýni honum þá kurteisi að lofa þessu máli að fara til nefndar, og hefði jeg þess vegna getað geymt mjer að segja nokkuð um það. En af því að hv. flm. flutti hjer mikla og hjartnæma ræðu, kann jeg ekki við, að ekki sjáist annað en hans ummæli um þetta mál.

Hv. flm. fór mörgum hjartnæmum orðum um hafísahættuna, sem sífelt vofði yfir okkur Íslendingum, og tók það rjettilega fram, að ekki þarf að draga upp mynd af henni fyrir þeim, sem nú eru yfir fimtugt og uppaldir á Norðurlandi. Þó má um hafísahættuna segja, að viðhorf hennar er sem betur fer töluvert annað nú en var á milli 1880 og 1890. Í fyrsta lagi má nú gera sjer fylstu vonir um, að mikil ísalög komi ekki landsmönnum alveg að óvörum, eftir allar þær framfarir í veðurfræði, sem orðið hafa á síðari árum, og daglegar upplýsingar um veðráttu og ísalög annarsstaðar frá. Ennfremur hefir samgöngutækjum farið mikið fram, bæði skipum, sem sjerstaklega er ætlað að glíma við þennan vágest, ísinn, og einnig öðrum samgöngutækjum, bæði á landi og í lofti. Norðurland er því ekki öldungis eins einangrað og afskorið frá samgöngumöguleikum og það var fyrir 40 árum.

Þrátt fyrir þetta skyldi jeg ekki með einu orði leggja á móti skynsamlegum ráðstöfunum til þess að tryggja Norðurland gegn skorti á nauðsynlegum vörutegundum, þegar hafís hindrar samgöngur. En mjer finst það bera vott um undarlegan hugsunarhátt, að fara fram á, að úr slíkri samgönguhindrun verði bætt með því að leggja á annað bann, sem sje lögbann á aðflutningi á þessum nauðsynjavörum. Samkv. frv. því, sem hjer liggur fyrir, á að heimila sýslunefndum að banna þeim, sem fást við innflutning á matvörum, að halda því áfram. Mjer finst þessi hugsunarháttur í raun og veru vera líkastur því, sem við Íslendingar áttum að venjast á sömu öldunum og hafísahættan var mest, nefnilega 17. og 18. öld. Þá voru meira að segja til menn, sem hjeldu, að það væri fyrsta fangaráðið til þess að bjarga mönnum frá því að verða herfang hungursins að banna þeim að fást við að reka verslun eða flytja hingað afurðir. Þeir hugsuðu sem svo: Þessir menn úti á ströndunum eru svo miklir aumingjar, að það er óhugsandi annað en að þeir deyi úr hungri, ef þeim er leyft að fást við það sjálfum að útvega sjer björg. Jú, þessi einangrun var sett í byrjun 17. aldar og eftir á bar mest á hafísahættunni. Og af hverju? Af því að mannfellir var mestur þá, þegar lögbann á aðflutningi nauðsynjaafurða bættist við þrengingar hafisanna. Nú kemur hv. þm. Ak. og þykist vilja fara þessa gömlu leið einokunarkonunganna frá dögum Kristjáns IV. og næstu alda þar á eftir og ráða bót á hafísahættunni með því að banna með lögum, að menn fáist við að flytja inn matvörur. Við þekkjum mörg dæmi þess, að trúarofstæki hefir blindað svo augu manna, að þeir sáu ekki hinn einfaldasta sannleika. Jeg skil þetta frv. svo, að oftrú hv. flm. á ríkisrekstri hafi blindað hann svo, að hann sjer ekki þann einfalda sannleika, að fyrsta leiðin til þess að afla sjer nauðsynja er sú, að ekki sje bannað með lögum að afla þeirra á heiðarlegan hátt.

Jeg hugsa, að hv. d. muni styðja að þessu máli, en jeg sje enga ástæðu til þess að greiða fyrir tillögum, sem stefna í öfuga átt við þann lofsverða tilgang, sem hv. flm. segir, að fyrir sjer vaki. Það má líka benda á, að það munu nú þegar vera í lögum allmiklar heimildir til þess að gera ráðstafanir í þá átt að fyrirbyggja fóðurskort í harðæri. Það er alkunnugt, að eins og búskap manna er nú háttað, bitnar fóðurskortur í hafísaárum fyrst og fremst á búpeningi landsmanna, en hinsvegar hefir löggjöfin fyrir löngu heimilað ráðstafanir til tryggingar því, að í ísaárum sjeu til nægar fóðurbirgðir handa búpeningi. Þegar svo árar, að nota þarf kornmat handa búpeningi, fara svo miklu meiri kornbirgðir til þess en handa mannfólkinu, svo að ef unnið er að því að tryggja búpeningi fóður, er líka um leið sjeð fyrir því, að ekki þarf að vera hungur manna á meðal af kornmatarleysi.

Allar ráðstafanir í þá átt að tryggja einhvern viðauka við innflutning þann, sem annars er, það er sú skynsamlega leið til þess að fyrirbyggja fóðurskort. En trúin hefir blindað hv. flm. svo, að hann byrjar sínar umbótatillögur á því að áskilja, að lögleitt verði bann gegn því, að þeir, sem flytja inn nauðsynjar, fái að halda því áfram. Til þess get jeg ekki ljeð mitt fylgi.