20.03.1929
Efri deild: 27. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 81 í C-deild Alþingistíðinda. (2283)

78. mál, einkasala á nauðsynjavörum

Jón Þorláksson:

Það gladdi mig að heyra á síðustu ræðu hv. flm., að hann er nú byrjaður að flýja frá sínu eigin frv. Hann sagði, að ekki ætti að banna öðrum innflutning á nauðsynjavörum, sem rætt er um í frv., nema það væri áður sannprófað, að nægilegar birgðir væru ekki til á staðnum. (EF: Væru til). Já, hv. flm. sagði, að innflutningur yrði ekki bannaður, nema það sannaðist, að nægar birgðir væru ekki fyrirliggjandi. En mjer er spurn: Er nokkur vörn gegn hafíshættunni í því, að banna innflutning á nauðsynlegum vörum, þegar nægilegar birgðir eru til fyrirliggjandi í landinu? Það gleður mig, að hv. flm. vill gjarnan breyta þessu. En það stendur í frv., hvort sem það er lesið áfram eða aftur á bak, frá byrjun til enda eða frá enda til upphafs. Það stendur nálega í öllum greinum þess, og jeg get gripið niður í því hvar sem er. Í 4. gr. segir svo: „Þegar bæjarstjórn eða sýslunefnd hefir með samþykt ákveðið að annast innflutning og sölu nauðsynjavara, er öllum öðrum bannaður innflutningur á þeim vörum til bæjarins eða sýslunnar, meðan samþyktin er í gildi. Á öðrum stöðum er komist svo að orði, að fyrst þurfi að rannsaka, hvort nægilegar vörubirgðir sjeu til, og þá er ætlast til, að samþyktin sje ekki notuð, nema vöruskortur sje. Og ef komist verður að raun um það að haustinu í einhverjum kaupstað, t. d. á Akureyri, að ekki eru fyrirliggjandi nægilegar vörubirgðir til fardaga, þó að þar sje myndarlegt kaupfjelag, sem hv. flm. veitir forstöðu, og annað ennþá stærra, og svo margir kaupmenn, þá á bæjarstjórnin að grípa til þessarar heimildar. Ber því að láta slíka athugun fram fara á hverju hausti; og ef rannsókn bæjarstjórnar leiðir í ljós, að vörubirgðirnar eru ekki nógar, þá grípur hún til heimildarinnar um að láta bæjarfjelagið taka einkasölu á nauðsynjavörum, bannar svo öllum öðrum innflutning á þeim, líklega til næstu fardaga, en um það er ekkert skýrt fram tekið í frv.

Jeg vona, að þó að hv. flm. vildi eigi opinberlega viðurkenna það áður, þá hafi jeg nú með þessari ræðu getað komið því inn í huga hans, að það sje ekkert ráð til að bæta úr vöruskorti, að banna öðrum að gera það en þeim sjerstöku stofnunum, sem samkv. þessu frv. verður falin forsjá þeirra mála.

Önnur atriði í ræðu hv. flm. læt jeg mig litlu skifta. Menn vita nú miklu meira en áður um ísrek í höfunum; og veðurskeytin, sem segja fyrir um frosthörkur og stefnur loftstrauma, berast nú daglega um alt land og eru fljótari í förum en ísinn.

Þá var hv. flm. að tala um vöruflutninga með flugvjelum til Norðurlands, en það nefndi jeg ekki sjerstaklega. Hann sagðist hafa mjög mikla ánægju og skemtun af að sjá það eftir mig í þingtíðindunum, að jeg gerði ráð fyrir slíkum flutningum. En jeg bið hann að gleðjast ekki alt of mikið yfir því, þó að jeg hafi árið 1929 ymprað á því, að ef til vildi gæti það komið til mála að halda uppi flutningum með flugvjelum. Jeg er gróflega hræddur um, að ánægjan muni verða mín megin, en ekki hans megin, yfir þeim dómi, sem framtíðin kann að kveða upp um þessa spá mína um flugvjelaflutninga.

Hv. flm. talaði um ísbrjóta og gerði lítið úr þeim. Það má hann gjarnan fyrir mjer. En það er stórkostlegur munur á því, að halda uppi siglingum með þeim flutningatækjum, sem nú tíðkast, eða seglskipunum, sem fluttu vörur til Norðurlands á harðindaárunum 1881–89.

Að síðustu mintist hv. flm. á það, að hættan af flutninga- og vöruskortinum kæmi mest niður á íbúum kaupstaða og sjávarþorpa. Þetta gæti verið rjett, ef kornforðabúr væri á öðrum stað en í sjávarþorpi. En að undanteknu einu hjeraði hagar svo til, að kornforðabúr búfjenaðar í sveitum getur á sömu stöðum orðið forði handa fólkinu. Þannig er því t. d. háttað á Akureyri þar sem hv. flm. stýrir sjálfur kaupfjelagi.