20.03.1929
Efri deild: 27. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 83 í C-deild Alþingistíðinda. (2284)

78. mál, einkasala á nauðsynjavörum

Flm. (Erlingur Friðjónsson):

Jeg tók ekki eftir því, að hv. 3. landsk. var setstur niður, og var því nærri búinn að sleppa tækifærinu til þess að svara honum. Annars tel jeg ekki þörf á að erta hann með langri ræðu. Hv. þm. var eitthvað að hafa eftir mjer mismæli, sem mjer hafði orðið á í fyrri ræðu minni, og ann jeg honum vel frægðarinnar af þeim orðaleik. — Þá var hann að tala um flótta minn frá frv. En hann hefir ekki síður lagt sjálfur á flótta frá fyrri ræðu sinni, þó að hann reyni ennþá að hanga í 4. gr. frv., en samkvæmt henni er að vísu öðrum bannað að flytja inn nauðsynjavörur en þeim, sem samþyktin veitir heimild til á meðan hún er í gildi. (JÞ: Jeg gat líka vísað í 6. gr. frv.). Þegar búið er að ákveða með samþykt, að bæjar- eða sýslufjelög taki í sínar hendur innflutning á nauðsynjavörum, þá er öðrum bannað það eftir ákvæðum 4. gr. og fleiri gr. frv.

Jeg held, að hv. 3. landsk. hafi hugsað, að hann gæti komið mjer á óvart með einhverja sjerstaka speki, með því að reyna að teygja og snúa út úr orðalagi 4. gr. (JÞ: Jeg gat líka lesið 6. gr. frv. fyrir hv. flm.). Ef við hv. 3. landsk. eigum eftir að vera lengi saman hjer í þessari hv. deild, þá ætla jeg að vona, að við getum hallað vöngum hvor framan í annan, sitt á hvað, út af þessu máli og öðrum. — Ójá, hv. 3. landsk. var líka talsvert spekingslegur, þegar hann var að tala um, að veðurspárnar gætu nú orðið aðvarað menn um frosthörkurnar og hafísinn. Jeg verð nú að segja, að mjer finst þetta ekki mikil speki. Jeg vil þá minna á það, sem Þorvaldur Thoroddsen segir, að þó að hafísinn sje stundum talsvert lengi á leiðinni hingað til lands, þá hefir hann oftast komið hingað öllum að óvörum. Og hefir þá ekki þurft nema einn stórhríðarbyl til þess að reka ísinn alveg upp í landsteina. En þá er orðið fullseint að gera tryggingarráðstafanir, þegar hafísinn er orðinn landfastur. Jafnvel þó að við gætum vitað með meiri fyrirvara en nágrannaþjóðir okkar um frosthæð og veðurhorfur í íshafinu, þá mundi það samt ekki bjarga okkur frá háskanum.

Hv. 3. landsk. má vera svo barnalega ánægður sem hann vill með spádóma sína um flugvjelaflutningana. Jeg benti á það í fyrri ræðu minni, að í stórhríðum, sem stæðu vikum saman, mundu þær koma að litlu gagni, eða að þeim mætti þá fara mikið fram frá því, sem þær eru nú. Þó að flugvjelar geti nú komið að einhverju liði til póstflutninga, þá er augljóst, að það er hin fáránlegasta fjarstæða, að ægt sje að grípa til þeirra, þegar í nauðir rekur um að bjarga 1/3 hluta landsmanna frá sulti.

Hv. 3. landsk. brosir enn mjög ánægjulega að þeirri fyndni sinni, að hafa sett flugvjelarnar í samband við þetta mál. En það verður áreiðanlega hann einn, sem hefir þá ánægju að brosa að þeirri hugmynd hans.

Þá var hv. þm. að tala um aðstöðu kaupstaða og sjávarþorpa og vildi ekki ganga inn á, að þau væru í neinni hættu í harðindum. Sjálfur þekkir hann aðeins skilyrðin hjer í Reykjavík. En Reykjavík stendur einmitt langbest að vígi að því er samgöngur snertir við útlönd, og þar er hafíshættan langminst hjer við land. En jeg get nú frætt hv. þm. um það, fyrst það þarf að fara með hann eins og barn á skólaaldri, að hættan af bjargarskorti í hafísáraharðindum er mest meðal þeirra, sem birgja sig síst að matvælum til lengri tíma. Hv. þm. ætti að kannast við þá verslunarhætti fólksins hjer í höfuðstaðnum, að þeir, sem búa næst verslununum, kaupa vörur aðeins til næsta máls og sækja föng sín daglega í búðirnar. Um leið og verslanirnar eru tæmdar að birgðum, þá er sulturinn kominn á heimilin. Þeir, sem síst mega treysta á góðar samgöngur og eiga lengst í kaupstað, þeir birgja sig jafnan best að heimilisforða.

Mjer er það vel ljóst, að ef hætta væri á því, að hafís lokaði siglingaleiðum til Reykjavíkur, þá yrði hún verst sett og fyrst örbjarga af öllum kaupstöðum á landinu; jafnvel þó að hv. 3. landsk. eigi þar heima með sínar skoðanir í þessum efnum.