16.04.1929
Efri deild: 46. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 98 í C-deild Alþingistíðinda. (2289)

78. mál, einkasala á nauðsynjavörum

Ingvar Pálmason:

Eins og nál. meiri hl. ber með sjer, hefi jeg skrifað undir það með fyrirvara, og get jeg því aðeins fylgt frv. út úr deildinni, að gerðar verði á því allmiklar breytingar.

Jeg skal strax taka það fram, að jeg er sammála hv. flm. (EF) um grundvallarástæður þær, er frv. byggist á. Sömuleiðis er jeg sammála honum um það, að ef ekkert er gert, getur vel hlotist slys af. En slys kalla jeg það, ef bjargarskortur verður á Norður- og Austurlandi vegna þeirra atvika, er frv. getur um. En jeg tel hinsvegar, að þetta frv. feli ekki í sjer þær ráðstafanir, er þarf að gera.

Aðaltilgangur þess er að veita sýslu- og bæjarfjelögum heimild til þess að taka í sínar hendur sölu á nauðsynjavörum, ef þau telja þess þörf. En jeg vil hinsvegar, að aðaltilgangur þess verði sá, að tryggja það, að eitthvað verði gert, en það virðist mjer ekki koma nægilega skýrt fram í frv., er hjer liggur fyrir, heldur er þar aðeins um heimild að ræða, sem að vísu getur verið nauðsynleg, en þó ekki nægileg út af fyrir sig. Það, sem þarf að koma skýrt fram, er það, að rjettum aðiljum sje gert að skyldu að tryggja það, að ekki verði skortur á matvælum. Það er þetta, sem á milli ber.

Jeg hafði nú hugsað mjer að koma með brtt. við frv., en það er vandasamt mjög til þess að þær geti orðið fullnægjandi. Jeg hefi heldur ekki haft góðar ástæður til þess að semja þær og mun því fresta því þangað til jeg sje, hvernig undirtektir málið fær nú við 2. umr. Hinsvegar get jeg ekki fylgt frv. óbreyttu. Samt mun jeg greiða því atkvæði til 3. umr., og komist það svo langt, mun jeg leitast við að bera fram brtt. við það, þótt jeg játi hinsvegar, að þær verða ekki eins vel undirbúnar og fullkomnar, sem vera ætti. Samt tel jeg gott og gagnlegt, að frv. þetta hefir komið fram, því þó ekki sje hægt að fallast á það, er það þó hending til Alþingis um að gefa þessu máli meiri gaum en verið hefir hin síðari ár.

Sje jeg svo ekki ástæðu til þess að fjölyrða frekar um málið á þessu stigi.