11.03.1929
Neðri deild: 19. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 109 í C-deild Alþingistíðinda. (2298)

38. mál, tekju- og eignarskattur

Frsm. minni hl. (Hjeðinn Valdimarsson):

Það kemur oft fyrir, að menn hafa skoðanaskifti á skemmri tíma en heilu ári, og því kemur mjer ekki til hugar að furða mig á því, að hv. þm. V.-Húnv. (HJ) skuli nú tala á móti þeim skoðunum, sem hann hjelt fram í fyrra. Frv. var borið fram af meiri hl. fjhn., sem hv. þm. V.-Húnv. þá var i, og sá sami skilningur í það lagður af meiri hl. og hæstv. stjórn hefir nú. Þetta er bert af umr. Jeg var frsm. málsins, og hefði jeg farið rangt með eitthvert atriði, hlyti hv. þm. V.-Húnv. að hafa risið upp og leiðrjett það. En hann sat hjá, og það sýnir, að jeg skýrði í öllu rjett frá. Hinsvegar hlyti hv. þm. V.-Húnv. að hafa staðið á móti frv. í fyrra, ef hann hefði þá haft sömu skoðanir á málinu og hann hefir nú. Þetta sýnir, að þessi hv. þm. hefir haft skoðanaskifti, og er ef til vill ekki ástæða til að álasa honum fyrir það.

Ástæðan til þess, að við, sem stóðum að frv. í fyrra, vildum láta miða við árstekjur en ekki við skatttekjur eftir að frádráttur hafði farið fram, var sú, að atvinnurekendur hafa góða aðstöðu eftir tekjuskattslögunum til að minka tekjuskatt sinn fram yfir það, sem aðrir gera. Með því að miða við 4000 kr. árstekjur var tilætlunin, að hinir tekjulægri atvinnurekendur lentu undir viðaukanum, af því að þeir stæðu betur að vígi um frádrátt heldur en launamenn, verkamenn og lágt launaðir starfsmenn hins opinbera.

Jeg skal játa, að þetta er ekki stórmál, og að ekki munar miklu fjárhagslega, hvort verður ofan á. Jeg hefi spurt einn úr meiri hl. hv. nefndar hve miklu lækkunin myndi nema, og kvað hann meiri hl. ekki einu sinni hafa aflað sjer upplýsinga um það, enda ef til vill ekki gott að afla skýrslna um það. Lækkunin gæti í mesta lagi munað 18 krónum og niður í 1 krónu hjá þessum tiltölulega fáu mönnum. En það er annað, sem jeg kann sjerstaklega illa við í þessu máli. Ef á að fara að taka upp þá stefnu að lækka skatta, þá á ekki að byrja á tekjuskattinum. Það eru margir skattar þungbærari en hann. Hann er ávalt af beinum tekjum einum, en tollar, eins og t. d. verðtollurinn, af beinum lífsnauðsynjum manna. Lækkunin ætti því fyrst og fremst að koma niður á tollunum.

Það hefir komið fram í blöðum bæjarins, að hæstv. forsrh. (TrÞ) hafi gefið út skipun um að 25% viðaukinn verði ekki innheimtur á þessu ári, enda þótt hann hefði rjett áður gefið skipun um að svo skyldi vera gert. Hefir verið sagt, að hann hafi lofað útgerðarmönnum þessu í sambandi við afskifti sín af kaupdeilunni í því skyni, að fá enda bundinn á verkbannið. Jeg minnist þess þó, að hæstv. stjórn þótti gott að fá þessa tekjuaukaheimild í fyrra og finst þetta því mjög ótrúlegt. Að vísu gat staðið svo á, að eigi hefði verið ástæða til að nota heimildina, en mjer finst mjög ótrúlegt, að ríkisstjórnin hafi greitt útgerðarmönnum þessa upphæð úr ríkissjóði fyrir það eitt, að ganga inn á sjálfsagðar sættir, sem þeir mundu hafa átt að vera fegnir að yrðu, hvernig svo sem leið um tekjuskattinn. Vil jeg hjer með gefa hæstv. forsrh. (TrÞ) tækifæri til að leiðrjetta þessar sögusagnir, ef rangar eru.

Ef ekki er tilætlunin að innheimta þenna viðauka, skiftir litlu máli, hvort frv. það, sem hjer liggur fyrir, verður að lögum eða ekki. Jeg hygg að jafnaðarmenn hafi litla löngun til að gefa hæstv. stjórn slíkar heimildir, ef þær eru ekki notaðar eins og til er ætlast.