11.03.1929
Neðri deild: 19. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 118 í C-deild Alþingistíðinda. (2304)

38. mál, tekju- og eignarskattur

Frsm. meiri hl. (Hannes Jónsson):

Jeg veit ekki hvaða ástæðu hv. 2. þm. Reykv. (HV) hefir til að bregða mjer um skoðanaskifti. Jeg hygg, að þeirra hafi ekki gætt hjá mjer í þingmálum, enda er mín þingsaga stutt. En hitt mætti taka fram, að æskilegt væri fyrir þingið og hv. 2. þm. Reykv. sjálfan, að hann hefði skoðanaskifti í sem flestum málum.

Hv. þm. heldur því fram, að afstaða sín hafi verið skýr í þessu máli í fyrra. Jeg verð að segja, að mjer þótti hún óvenju óskýr. Jeg skildi ekki ástæðuna til þess þá, en hún verður skiljanleg, ef hv. þm. hefir ætlað að fara á bak við vilja þingsins með óljósum orðatiltækjum. Úr því hv. þm. telur framsöguræðu sína í fyrra skýra, þá vil jeg spyrja hann, hvort hann vilji halda sjer við þá skoðun, er kemur fram í henni. Ef hann telur þau orð góð og gild, er styðja málsstað hans, þá verður hið sama að gilda einnig um önnur ummæli hans í sömu Alþingistíðindum. Í B-deild Alþingistíðindanna í fyrra, 3852. dálki, kemst hv. þm. svo að orði — með leyfi hæstv. forseta: „Hv. 1. þm. Reykv. spurði, hver tilgangurinn væri með 4000 kr. frádrættinum, hvort þær tekjur ættu ekki að vera skattskyldar. Frv. ber með sjer, að svo er sem fyr, því að gert er ráð fyrir auknum skatti einungis á hærri tekjum.“ — Þetta eru að vísu óljós ummæli. En þó er það augljóst, að hv. þm. ætlast hjer til, að skatturinn sje reiknaður af skattskyldum tekjum, en hvorki brúttó tekjum eða nettó tekjum eða neinu öðru. Orðin „svo er sem fyr“ benda ótvírætt í þessa átt, því skatturinn er reiknaður út eftir skattskyldum tekjum og svo ætti einnig að vera um viðaukann.

Það, sem við förum fram á, er að viðaukinn sje reiknaður út samkvæmt hinni ráðandi reglu.— En hitt er óhrekjanlegt, að samkvæmt lögunum, eins og þau eru nú, getur 70 kr. skattur sloppið við viðaukann, en 10 krónu skattur orðið fyrir honum.

Hv. þm. taldi frv. þetta „afskaplegt smámál“. En hvers vegna rís hann þá upp með slíku offorsi, þegar einungis er verið að færa lögin í sama form og skattalög eru yfirleitt í?

Hv. þm. fann okkur það til foráttu, að við hefðum ekki aflað upplýsinga um, hvað tekjumissir ríkissjóðs næmi miklu vegna þessa frv. Hann heldur því fram, að viðaukinn nemi um ½-¾ milj. kr. En því meiri, sem viðaukinn verður, því meiri ástæða er til að lagfæra lögin. Og því meir, sem tekjur ríkissjóðs vaxa fram yfir það, sem áætlað er, því ríkari ástæða er til að innheimta ekki viðaukann. Ef tekju- og eignarskatturinn hefir orðið um ½ milj. kr. fram yfir það, er gert var ráð fyrir, hvenær er þá ástæða til að innheimta ekki viðaukann ef ekki þá? En hv. þm. hefir nú reyndar unnið að því, að full þörf verður á þeim tekjuauka. (HV: Hvenær?) Jeg á við togaraverkfallið.

Jeg vil undirstrika þau orð hv. þm., að þetta er lítið mál. En þar er verið á rjettlátari og eðlilegri braut en hv. 2. þm. Reykv. vill leiða þingheim eftir.