11.03.1929
Neðri deild: 19. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 121 í C-deild Alþingistíðinda. (2306)

38. mál, tekju- og eignarskattur

Magnús Guðmundsson:

Mjer finst skylt að láta það í ljós, að jeg er algerlega samþykkur hv. frsm. (HJ) um þann skilning, er hann heldur fram, að lagður hafi verið í frv. í fyrra. Mjer finst undarlegt, að hv. 2. þm. Reykv. (HV) skuli halda því fram, að skatturinn eigi að miðast við brúttó tekjur.

Jeg hjelt að hann vissi, að það er ekki tilgangur skattalaganna að miða við brúttó tekjur. Jeg man ekki betur en það kæmi skýrt fram í umr. í fyrra. Jeg hefi að vísu ekki haft tíma til að fara í gegnum umræðurnar í þingtíðindunum og get því ekki dæmt um, hvort þær bera það með sjer. En jeg get ekki neitað því, að jeg varð dálítið hissa á úrskurði Stjórnarráðsins, þegar jeg heyrði hann, og skal jeg þó ekkert fullyrða um, hvort hann er rjettur eða rangur, en að sjálfsögðu hefir hann verið kveðinn upp eftir nákvæma yfirvegun.

Hvað við víkur sáttaumleitunum stjórnarinnar í kaupdeilunni, þá vil jeg spyrja hv. 2. þm. Reykv., hvort fulltrúar sjómanna hafi ekki verið við þær.

Það er undarlegt, að hv. þm. skuli ekki hafa spurt flokksbræður sína um það, hvort eftirgjöfin hafi verið ákveðin í samráði við þá. Annars get jeg tekið í þann strenginn, að jeg er þakklátur fyrir það, að viðaukinn við tekjuskattinn var feldur niður. En því get jeg ekki neitað, að það er óviðfeldið, ef það er sett í samband við lausn kaupdeilunnar. Jeg get tekið undir með hv. þm. Dal. (SE) um, að skýrt svar væri ákaflega æskilegt. Um heimild stjórnarinnar er enginn efi. Ef ekki var ætlunin að láta það á vald stjórnarinnar að innheimta viðaukann eða ekki, hví voru lögin þá ekki höfð í skipunarformi, sem venja er til um skattalög?

Jeg mun annars greiða atkv. með frv., en lít þó svo á, að ekki sje mikil ástæða til að samþ. það, því ef það er tilgangurinn að innheimta viðaukann á næsta ári, þá er nógur tími til að leiðrjetta þetta á næsta þingi.