11.03.1929
Neðri deild: 19. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 127 í C-deild Alþingistíðinda. (2308)

38. mál, tekju- og eignarskattur

Frsm. minni hl. (Hjeðinn Valdimarsson):

Jeg skal játa, að grein sú, er hv. þm. V.-Húnv. las upp úr ræðu minni, gaf ekki mikla hugmynd um það, hvaða skoðun jeg hefði haft á þessu máli í fyrra. Hlýtur þessi hluti ræðunnar að hafa aflagast hjá þingskrifaranum. En á bls. 3899 svara jeg aftur fyrirspurn hv. 1. þm. Reykv. og held jeg, að það svar mitt sje það skýrt, að auðvelt sje fyrir hvern óbrjálaðan mann að skilja það. Það hljóðar svo, — með leyfi hæstv. forseta: „Jeg hjelt satt að segja, að hv. þm. væri svo ljóst, hver munur væri á árstekjum og skatttekjum, að hann gæti ekki vilst á þeim. Jeg veit, að hv. þm. færir árstekjur sínar mjög gaumgæfilega á hverju ári, en skatttekjurnar koma fyrst til greina eftir að skattstjórn hefir dregið frá lögmætan frádrátt.“

Árstekjur veit hver maður hvað er, en skatttekjur eru þær tekjur, sem skattur er greiddur af, eftir að skattstofan hefir dregið frá lögleyfðan frádrátt. (MJ: Þá er óhætt að samþykkja frv.). Hv. þm. V.-Húnv. virtist ganga út frá því, að ekki væri hægt að hugsa sjer rjettlátari tekjuskatts-skala, og að hver breyting á þessum skala væri rjett, ef hún miðaðist hlutfallslega við tekjurnar. Jeg get ekki fallist á þetta, því jeg lít svo á, að það sje mikill munur á þeim skatt-skala, er nú er, og þeim, er að rjettu lagi ætti að vera.

Hv. 2. þm. Árn. sagði, að ekki gæti komið til mála að hæstv. forsrh. hefði lofað atvinnurekendum neinu um burtfellingu tekjuskattsviðaukans. Jeg geri ráð fyrir því, að hæstv. fjmrh. sje einfær um að svara því, og hefir reyndar þegar gert það, og á þann hátt, að ekki verður um vilst. Um hitt, hverju hæstv. forsrh. hafi lofað jafnaðarmönnum, veit jeg ekkert og get ekkert um það sagt, því að jeg var ekki í samningsnefndini. En hefði jeg verið í henni og sjómönnum hefði verið veitt einhver fríðindi, mundi jeg hafa talið mjer bæði heimilt og skylt að skýra frá því. Jeg þekki hinsvegar svo vel þá, sem sömdu fyrir hönd sjómanna, að jeg veit vel, að þeir munu ekki hafa gert kröfur til ríkissjóðs út úr kaupmálum sínum. Og jeg verð að álíta það mjög óviðeigandi, ef útgerðarmenn hafa notað þessa aðstöðu sína til þess, á ríkisins kostnað, að knýja fram einhver hlunnindi sjer til handa. Sjerstaklega er þetta þó vítavert hjá hv. 2. þm. G.-K., sem er þingmaður og á að gæta hagsmuna þjóðarheildarinnar sem slíkur.

Hv. þm. V.-Húnv. þyrfti jeg að spyrja að mörgu, en það verður að bíða í þetta sinn. Hann sagði m. a., að því meiri sem þessi tekjuauki væri, því meiri ástæða væri til þess að fella hann niður. Þetta verður ekki skilið nema á þann veg, að verra sje að afla ríkinu tekna með beinum sköttum en óbeinum, en þá virðist hv. þm. vera kominn nokkuð langt frá stefnuskrá flokks síns. Þá varð hv. þm. oft tvísaga í þessari stuttu ræðu sinni. T. d. sagði hann, að ef breytingin á frv. yrði ekki samþ., væri best að fella það. En svo sagði hann rjett á eftir, að þrátt fyrir alt mundi þó vera rjett að notfæra sjer það á næsta ári. Jeg fæ ekki skilið, hvernig hv. þm. ætlar að samræma þetta. Þá mintist hv. þm. eitthvað á verkföll og afskifti mín af þeim. Jeg vil ráðleggja honum að tala sem minst um það, því þau afskifti, sem hann hefir haft af slíkum málum, hafa orðið honum til lítils sóma.