11.03.1929
Neðri deild: 19. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 131 í C-deild Alþingistíðinda. (2310)

38. mál, tekju- og eignarskattur

Sigurjón Á. Ólafsson:

Ástæðan til þess, að jeg stend nú upp, eru ummæli 1. þm. Skagf. Hann beindi þeirri fyrirspurn til hv. 2. þm. Reykv. (HV), hvort hann, sem fulltrúi verkalýðsins, hefði eigi vitað um, hvað gerðist í sambandi við lok vinnudeilunnar. Þar eð jeg var einn af fulltrúum verkamanna, álit jeg mjer að vísu ekki skylt að segja frá því sem gerðist, en vil þó lýsa yfir því fyrir hönd mína og fjelaga minna, að það var ekki á vitorði okkar, fulltrúa sjómanna við samningana, að nokkrum fríðindum af hálfu ríkissjóðs hefði verið lofað til handa útgerðarmönnum, þegar samkomulagið komst á heima hjá forsætisráðherra.

Jeg ætla mjer ekki að vera margorður, en verð þó að víkja að þeim orðum, sem hv. 1. þm. Reykv. hafði um deiluna við Eimskipafjelagið og lausn hennar. Við fulltrúarnir lítum svo á, að Eimskipafjelagið gæti fyllilega greitt þá upphæð, sem við fórum fram á, en meiri hl. fjelagsstjórnarinnar vildi ekki leggja þá upphæð fram, en þó munu þar einnig hafa verið skiftar skoðanir um málið. Það voru flokksmenn hv. þm., sem þar rjeðu málum, og sýndu þar sem fyr bæði flónsku og smásálarskap. — Að endingu tókum við á móti þeirri sáttagerð, sem öllum er nú kunn, en álitum hins vegar, að enginn nauður ræki til, að ríkisstjórnin veitti fjelaginu nokkurn styrk. Eins var því farið með útgerðarmenn. Við álitum, að þeir væru færir um að greiða kaup það, sem fólst í sáttagerðinni, án þess að njóta nokkurra fríðinda. Hið sama virðist koma fram hjá þeim andstæðingum stjórnarinnar, sem víta hana fyrir þá ráðstöfun, sem út lítur fyrir að gerð hafi verið í sambandi við lausn kaupdeilunnar.