11.03.1929
Neðri deild: 19. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 132 í C-deild Alþingistíðinda. (2311)

38. mál, tekju- og eignarskattur

Halldór Stefánsson:

Jeg vildi víkja nokkrum orðum að þeim ágreiningi, sem risið hefir innan deildarinnar, út af því, hvað meint hafi verið með undanþágu frá aukaskattgreiðslu þeirri, sem ákveðin var í fyrra. Jeg tek undir álit frsm. meiri hl. Við áttum uppástunguna að undanþágunni og meintum skattskyldar tekjur, en við það má kannast, að það kemur óskýrt fram í lögunum. En það liggur í hlutarins eðli, að þessi var meiningin, því ef svo væri ekki, væri fjölskyldumanninum íþyngt meir en einhleypum mönnum. Jeg þykist fullviss þess, að innan deildarinnar sje enginn, sem vill ganga þannig frá lögunum, að viðaukinn komi þyngra niður á fjölskyldumönnum en einhleypum. Mjer kom það mjög á óvart, hvernig stjórnin skildi lög þessi. Hún leit svo á, að undanþágan væri ekki miðuð við skattskyldar tekjur, og byggir það á umræðunum, en tilgreinir þó sjerstaklega dálk 3899 í Þingtíðindunum, eða ræðu hv. frsm. meiri hl. Það má vel vera, að komast megi að líkri niðurstöðu, með því að lesa þetta eitt. En það verður að lesa meira en þetta eitt, til þess að hægt sje að byggja á því endanlegt álit. Ummæli frsm. um þetta atriði er víðar að finna í umr., og eru þau ærið óljós og óskýr. Þessi ummæli, sem til er vitnað, eru einna ákveðnust, en bæði er óvíst, að þau hafi fallið nákvæmlega svo, enda gátu þau farið fram hjá athygli manna. Benda vil jeg á, að samflokksmaður frsm., hv. þm. Ísaf., hefir í fyrra skilið þetta á sama hátt og jeg, og vísa jeg um það í Þingtíðindin, dálkana 3892–3894, en þar hafa umræðurnar brjálast í prentuninni. En þegar lesið er saman það, sem saman á, þá verða ummælin ekki skilin á annan hátt, en að hann skilji svo, sem persónufrádráttur eigi að koma til greina áður en þessi aukaskattur er lagður á.

Eins og jeg sagði áðan, kemur þessi skatthækkun misjafnlega hart niður á mönnum, ef persónufrádráttur er ekki tekinn til greina. Því er það ótrúlegt um þingmenn, ekki síst um jafnaðarmenn, að þeir fylgi slíkri lögskýringu, þar sem fátækir fjölskyldumenn verða mun harðara úti en þeir, sem einhleypir eru.