11.03.1929
Neðri deild: 19. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 139 í C-deild Alþingistíðinda. (2313)

38. mál, tekju- og eignarskattur

Frsm. meiri hl. (Hannes Jónsson):

Hv. 2. þm. Reykv. (HV) sagði, að jeg teldi rjettlátan þann tekju- og eignarskatts-skala, sem nú er í gildi, en að hann teldi miðbik skalans ranglátt. Nú hlýtur hv. þm. að muna, að í viðtali við mig hefir hann einmitt staðfest það, sem flm. og fjhn. halda fram, því að hann telur skalann sjerstaklega ranglátan, þegar um 4–8 þúsund króna tekjur er að ræða. En skalinn er miðaður við skattskyldar tekjur. Þetta „ranglæti“ vildi hann svo leiðrjetta með viðaukanum.

Þá hjelt hv. þm. því fram, að það væri mótsögn í því hjá mjer, að vilja koma fram breytingum núna, og ef þær næðu ekki fram að ganga, yrði betra að nema lögin úr gildi. Þetta er ekki rjett. Jeg álít lögin góð að því leyti, að í þeim felst heimild fyrir ríkisstjórnina til þess að auka tekjur ríkissjóðs, ef á þarf að halda. En þegar sá böggull fylgir skammrifi, að fátækari hluta þjóðarinnar er fórnað á stalli órjettlætisins, þá get jeg ekki lengur orðið samferða hv. 2. þm. Reykv.

Út af því, sem rætt hefir verið um, að hæstv. stjórn hefir gefið út tilkynningu um, að ekki skuli innheimta gengisviðaukann í ár, vil jeg taka það fram, að einmitt þegar fyrst var gefin út fyrirskipun um að innheimta þenna viðauka, stóð yfir verkfall, og þá var ekki hægt að segja neitt um, hve mikið tjón verkfallið mundi leiða yfir landið, svo að þá var ástæða til fyrir stjórnina að sleppa ekki þeim möguleika til þess að afla ríkissjóði tekna. En þegar stjórninni tekst að sætta þessa ójafnaðarmenn, sem í hlut áttu, þá horfir málið öðruvísi við. Og jeg býst við því, að ef sæmilega gengur hjer eftir, muni tekjurnar ekki verða svo litlar, að ástæða sje til að innheimta viðaukann.

Hv. þm. var að segja frá einhverri kaupdeilu, sem jeg hefði átt að taka þátt í. Jeg vil segja, að hann er ekki óhlutdrægur hæstirjettur í því efni. Minn þáttur í kaupdeilum hefir verið sá, að stilla svo til, að hver maður fengi laun eftir því sem verk hans voru verð, og að öðru leyti farið eftir almennum kaupgreiðslum í hjeraðinu. Jeg hefi neitað að taka suma menn í vinnu, af því að jeg taldi þá alls ekki færa um að leysa vinnuna af hendi. Jeg hefði t. d. alls ekki tekið hv. 2. þm. Reykv. Annars ætla jeg óhræddur að láta sýslunga mína dæma um framkomu mína gagnvart þeim mönnum, sem unnið hafa hjá því fjelagi, sem jeg veiti forstöðu.

Hv. þm. mintist á, að jeg mundi ekki verða 1. þm. V.-Húnv. næst. Hann heldur víst, að hann sje 2. þm. V.- Húnv. Þm. er áreiðanlega óhætt að spara sjer öll heilabrot um það, hvar jeg muni verða í röðinni í áliti manna norður þar, hann getur að minsta ekki haft nein áhrif á það.

Ef hv. 2. þm. Reykv. langar til að rifja upp einhverjar deilur frá Hvammstanga, þá gæti hann rent huganum til þess tíma, sem hann dvaldi þar, og skemt sjer við endurminningarnar um það, þegar hann með yfirgangi ætlaði að láta hendur skifta í deilu, sem reis við uppskipunarvinnu og honum kom ekkert við. En karlarnir ráku hann af höndum sjer, og svo myndi enn fara, ef hv. þm. vildi eitthvað bekkjast til við þá. (HV: Þetta er ósatt.) Ef hv. þm. vill fá vottfesta umsögn, skal jeg með ánægju útvega hana. (HV: Jeg skora á þingmanninn að koma með hana).

Nei, ef jeg fæ ekki kjörfylgi, þá er það ekki af því, að jeg hafi risið gegn hv. 2. þm. Reykv. og skoðanabræðrum hans, heldur fyrir rangan málflutning minna andstæðinga um að jeg væri í of náinni samvinnu við hv. 2. þm. Reykv. og hans fylgifiska.