11.03.1929
Neðri deild: 19. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 142 í C-deild Alþingistíðinda. (2317)

38. mál, tekju- og eignarskattur

Sigurður Eggerz:

Jeg vil segja hæstv. forsrh., að hann hefir engan rjett til þess að dylja fyrir Alþingi aðgerðir sínar í öðru eins stórmáli og verkfallsmálinu, að svo miklu leyti sem fje er ráðstafað í sambandi við það. Hann hefir ekki leyfi til að gera slíkar ákvarðanir án þess að standa fulltrúum þjóðarinnar skil á gerðum sínum. Hver þingmaður á heimtingu á að fá að vita, hvernig stjórnin ráðstafar ½ miljón króna.

Út af seinustu orðum hæstv. ráðherra er mjer ljúft að geta þess, að það voru ótal menn úr öllum flokkum, sem báðu mig um að bjóða mig fram til borgarstjóra, þar á meðal voru einnig jafnaðarmenn. Er jeg þeim auðvitað þakklátur fyrir traust það, er þeir sýndu mjer. Jeg hugsa meira að segja, að hæstv. ráðherra hafi sjálfur kosið mig. (Forsrh.: Ónei). Að því er framboð í Gullbringu- og Kjósarsýslu snertir, hefi jeg margoft skýrt frá því, að jafnaðarmenn í Hafnarfirði sögðu mjer, að þeir mundu engan setja fram, ef jeg byði mig fram, en jeg bað ekki um stuðning þeirra. í seinna sinnið kom hæstv. ráðherra til mín og bauð mjer stuðning Framsóknarflokksins. Ekki vantaði traustið þá.