14.03.1929
Neðri deild: 22. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 163 í C-deild Alþingistíðinda. (2330)

38. mál, tekju- og eignarskattur

Jón Ólafsson:

Mjer finst hv. þdm., sem talað hafa, bera ríkissjóð undarlega mikið fyrir brjósti. Það er engu líkara, en að þeir sjeu að barma sjer yfir því, að ríkissjóður hafi tapað stórfje, sem hann hafi átt heimting á að fá. Nú vildi jeg leyfa mjer að spyrja: Hvað er ríkissjóður í raun og veru? Hann er ekkert annað en máttur eða geta borgaranna til þess að inna af höndum þau gjöld, sem löggjöfinni þóknast að leggja á þá.

Nú stóð svo á, að borgarar ríkisins höfðu meðan á verkfallinu stóð, tapað vegna atvinnumissis alt að 2½ miljón króna. Og þessi atvinnumissir hafði komið harðast niður á Reykjavík, eða borgurum hennar, eins og líka tekjuskatturinn gerir.

Mjer finst því fyrir mitt leyti, að hjer hafi ekki annað gerst en það, sem rjett var, og hæstv. stj. var jafnvel skylt að gera, er um jafnmikið tjón var að ræða vegna verkfallsins: að sleppa tekjuskattsaukanum með það fyrir augum, að gjaldgeta borgaranna hefði rýrnað til stórra muna til þess að greiða þennan skatt sama árið og tjónið af verkfallinu veltur yfir í miljónum króna.

Hitt læt jeg liggja milli hluta, hvort þetta hafi verið gert fyrir útgerðina eða ekki. Það hefir ekki komið neitt fram um það í umr., að það væri útgerðinni til neinna verulegra hagsbóta. Það hafa líka fæst útgerðarfjelögin því láni að fagna, að atvinnureksturinn færi þeim þann hagnað, að skattaukinn komi þungt niður á þeim. En hann kemur niður allvíða annars staðar, bæði á hásetum, daglaunamönnum o. fl., sem orðið hafa fyrir stórtjóni af völdum verkfallsins.

En eins og jeg tók fram, er mánaðartap og daglegt tap á meðan á verkfallinu stóð svo mikið, að erfitt er að reikna það í tölum. Þess vegna er vert að veita því sterkari athygli en gert er, að þegar verið er að stofna bjargræði landsmanna í þann voða og vitleysu, sem verkföll hafa í för með sjer, þá eru það þörfustu menn þjóðarinnar, sem bera gæfu til að leiða slík mál til lykta, nærri því á hverjum grundvelli sem er.