14.03.1929
Neðri deild: 22. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 165 í C-deild Alþingistíðinda. (2331)

38. mál, tekju- og eignarskattur

Gunnar Sigurðsson:

Jeg hefi aðeins kvatt mjer hljóðs til þess að lýsa því yfir, að mjer leiðist að hlusta á þennan loddaraskap, sem hjer er leikinn í hv. deild, því vitanlegt er, að hver einasti hv. þdm. veit, hvað hjer hefir gerst.

Menn vissu, að hæstv. stj. var á báðum áttum með að heimta inn tekjuskattsaukann, en svo fjell í hennar skaut sá vandi, að leysa úr kaupdeilunni, og það rjeð baggamuninn.

Þess vegna tek jeg undir með hv. 1. þm. Reykv. og öðrum, sem talað hafa í sömu átt, að það er ekki rjett af hæstv. forsrh. að hafa ekki viljað svara þeim spurningum, er til hans hefir verið beint í þessu skyni. Frá mínu sjónarmiði sjeð, hefði hann átt að segja eins og var.

Þrátt fyrir þessar aðfinningar, er jeg alls ekki að álasa hæstv. stj. fyrir það, hvernig hún leysti úr kaupdeilunni. Hjer var eflaust það mikið í húfi, að rjettmætt hefði verið að slaka til og gefa eftir skattaukann, úr því að takast mátti að leiða kaupdeiluna til lykta með því. Og þó kannske að segja megi, að hjer hafi verið brotin „princip“, þá hefir hæstv. stj. þá afsökun, að hún reyndi með því að forða yfirvofandi hættu, sem óhjákvæmilega hafði leitt af lengri kaupdeilu.