14.03.1929
Neðri deild: 22. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 166 í C-deild Alþingistíðinda. (2332)

38. mál, tekju- og eignarskattur

Ásgeir Ásgeirsson:

Hv. þm. Dal. var að kvarta undan því, að einhver Framsóknarmaður hefði veitt sjer ákúrur fyrir að hafa rekið hníf í bakið á hæstv. stj. (SE: Það var ekki hv. þm. V.-Ísf.). Jeg vissi það vel. En nú er rjett hann fái mitt þakklæti fyrir það, að hafa nú með síðustu ræðu sinni klappað hæstv. stj. á vangann. Ef hann hefði talað eins um þetta mál áður, þá var ekkert að segja. Hann afsakar hæstv. stj. og þakkar henni jafnvel fyrir það, sem hann hafði talið henni til áfellingar áður. Eða annað gat jeg ekki fengið út úr brosi hv. þm. Dal., og hans vingjarnlegu ræðu. Hitt er annað mál, að ef hann rís upp aftur og svarar mjer í vonsku, þá er sýnt, að honum hefir ekki verið alvara með gælurnar.

Annars var það hv. 1. þm. Reykv., sem knúði mig til þess að standa upp. Það, sem jeg vildi segja, er það, að jeg er einn af þeim mörgu, sem eru þakklátir hæstv. forsrh. fyrir afskifti hans af kaupdeilunni, og jeg er sannfærður um, að mikill meiri hluti þjóðarinnar er það líka.

Hitt knúði mig þó ekki síður til þess að standa upp, að þessi sami hv. þm. talaði um lausn kaupdeilunnar eins og ríkissjóður hefði tapað stórfje við það, að deilan var leyst. Mjer finst þessum hv. þm. ætti að vera það fagnaðarefni, að þetta er unnið upp með aukinni framleiðslu og tollum og sköttum, sem þar af leiða, svo að enginn er fátækari, en allir ríkari eftir.

Það dugar ekki að halda því tvennu fram í senn, að kaupstaðirnir geti ekki lengur risið undir skattabyrðinni, og segja svo, að þegar hætt er við að innheimta skattauka, þá verði sveitirnar fyrir borð bornar og þær látnar borga brúsann.

Annars virðist það betur viðeigandi hjá hv. þm. að segja hreint út, þetta sem hann meinar um stjórnina: bölvuð var hún, bölvuð er hún og bölvuð skal hún vera, hvað svo sem hún gerir. Það skiftir engu máli, hvort togarakaup er hærra eða lægra. Hitt skiftir meira, að togarakaup hefir verið hærra og verður altaf hærra en það kaup, sem goldið er í sveitum. Ef hv. 1. þm. Reykv. er þessi mikli bændavinur, og hann vill forða sveitunum frá þeim voða, sem leiðir af hærra kaupi í kaupstöðum, þá ætti hann hreint og beint að berjast á móti því, að hér vœri rekin togaraútgerð. Það er ekki gott fyrir þá menn að tala um þessa hluti, sem hafa annan fótinn á Austurvelli en hinn einhversstaðar úti í sveitum landsins. Það er ekki hægt að ræða málið á þeim grundvelli, að barma sjer fyrir kaupstaðina í dag vegna ranglátrar skattabyrði, en segja svo á morgun, þegar byrðinni er ljett af kaupstöðunum, að slík ráðstöfun sje óviðunandi sveitanna vegna. Jeg bendi aðeins á þetta ósamræmi, sem kom fram í ræðu þessa mikla bændavinar.

Jeg lít svo á, að hjer verði altaf um ólíkt kaup að ræða, án þess að það þurfi að valda rógi milli kaupstaða og sveita. Það er vitanlegt, að sú tala manna er takmörkuð, sem getur fengið atvinnu á togaraflota okkar, og að sú stjett starfar út af fyrir sig, án þess að hafa gífurleg áhrif á kaupgjald á öðrum sviðum.

Mjer skildist, að hv. 1. þm. Reykv. vildi láta skína í gegnum aðfinningar sínar í garð hæstv. stjórnar, að stjórnarandstaðan hefði síst verið vægari nje betri í tíð fyrverandi stjórnar, og má það vel vera. Enda skal jeg játa, að mjer virtist stundum að fráfarandi í stjórn verða fyrir órjettmætum aðfinningum og áfeld fyrir það, sem hún átti ekki skilið.

En hvaða afsökun er það fyrir árás þeirri, er þessi hv. þm. hefir gert á hæstv. forsrh. nú í dag. Þm. ætti þó sem guðfræðingur að kannast við það sem meistari Jón segir: að fordæming eins er ekki annars afbötun.

Jeg vil að lokum þakka hv. 2. þm. G.-K. (ÓTh) og hv. 3. þm. Reykv. (JÓl) fyrir að þeir hafa í þessum umræðum sýnt drengskap, sem er fágætari en skyldi í stjórnmálaviðskiftum. (MJ: Það hefði að ýmsu leyti verið skemtilegra, að þeir væru ekki báðir útgerðarmenn, þessir þm., sem mest og best hafa þakkað stjórninni).