14.03.1929
Neðri deild: 22. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 170 í C-deild Alþingistíðinda. (2334)

38. mál, tekju- og eignarskattur

Magnús Torfason:

Jeg stend nú upp einungis af því, að kallað var á mig. Að öðru leyti mun jeg ekkert til þessara mála leggja. Jeg skal lýsa yfir því strax, að andstaðan gegn fyrverandi stjórn var að ýmsu leyti mun gæfari en andstaðan gegn núverandi stjórn. Jeg man sjerstaklega eftir því, að sá forsætisráðherra, sem með völdin fór 1926, lýsti því yfir að eldhúsdegi loknum, að eiginlega hefði ekkert verið borið á stjórnina þegar á reyndi, og hygg jeg, að það hafi verið rjett. Enda man jeg það, að við þinglok heyrðist úr mörgum áttum, að það þing hefði verið með friðsamasta móti. Sama er að segja um þingið 1927; það mun hafa verið mesta friðsemdarþing. (MJ: Það er nú ekki von að þeir góðu sjeu skammaðir eins og þeir illu). Já, við skulum nú spara okkur allan mannjöfnuð að sinni. Má vera, að okkur gefist tækifæri til þess á eldhúsdegi.

Jeg verð að svara því, sem slegið var fram, að jeg vissi ekki hvað gerst hefði í sáttaumleitunum hæstv. forsrh. Jeg get upplýst það, að jeg átti tal við hæstv. forsrh. skömmu áður en hann hóf milligöngu í kaupdeilunni. Barst þá í tal fyrirskipunin um að innheimta skattaukann, og gat jeg ekki betur skilið en hann sæi eftir að hafa gefið hana út. Jeg get því trúað, að hæstv. forsrh. hafi verið ráðinn í að taka skipunina aftur, ef verkfallinu ljetti af innan skaplegs tíma. Þannig er þessu þá varið. Hafi útgerðarmenn farið fram á eitthvað við stjórnina, þá hefir hún ekkert gefið eftir, nema það sem hún var áður staðráðin í að gera. Að vísu veit jeg ekkert um þetta með vissu, en jeg get þess til, að þannig sje þessu varið. Það er því engin rökrjett ályktun, að þessi eftirgjöf þurfi að standa í beinu sambandi við lausn kaupdeilunnar. Það voru meira en nægar ástæður til þess að hverfa frá því að innheimta skattaukann, og er því ástæðulaust að bendla þeirri ráðstöfun við lausn kaupdeilunnar.